Þriðjudagur 11. apríl 2006

101. tbl. 10. árg.

Það er alveg svakalegt að horfa á stjórnmálaflokkana spenna Grána gamla fyrir kosningavagna sína um þessar mundir. Þessi ásókn hófst raunar í prófkjörum flokkanna en svo varð örlítið hlé á þessu á meðan flokkarnir voru að gera vagnana klára fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Í morgun var Samfylkingin til dæmis með heilsíðuauglýsingar í blöðunum um „málefni aldraðra“. Það er auðvitað öllum ljóst að aldraðir eru duglegir að mæta á kjörstað en heyra ekki allir hve hljómurinn í þessu er holur? Það er auðvitað ekkert rangt við að ræða um hjúkrunarheimili en þarf endilega að gera það í þeim tilgangi einum að ná í atkvæði aldraðra?

Og svo eru það þessi „málefni aldraðra“. Hvenær urðu allir aldraðir alveg eins? Breytast menn allt í einu við það að verða sjötugir? Eða var það við 67 ára mörkin? Þetta er eiginlega alveg jafn hvimleið og gagnslaus umræða og þrasið um jafnréttismálin. Aldraðir eru auðvitað jafn ólíkir og þeir eru margir og hagur þeirra er afar misjafn. Kröfur um sérstakt skattkerfi fyrir aldraða eða aðstoð við þá verði óháð fjárráðum þeirra er ekkert minna galin en að slík kerfi verði tekin upp fyrir fólk á þrítugsaldri.

Eins og í jafnréttismálum er að verða til sérstakur talsmannaiðnaður í málefnum aldraðra. Það merkilega er sumir þessara talsmanna eru einmitt sömu mennirnir og hönnuðu kerfið sem aldraðir búa við. Þetta eru mennirnir sem stýrðu þjóðfélaginu þegar sparifé almennings var brennt á verðbólgubálinu. Þetta eru menn sem smöluðu fólki í gjaldþrota lífeyrissjóði og létu launamenn greiða sér félagsgjöld í stéttarfélög, orlofssjóði og sjúkrasjóði.  Nú standa þeir á öndinni yfir því að öll þessi kerfi virki ekki sem skyldi.