Miðvikudagur 12. apríl 2006

102. tbl. 10. árg.
Goebbels, in confronto a Berlusconi, era solo un bambino.
– Romano Prodi

Hversu oft í síðustu viku sýndi Ríkissjónvarpið ekki myndbandið þar sem skælbrosandi Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu tókst á við þýskan þingmann á Evrópuþinginu og hafði um hann nokkur orð sem fóru óskaplega fyrir brjóstið á vandlæturum víðast hvar í álfunni? Hversu oft er ekki verið að segja frá því að nú hafi einhverjir móðgast yfir ummælum Berlusconis, ummælum sem síðan eru endurtekin án þess að samhengis sé getið? Hversu oft fylgdi svo ekki að meginandstæðingur Berlusconis, Romano Prodi, væri hinn kurteisasti sómadrengur sem aldrei skipti skapi? Þetta gerðist alltsaman mjög oft.

Hversu oft segja íslenskir fjölmiðlar frá því hvernig andstæðingar Berlusconis tala um hann? Hversu oft hefur verið sagt frá því síðasta áratuginn að hinn prúði Romano Prodi hafi tilkynnt að sjálfur dr. Jósep Göbbels hafi verið eins og barn í samanburði við Berlusconi? Á Evrópuþinginu var Berlusconi líkt við Atla húnakonung – sem kannski var hugsað sem hrós því Atli var auðvitað sameiningarmaður á sinn hátt – og hversu oft er sagt frá því? Hversu oft verða menn reiðir þegar Berlusconi er nefndur „guðfaðirinn“ og það blöðum og tímaritum sem vilja láta taka sig alvarlega? Þetta gerist alltsaman mjög sjaldan.

Í vestrænum fjölmiðlum, annars staðar en á Ítalíu, er stundum dregin upp mjög öfgakennd mynd af Berlusconi. Það sem hann segir er lagt út á versta veg en séð í gegnum fingur við andstæðinga hans út af stóru og smáu, svona fyrst þeir eru að berjast gegn illmenninu.

Ein skýring á því er sú að hann hefur verið umsvifamikill í viðskiptum og hefur verið sakaður um það að sanka að sér fjölmiðlum til þess að geta stjórnað umræðum um sig og viðskipti sín. Sumir segja að stjórnmálaafskipti hans snúist um það sama. Í flestöllum löndum vekja slíkir menn mikla tortryggni. En þó auðvitað eigi að fjalla af einurð um slíka viðskiptamógúla, þá er samt alltaf betra þegar það er gert af sanngirni líka.

Ætli enginn hafi farið á snyrtinguna hjá Landhelgisgæslunni í gær? Það hefur að minnsta kosti engin frétt verið sögð af slíku, svo líklega hafa menn bara haldið í sér. Hjá gæslunni starfa einhverjir fréttatilkynningaóðustu menn landsins síðan Ólafur Ragnar hætti sem fjármálaráðherra. Dag eftir dag er í fréttum sagt frá því að þyrla gæslunnar hafi verið kölluð út og stefni nú hingað eða þangað og sé væntanleg að einhverjum fótbrotnum manni á Holtavörðuheiði innan skamms. Hvað eiga svona fréttatilkynningar að þýða? Hvers vegna vinna starfsmenn gæslunnar ekki bara sín störf en láta vera að senda af þeim stöðugar tilkynningar?

Hvernig þætti fólki ef fleiri tækju upp á að senda frá sér daglegar afreksskýrslur? „Skjúkrabifreið nr. 2 var kölluð út í dag að sækja mann sem hafði handleggsbrotnað á íþróttavelli. Bifreiðin er væntanleg á slysstað innan skamms. Bifreið nr. 1 hefði farið en hanskahólfið hafði ekki fengið vottun nr. EU1601D-apx3“. Eða spítalarnir, „karlmaður um fimmtugt var í dag skorinn upp og úr honum fjarlægður botnlangi. Aðgerðin tókst vel og heilsast móður og barni læknisins vel.“