Helgarsprokið 16. apríl 2006

106. tbl. 10. árg.
Mér er það minnisstætt, að þegar við hjónin vorum ung var það ófrávíkjanleg krafa vísindanna, að ungbörn skyldu látin afskiptalaus sem mest. Það átti að gefa þeim á vissum tímum, á fjögurra stunda fresti. Ekki að snerta við þeim þar á milli, hvernig sem þau létu. Þau höfðu bara gott af því að orga!
Ekki mátti vagga þeim, ekki dilla þeim, ekki gæla við þau. Slíkt frumstætt háttalag átti að skaða mannverurnar í þeim heimi, sem vísindin voru að taka í sína umsjá. …
Í þá daga þurftu vísindin ekki að læra af náttúrunni.
Ég lærði aldrei mikið í náttúrufræði, því miður. En mér finnst ég hafa tekið eftir því, að varla sé til svo vesalt kvikyndi með volgu blóði, að það láti ekki vel að barni sínu með sínum hætti.
Allt ungviði á hærri þróunarstigum þarf á því að halda, að fyrsta viðmót þeirrar veraldar, sem bíður þess, veki því traust og þar með kjark og lífsvilja.
Mannsbarnið er því síður undantekning í þessu sem það er flóknara í gerðinni, þarf meiri kröfum að svara og nýtur ríkulegri kosta í lífinu en dýrið.
Áður nefndar vísindakenningar, sem forseldrar áttu að beygja sig fyrir, þegar 20. öldin var ung, steyptust um koll við lítinn orðstír.
– Sigurbjörn Einarsson, Um landið hér, bls. 219-220.

H ver tíð kemur sér upp sínum dillum til þess að láta stjórnast af. Alvarlegastar hafa auðvitað verið frænkurnar kommúnismi, nasismi og sósíalismi, en þær eru margar aðrar sem fólk dansar eftir þó afleiðingarnar verði auðvitað ekki í líkingu við hinar. Allskyns kenningar um það hvernig eigi að standa að málum vaða uppi og margir lúta hverri og einni um skeið. Sú kenning sem Sigurbjörn Einarsson biskup rifjar upp, hún var nú ein. Þá mátti alls ekki skipta sér af börnum, það var einmitt þeim fyrir bestu að herða þau við eigin grát. Nú er að vissu leyti þveröfugt uppi á teningnum. Nú eiga börn helst að vera innpökkuð og í eilífri skemmtidagskrá hins opinbera og foreldrarnir á launum hjá ríkinu fyrir að vera dillandi krakkanum. Og raunar snýst verndarstefnan ekki aðeins um börn. Það verður að vernda fólk fyrir öllu nema verndinni. Komi nokkuð fyrir, eftir alla varúðina, þá fá allir hlutaðeigandi áfallahjálp. Standi hún ekki til boða þá er gerð um það frétt. Þegar hús brann í miðbænum fyrir skömmu þá var litil frétt um brunann en löng um að einhver sem hoppaði út úr húsi varð að bíða stutta stund eftir sálfræðingi. Danskur hermaður féll á dögunum í Írak. Yfirmennirnir í Kaupmannahöfn brugðust skjótt við og sendu heilan her af sálfræðingum að ræða við hina í hersveitinni og svo eru til menn sem halda að Evrópulönd geti framar unnið stríð.

„Fagmennska er heróp tímans. Nú skiptir ekki svo miklu máli hvort ákvörðun er rétt – en hamingjan hjálpi okkur ef hún var ekki tekin eftir öllum kúnstarinnar reglum. Sjaldan er spurt hvort ákvörðun sé rétt en oft hvernig hún hafi verið undirbúin.“

Í þá daga þurftu vísindin ekki að læra af náttúrunni, sagði Sigurbjörn Einarsson. En telja þau eða aðrir sig þurfa þess í dag? Eru það ekki aðallega ný „viðhorf í jafnréttismálum“ sem ráða för þegar kemur að löggjöf sem snertir börn og fjölskyldur? Er vitað til þess að náttúran sé innt álits? Hvaða hagsmunir barna eða lög náttúrunnar ætli að ráði því til dæmis að stjórnvöld vilji fremur að fæðingarorlofsréttur falli niður en að foreldrar geti fært hann milli sín að vild? Eða fæðingarorlofsréttur með barni, sem aðeins á eitt foreldri á lífi, sé þriðjungi skemmri en þeim börnum sem eiga tvo?

En hvaða dillur eru það svo sem hafa mest áhrif á opinbert líf á Íslandi þessi misserin? Ein myndi vera trúin á fagmennskuna. Fagmennska er heróp tímans. Nú skiptir ekki svo miklu máli hvort ákvörðun er rétt – en hamingjan hjálpi okkur ef hún var ekki tekin eftir öllum kúnstarinnar reglum. Sjaldan er spurt hvort ákvörðun sé rétt en oft hvernig hún hafi verið undirbúin. Umræður á alþingi snúast að sama skapi ósjaldan um að telja fram hverjir utanþings hafi fagnað eða varað við tillögum þingmannsins, hve lengi hafi verið barist fyrir málinu og hve framganga flutningsmanns sé fagleg og hinna þá ófagleg, eða öfugt. En að þingmenn geti í fáum orðum lýst persónulegri skoðun sinni, það er öllu minna um það núorðið. Miklu frekar er því lýst að einhver nefnd hafi komist að einhverri niðurstöðu eða að nú hafi náðst þessi eða hin sáttin sem þingmenn mega auðvitað ekki rjúfa.

Sama gildir og enn fremur um mannaráðningar. Þá þarf að fara fram einhver skoðun á æviágripi umsækjenda með talningu á námskeiðum sem þeir hafa sótt, svona eins og slík skoðun segi nokkuð um manninn sjálfan. Mestu máli skiptir þó að hafa umsagnaraðila, helst ef hann heitir „dómnefnd“. Þá er umsækjandi skyndilega farinn að styðjast við það sem nútíminn hefur mesta trú á: „faglegt mat óháðra aðila“. Að vísu er það svo, að „óháður aðili“ er sú skepna sem síst er finnanleg í sköpunarverkinu og allar dómnefndirnar eru, ef einhver myndi gá, skipaðar fólki af holdi og blóði, fólki sem tengist væntanlegum starfsvettvangi og hefur sínar skoðanir á og hagsmuni af því hverjir ráðast þar til starfa og hverjir ekki. Og þegar álitsgjafarnir þurfa ekki að bera neina ábyrgð á vali sínu heldur fá fyrirhafnarlaust upp í hendurnar trompið „óháður aðili“ þá er ekki furða þó álitin séu oft í raun lítils virði.

Þessu tengd er áráttan að koma upp „sjálfstæðum eftirlitsstofnunum“. Gaman væri að vita hvort höfundar og stuðningsmenn þess hugtaks hafa gert upp við sig hvar þær stofnanir eiga að falla innan flokkunarkerfis Darwins því sjaldan er annað að heyra en þetta séu sjálfstæðar lífverur, hlutlausar óháðar og varla skeikular. Að minnsta kosti þykir nútímanum mjög fínt að fela þeim meiri og meiri áhrif og ráðherrar eiga vart orð af heilagleika ef þeir eru beðnir um álit á störfum slíkra stofnana.

Staðreyndin er þó sú, að hugtakið „sjálfstæð eftirlitsstofnun“ þýðir í raun að örfáum mönnum, sem enginn hefur kosið, er veitt ómælt vald á vissu sviði og þeim leyft að leika lausum hala til sjötugs. Það þykir óskaplega fínt að færa verkefni frá stjórnmálamönnum en því miður þá er það yfirleitt verra en ekki ef þau eru ekki færð alveg frá hinu opinbera. Það er auðvitað skoðun Vefþjóðviljans að hið opinbera eigi að sinna sem fæstu, en í flestum tilfellum er þá skárra að opinberar ákvarðanir taki fólk sem hefur lýðræðislegt umboð en að þær taki menn sem ekkert slíkt umboð hafa. Margir halda að ákvarðanir stjórnmálamanna séu verri eða á einhvern hátt spilltari en þær sem „óháðir aðilar“ myndu taka. Svo þarf alls ekki að vera. Menn mega ekki láta það rugla sig að stjórnmálamenn búa við stöðuga gagnrýni annarra stjórnmálamanna og margir þeirra búa einnig við stöðuga gagnrýni fjölmiðla. Af þessum sökum geta flestir með sjálfum sér hugsað upp einhverjar ákvarðanir stjórnmálamanns sem þeim þykir hafa orkað tvímælis eða meira en það. En það er ekki þar með sagt að þær séu nokkuð betri ákvarðanir starfsmanna eftirlitsstofnananna, sérfræðinganna í dómnefndunum, höfðingjanna í úrskurðarnefndunum eða hvað þeir heita allir þessir óháðu menn sem ráðstafa lífi borgaranna. Þessir óháðu menn hafa einfaldlega ekki búið við það að vera settir undir sömu smásjá og stjórnmálamennirnir og það eru engir sem hafa almenna hagsmuni af því að grafa undan þeim. Stjórnarandstaða hefur ástæðu til þess að skapa sem mesta tortryggni í garð stjórnvalda – því hún vill sjálf komast að. Það hefur enginn hagsmuni af því að leggjast með sama hætti yfir álit kærunefnda, dómnefnda eða umboðsmanns alþingis svo dæmi sé tekið. Og það sem meira er, allir þessir „óháðu aðilar“ vita mæta vel að það verður ekki lagst yfir álit þeirra. Þeir geta sent hverjum sem er tóninn í trausti þess.

Ef það væri einhver hugmynd sem nútíminn ætti að reyna að hrista af sér, þá er það oftrúin á „fagmennskuna“.

„Hann bar vor sár, og lagði á sig vor harmkvæli.“ Altaristafla Silfrastaðakirkju í Skagafjarðarprófastdæmi, eftir Þorstein Guðmundsson frá Hlíð, máluð 1853. Myndin sýnir Jesúm á krossinum, María Guðsmóðir stendur honum til vinstri handar en María Magdalena krýpur. Mynd tekin úr 5. bindi Kirkna Íslands.

Hér að ofan var vitnað til orða dr. theol. h. c. Sigurbjarnar Einarssonar, þess prests íslensks sem kunnastur var á síðustu öld og enn í dag. En þó mikið sé í Sigurbjörn varið þá er hann ekki sá prestur sem mest hefur kunnað hér fyrir sér. Sigurbjörn glímdi og glímir enn við þá öld þegar „landið er að verða heiðið aftur“ eins og hann orðaði það einu sinni sjálfur. Annar íslenskur prestur, Sæmundur Sigfússon að nafni, stóð þó ekki síður í ströngu því hann glímdi iðulega við kölska sjálfan og er hætt við að í dag hefði umboðsmaður neytenda alvarlegar athugasemdir við það hversu kölski var hlunnfarinn í þeim viðskiptum. Hefur sennilega enginn oftar orðið af kaupi sínu en kölski eftir að hafa samið um sál þessa prests. Og í tilefni dagsins þá má auk þess minna á, að Jón Árnason segir frá því að eitt sinn vantaði Sæmund fjósamann. „Tók hann þá kölska og lét hann vera í fjósinu hjá sér. Fór það allt vel, og leið svo fram á útmánuði, að kölski gjörði verk sín með öllum sóma. En á meðan síra Sæmundur var í stólnum á páskadaginn, bar kölski alla mykjuna í haug fyrir framan kórdyrnar, svo þegar prestur ætlaði út eftir messuna. þá komst hann það ekki. Sér hann þá, hvað um er að vera, stefnir til sín kölska og lætur hann nauðugan viljugan bera burt alla mykjuna frá kirkjudyrunum og á sinn stað. Gekk síra Sæmundur svo fast að honum, að hann lét hann seinast sleikja upp leifarnar með tungunni. Sleikti þá kölski svo fast, að það kom laut í helluna fyrir framan kirkjudyrnar. Þessi hella er enn í dag í Odda og nú þó ekki nema fjórðungur hennar. Liggur hún nú fyrir framan bæjardyrnar, og sér enn í hana lautina.“

Vefþjóðviljinn óskar lesendum öllum gleðilegra páska.