Laugardagur 15. apríl 2006

105. tbl. 10. árg.

N ú fara hættulegir tímar í hönd fyrir skattgreiðendur. Síður dagblaðanna og mínútur fréttatímanna og kjaftaþáttanna eru teknar að fyllast af fólki sem vill gera allt fyrir alla og sneiðir hjá því að ræða kostnaðinn af góðmennskunni. Þetta er svo sem ekkert annað en við var að búast en jafn hvimleitt engu að síður að sjá frambjóðendur storma fram hvern af öðrum með loforð um að auka útgjöld sem óhjákvæmilega er jafnframt loforð um hækkun skatta.

Samfylkingin ætlar á næsta kjörtímabili að taka að sér tímastjórnun fyrir Reykvíkinga, sem vitaskuld geta ekki frekar ráðstafað tíma sínum en fjármunum hjálparlaust.

Sumt af því sem rætt er um og ógnar veskjum skattgreiðenda snýst um skipulagsmál. Reykvíkingar hafa til að mynda lengi þurft að hlusta á sömu umræðuna um flugvöllinn í Vatnsmýrinni og alltaf koma fram nýir og nýir frambjóðendur með gamlar og slitnar „lausnir“ á því „vandamáli“ að Reykjavíkurflugvöllur er í Reykjavík. Sumir vilja flytja völlinn  upp á heiðar og aðrir út á sjó. Það eina sem vantar er tillögu um að flugvöllurinn verði lagður í stokk.

Skáldlega þenkjandi frambjóðendur ættu þó ekki að víla fyrir sér að leggja slíkt til. Eitt skáldið, sem býður fram undir nafninu Oddný Sturludóttir og er frambjóðandi Samfylkingarinnar, byrjaði til dæmis aðsenda grein sína í Morgunblaðinu á skírdag á þessum orðum: „Tíminn er trunta sem æðir áfram á ógnarhraða og gerir nútímafólki erfitt fyrir að njóta lífsins.“ Oddný er vafalítið áhrifamaður í Tímastjórnunarfélaginu, ef ekki í sjálfu Hagræðingarfélaginu, því að hún býður sig fram til þess að skipuleggja tíma almennings á milli klukkan tvö og fimm eftir hádegi. Grein sína endar Oddný á þessum orðum: „Ef litið er um öxl og horft yfir breytingarnar á öllu nærumhverfi barna og unglinga undir stjórn félagshyggjuafla í borgarstjórn síðastliðin 12 ár er ljóst að mikið og gott starf hefur verið unnið. Næst á dagskrá er tíminn milli klukkan tvö og fimm. Þar er verk að vinna og klukkan tifar. Við erum tilbúin í slaginn.“

Samfylkingin hyggst sem sagt slást við klukkuna – tímatruntuna – á næsta kjörtímabili. Þar verður tekið fast á enda minna armbandsúrin óneitanlega á vindmyllurnar skelfilegu sem hugumstórir menn  hafa áður beitt sér gegn. Samfylkingin hefur áhyggjur af því, ef marka má grein Oddnýjar en um það þorir Vefþjóðviljinn ekkert að fullyrða, að kerfið sem borgin hefur byggt upp í kringum börnin í borginni sé gallað og sói tíma bæði barna og foreldra. Lausnin á þessu er ekki sú að mati Samfylkingarinnar að færa aukin völd til foreldra og leyfa þeim að velja sjálfum þá þjónustu sem þeim hentar  best. Nei, lausnin er að borgin taki tímann á milli klukkan tvö og fimm á dagskrá og skipuleggi hann enn rækilegar en áður.

Það er mikil gæfa fyrir borgarbúa að í framboði til borgarstjórnar skuli vera fólk sem treystir sér til að skipuleggja hverja mínútu í lífi hvers manns innan borgarmarkanna.

Í Fréttablaðinu í dag segir frá því að niðurstaða íbúafundar á Mýrum eftir sinubrunann mikla hafi verið sú að íbúarnir hefðu þurft áfallahjálp eftir brunann. Vissulega brann mikil sina og annar gróður á Mýrum, en þar brunnu engin mannvirki og hvorki mönnum né bústofni varð meint af, en sumir misstu að vísu svefn og þurftu að berjast við eldinn í nokkra daga. Getur verið að krafa um áfallahjálp vegna sinubrunans segi meira um árangur tiltekinna starfsstétta í kynningar- og útbreiðslumálum en um mikilvægi þess að íbúar á Mýrum fái áfallahjálp?