Helgarsprokið 9. apríl 2006

99. tbl. 10. árg.

U mræður um framtíð varnarmála landsins hafa verið nokkuð áberandi undanfarið, í kjölfar þess að Bandaríkjamenn tilkynntu að þeir hygðust ekki halda úti þyrlu- og þotusveit á Íslandi mikið lengur. Í umræðunni hafa örfáir látið sér detta í hug, og jafnvel haldið fram þeirri skoðun opinberlega, að Ísland ætti að leita hófanna hjá Evrópusambandinu um varnir landsins og jafnvel að sækja um aðild að sambandinu.

„Á Ísland að eiga varnir sínar undir sambandi sem ekki gat komið sér saman um stefnu eða aðgerðir í alvarlegum vandamálum sem komu upp í tengslum við Rúanda, Írak, Afganistan og ríkin sem áður voru hluti Júgóslavíu svo dæmi séu tekin?“

Viðleitni ESB við að koma sér upp sameiginlegri utanríkis- og varnarmálastefnu hefur verið mikil þrautarganga. Það sem einna helst kemur í veg fyrir að sambandið nái að vera samhentur og um leið valdamikill aðili í utanríkismálum er uppbygging sambandsins. Það er ekki sambandsríki, en gengur þó mun lengra en hefðbundið alþjóðastarf gerir. Þannig eru lög og reglur sem settar eru á mörgum sviðum yfirþjóðlegar. Sumar öðlast gildi í aðildarlöndunum um leið, aðrar hljóta fyrst fullgildingu þegar þær hafa farið í gegnum staðfestingarferli í aðildarríkjunum. Á öðrum sviðum, þar á meðal varðandi utanríkis- og varnarmál, hafa aðildarríkin sýnt tregðu til að afsala sér ákvörðunarvaldi sínu og ólíklegt að þau muni gefa eftir kröfu um að hafa neitunarvald á því sviði.

Raunar hafa skoðanir og stefna ríkjanna í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum verið afar ólíkar og því erfitt fyrir ESB að ná fram einingu um stefnu sambandsins. Jafnframt er erfitt fyrir valdamenn þeirra að sjá rökin fyrir því að hagsmunum ríkisins sem þeir stjórna sé betur borgið með því að færa ákvörðunarvaldið í utanríkis- og varnarmálum til Brussel.

Sum ríkin hallast, svo dæmi séu tekin, að því að beita valdi þegar í nauðir rekur, bæði í varnarmálum en einnig til að tryggja öryggi í heiminum. Önnur vilja helst aðeins ganga veg diplómatíunnar út í hið óendanlega. Ríkin eru ósammála um hlutverk NATO í öryggis- og varnarmálum ESB auk þess sem mörg ríkjanna eiga bara almennt erfitt með að verða sammála. Á það ekki síst við um valdamestu ríkin eins og Þýskaland, Frakkland og Bretland. Auk þess hafa mörg ríkin efasemdir um að skriffinnastofnun eins og ESB hafi burði til að bregðast hratt og örugglega við aðkallandi ógnum og til að ná tökum á átökum sem kunna að verða í heiminum.

Dæmi um að ESB ríkin eiga ekki auðvelt með að verða sammála í málaflokknum og koma sér saman um viðbrögð við alvarlegum vandamálum og krísum í heiminum, jafnvel þeim sem herja í bakgarði sambandsins, eru fjölmörg. Í báðum Írakskrísunum, sérstaklega hinni síðari, og varðandi Afganistan áttu aðildarríkin erfitt með að verða ásátt. Ekki gátu þau heldur komið sér saman um stefnu og aðgerðir varðandi átökin sem geisuðu á Balkanskaga á tíunda áratug síðustu aldar, sérstaklega því sem snéri að Serbum, þrátt fyrir að þeir færu fram með miklu offorsi. Það var ekki fyrr en NATO greip í taumana að það tókst að hægja á ofbeldisverkum Serba.

Viðbragðsher sem ESB hefur þróað er máttlaus, enda mun ESB aðeins senda hersveitir í aðgerðir ef öll aðildarríkin 25 samþykkja það, auk þess sem aðildarríkjunum er í sjálfsvald sett hvort þau taka þátt í aðgerðum eður ei. Aðildarríkin munu því aðeins taka þátt í verkefnum sem þau kjósa að taka þátt í. Í ljósi sögu óeiningar ESB, sérstaklega í utanríkis og öryggismálum, er ekki að undra þó ýmsir spyrji hvort nokkur von sé til þess að þessi viðbragðsher muni nokkurn tíma geta skipt máli í alvarlegum deilum eða átökum? Ekki er ólíklegt að hann muni þróast á svipaðan hátt og friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna, muni skorta mátt til að stilla til friðar, en muni að einhverju leyti gagnast til að halda frið sem aðrir hafi komið á.

Evrópusambandsríkin hafa átt afskaplega erfitt með að ná saman í utanríkispólitík og öryggismálum, hvaða stefnu beri að fylgja og hvernig bregðast skuli við krísum. Ef draga ætti saman sögu þróunar utanríkis-, varnar- og öryggismálastefnu sambandsins í eitt orð, kemur orðið vandræðagangur eða jafnvel óeining strax í hugann. Á Ísland að eiga varnir sínar undir sambandi sem ekki gat komið sér saman um stefnu eða aðgerðir í alvarlegum vandamálum sem komu upp í tengslum við Rúanda, Írak, Afganistan og ríkin sem áður voru hluti Júgóslavíu svo dæmi séu tekin? Er það ákjósanlegt fyrir Ísland að eiga varnir sínar undir „hálfsambandsríki“ sem á meira að segja í erfiðleikum með að koma sér saman um það hvernig móta beri sameiginlega utanríkis-, varnar- og öryggisstefnu?

Óvíst er hvernig stefna ESB í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum verður í framtíðinni og þess vegna er síður en svo freistandi að eiga varnir Íslands undir sambandinu. Hitt er svo annað mál, að það væri auðvitað heldur engan veginn eftirsóknarvert að eiga aðild að sambandi sem hefði sameiginlega utanríkis- og varnarstefnu, enda hefðu Íslendingar þá ekkert um stefnuna að segja. Ekki er líklegt að Íslendingar yrðu sáttir við að utanríkisstefna Frakklands, Þýskalands eða málamiðlunargrautur þeirra væri utanríkisstefna Íslands. Það er því hvorki eftirsóknarvert að eiga varnir Íslands undir ESB né að eiga aðild að ESB. Og vonandi verður það heldur aldrei hlutskipti Evrópuríkja að þurfa að treysta á ESB um varnir sínar og öryggi.