Föstudagur 14. apríl 2006

104. tbl. 10. árg.
Hversu sammála eða ósammála ertu eftirfarandi fullyrðingum?

a. Það er borgaraleg skylda mín að flokka sorp.
b. Það er eingöngu mitt mál hvort ég flokka sorp eða ekki.
c. Ég dreg úr umhverfismengun ef ég flokka sorp.
d. Ef ég flokka sorp legg ég mitt af mörkum til að draga úr sóun náttúruauðlinda.

– Spurning úr könnun á neysluvenjum og viðhorfum við endurvinnslu.

Maðurinn hefur stundað endurvinnslu frá örófi alda. Á síðustu áratugum hefur hins vegar orðið mikil breyting á endurvinnslunni. Áður fyrr voru það fyrst og fremst einstaklingar og félög þeirra sem endurnýttu ýmsa hluti.  En eftir svonefnda umhverfisvakningu á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar má segja að hið opinbera, ríkjasambönd, ríki og sveitarfélög, hafi tekið endurvinnslu upp á arma sína. Nú gefur Evrópusambandið til að mynda út óteljandi tilskipanir um endurvinnslu, íslenska ríkið lepur þær upp og sveitarfélög framfylgja þeim af mikilli áfergju.

Þótt menn hafi verið að læra það smátt og smátt af fenginni reynslu að draga megi úr sóun með því að draga úr opinberum rekstri er endurvinnsla á vegum hins opinbera jafnan réttlætt með því hún minnki sóun. En hvað þýðir það í raun að hið opinbera þurfi að setja lög um og niðurgreiða tiltekna endurvinnslu? Það þýðir að minnsta kosti að enginn hefur hag að því að stunda hana og það er ódýrara að urða sorpið eða farga því á annan hátt. Það þýðir með öðrum orðum að það er minni skortur á þeim þáttum sem notaðir eru við urðunina en endurvinnsluna. Menn gleyma því nefnilega oft að við endurvinnslu þarf orku, ýmis efni, vinnuafl og annað sem fylgir framleiðslu. Og ef að það blasir við að endurvinnslan er dýrari af því að hún gengur á auðlindir sem meiri skortur er á en notaðar eru við hefðbundna förgun, hvað er það þá annað en sóun?

Um þessar mundir er verið að gera könnun fyrir Sorpu, Umhverfissvið Reykjavíkurborgar og Landvernd um neysluvenjur og viðhorfum til endurvinnslu. Áður en menn eru spurðir beint út um endurvinnsluna eru menn spurðir tuga spurninga um það hvort það fari ekki matur til spillis á heimilinu, hvort menn kaupi ekki of stórar einingar og hvort menn kaupi ekki of miklar pakkningar, hvort menn hafi keypt blandara sem sjaldan er notaður eða fataleppa sem aðeins einu sinni var farið í og hvort barnið hafi fengið leikfang sem því líkaði ekki var því lítt notað. Og ein hugsanlega ástæða þess að þeir sem lenda í könnuninni „sóa peningum“ er að þeir „njóta þess að sóa peningum“.

Eftir að menn hafa verið spurðir spjörunum úr með þessum hætti er spurt spurninga um endurvinnsluna eins og þeirrar sem vitnað er í hér að ofan. Allt sem snýr að endurvinnslunni er sett upp með jákvæðum formerkjum, sem kemur kannski ekki á óvart þegar meðal þeirra sem standa að könnuninni eru opinbert endurvinnslufyrirtæki, sveitarfélag sem stendur að endurvinnslu og trúarhópur sem boðar endurvinnslu.