Fimmtudagur 13. apríl 2006

103. tbl. 10. árg.

A ndrúmsloft óttans er fyrirsögn greinar sem birtist í The Wall Street Journal í gær og er þrátt fyrir fyrirsögnina ekki eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eða flokksbræður hennar, enda verður vafalaust ekki minnst á efni hennar í hérlendum fjölmiðlum. Greinin fjallar um það hvernig öfgamenn í loftslagsmálum þvingi vísindamenn til að hafa ekki hátt um skoðanir sínar fari þær ekki saman við skoðanir öfgamannanna. Höfundur greinarinnar er Richard Lindzen prófessor í loftslagsvísindum við MIT háskólann í Bandaríkjunum.

Lindzen segir að stöðugar fréttir af því að fellibyljir, hitabylgjur eða snjóstormar séu vegna þeirrar lítils háttar hækkunar sem orðið hafi á hita andrúmsloftsins síðustu öldina stafi að miklu leyti af misskilningi á loftslagsvísindum og auk þess vilja til að fjalla um þessi vísindi með upphrópunum. Þá segir hann að vísindamenn sem ekki vilji taka þátt í upphrópununum verði fyrir því að rannsóknastyrkir til þeirra hverfi, fjallað sé af fyrirlitningu um störf þeirra og þeir sagðir málpípur atvinnulífsins. Hann nefnir dæmi um þetta, meðal annars eigin reynslu af því hvernig vísindatímarit, sem almennt eru sögð „virt vísindatímarit“, mismuni vísindamönnum eftir því hvort þeir taka þátt í darradansinum eða ekki. Afleiðingarnar séu þær að lygar um loftslagsbreytingar virðist trúverðugar, jafnvel þótt þær fari þvert á þær vísindalegu niðurstöður sem þær eigi að byggjast á.

Lindzen minnist á þrjár vísindalegar staðreyndir sem séu oft nefndar: Í fyrsta lagi að hiti hafi hækkað um eina gráðu frá því seint á 19. öld, í öðru lagi að magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu hafi aukist um 30% á sama tímabili og í þriðja lagi að koldíoxíð ætti að hafa áhrif á hlýnun í framtíðinni. Þessar fullyrðingar séu sannar, en almenningur átti sig ekki á því að þær séu hvorki ástæða til upphrópana né styðji þær þá skoðun að maðurinn beri ábyrgð á þeirri smávægilegu hlýnun sem orðið hafi.