Mánudagur 10. apríl 2006

100. tbl. 10. árg.

Ágúst Ólafur Ágústsson er ótæmandi uppspretta. Á dögunum talaði hann fyrir því að leiddar yrðu í lög rannsóknarnefndir sem settar skyldu á fót til þess að rannsaka mikilvæg mál sem almenning varðaði. Vefþjóðviljinn leyfði sér þá að stinga upp á síðasta varaformannskjöri Samfylkingarinnar sem tilvöldu rannsóknarefni og hefði raunar þann kost að þar þarf engin lagafyrirmæli því ef Samfylkingunni væri alvara með „óháðum rannsóknarnefndum um mikilvæg málefni“ þá myndi hún auðvitað láta rannsaka hvernig það gerist að 500 manns skili 900 atkvæðum á einum fundi. En Samfylkingin telur vitaskuld ekki að neitt þurfi þar að rannsaka, ekki frekar en hún telur til dæmis að sér beri að upplýsa um það hverjir styðja Samfylkinguna fjárhagslega eða þá einstaka frambjóðendur í prófkjörum hennar. Nú hefur Ágúst Ólafur lagt fram nýja tillögu. Nú vill hann að „starfsmenn sem rjúfa þagnarskyldu“ um mál sem Ágúst telur að eigi erindi til almennings, fái sérstakar bætur fyrir það úr hendi vinnuveitenda síns.

Nú er Vefþjóðviljinn auðvitað ekki sérlega áhugasamur um þessa hugmynd. En ef Samfylkingunni finnst þetta í raun og veru, en er ekki bara að reyna að slá sér upp og fá hrós í fjölmiðlum sem auðvitað vilja að allir nema starfsmenn fjölmiðla rjúfi þagnarskyldu um hvaðeina, þá má benda henni á að að minnsta kosti eitt mál hefur komið upp á liðnum árum þar sem vinnuveitandi hefur verið mjög harður gegn starfsmanni sem hann grunaði um að rjúfa trúnað.

Fyrir nokkru var kosinn formaður í íslenskum stjórnmálaflokki og var fast sótt að þeim sem fyrir sat í embættinu og meðulin ekki spöruð. Einn daginn barst konu nokkurri úti í bæ fjöldatölvupóstur frá stuðningsmönnum sitjandi formanns þar sem boðið var til kosningahátíðar. Þá varð uppi fótur og fit í herbúðum mótframbjóðandans. Þessi kona sem fékk póstinn var að vísu orðinn félagi í viðkomandi flokki – en hún hafði átt að vera leynifélagi! Þegar henni barst síðan tölvupóstur eins og öðrum félögum þá varð ljóst að sá stórglæpur hafði verið framinn að formaður flokksins hafði komist yfir félagatal eigin flokks. Við þessu var brugðist af mikilli festu og tölva starfsmanns á flokksskrifstofunni rannsökuð og þegar í ljós kom að starfsmaðurinn hafði sent sjálfum sér flokksskrána heim til sín – að sögn til þess að vinna í henni þar – var starfsmanninum þegar í stað sagt upp störfum. Hún var nefnilega grunuð um það að hafa upplýst formann flokksins um það hverjir væru í flokknum og þar með hefði hann getað rekist á leynifélagana á skránni.

Það þarf auðvitað ekki að taka fram að þessi flokkur er sérstakur áhugamaður um hag starfsmanna sem lenda í óbilgjörnum vinnuveitendum og heitir Samfylkingin. Leynifélaginn í Samfylkingunni, þessi sem vildi ganga í flokk án þess að formaður hans vissi, heitir Helga Jónsdóttir og var á dögunum að sögn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hæfasti umsækjandinn um starf ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu.

Ísunnudagsblaði Morgunblaðsins er forvitnilegt viðtal við George P. Shultz, hinn áhrifamikla fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem starfaði með Ronald Reagan forseta á þeim árum þegar Sovétríkin voru að syngja sitt síðasta, ekki síst vegna staðfestu Bandaríkjastjórnar sem ekkert gaf fyrir sífelldan undanlátssöng sem hljómaði úr nær öllum Evrópuríkjum nema Bretlandi. Morgunblaðið nefnir að Reagan hafi einu sinni aðspurður svarað því til að sá stjórnmálahugsuður sem mest áhrif hafi haft á sig hafi verið Frederic Bastiat, maður sem að sögn blaðsins hefði verið „18 aldar Frakki sem fáir þekkja“. Af því tilefni spyr blaðið Shultz hvort Reagan hafi verið „meiri menntamannstýpa en almennt var talið“. Og Shultz svarar: „Já hann var það. Bastiat var það sem nú myndi vera kallað frjálshyggjumaður í efnahagsmálum. Mér er sagt að þið Íslendingar hafið lækkað tekjuskatta á fyrirtæki úr um 50 % í 18 % og fáið meiri skatttekjur þótt prósentan sé miklu lægri. Þessi stefna var einu sinni kölluð Reagan-hagfræðin og ég er einn af þeim sanntrúuðu.“

Í þessu sambandi má minna á, að fyrir fáum árum gaf Andríki út í íslenskri þýðingu eitt þekktasta verk Bastiats, Lögin, en þar fjallar hann um hverju á að skipa með lögum og hverju ekki. Hvort það sé hlutverk laganna að deila út „réttlæti“ eða hvort það sé kannski einungis að hindra óréttlæti. Lögin fást enn í bóksölu Andríkis og kosta þar kr. 1500 krónur og er heimsending innifalin.