Laugardagur 8. apríl 2006

98. tbl. 10. árg.

Þ að er vandlifað í veröldinni og margt sem veldur erfiðleikum, að minnsta kosti ef maður er þingflokksformaður vinstri grænna og heitir Ögmundur Jónasson. Ef maður lendir í þeirri stöðu þá verður ógæfu manns flest að vopni, velmegunin til að mynda ekki síður en örbirgðin. Ögmundur Jónasson var á dögunum í viðtali í þættinum Ísland í bítið á sjónvarpsstöðinni NFS og þar var spurt um fátækt og ríkidæmi hér á landi. Ögmundur sagði það rétt sem sagt hefði verið að stórir hópar hefðu það betra nú en áður, en þetta var einmitt vandamál að hans mati. Hættan væri sú, að þegar fátækum fækkaði þá færi samfélagið að hafa minni áhyggjur af stöðunni, eins og hann orðaði það.

Já, það er sannarlega margt bölið. Nú eru fátækir hér á landi orðnir svo fáir að áhyggjur fólks af fátækt hafa minnkað. En Ögmundur kann örugglega ráð við þessu. Bara að hækka skatta, draga úr hagvexti, auka atvinnuleysi og vandinn er úr sögunni.

F yrst minnst er á skatta er ekki úr vegi að minnast á það sem fram kom í ræðu sem Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins flutti í gær og sagt var frá í fréttum Ríkissjónvarpsins. Í ræðunni mun Geir hafa sagt að stefnt væri að því að lækka skatta á matvælum um næstu mánaðamót. Ástæða er til að gleðjast yfir því að til standi að lækka skatta frekar, þó að æskilegra væri að lækka þá almennt en að taka ákveðna vöruflokka út úr. En lækkun skatta er alltaf ánægjuleg því að henni fylgir að hið opinbera tekur minna til sín og almenningur hefur meira fyrir sig.

Þó er rétt að vara við því strax að ef að afleiðingin af skattalækkuninni verður stóraukin sala matvæla og þar með auknar skatttekjur, þá mun tiltekinn pólitískur prófessor við Háskóla Íslands skrifa greinaflokk í Morgunblaðið og halda því fram að skattar hafi verið hækkaðir.

Annað sem rétt er að vara við í þessu sambandi er að fátækum kann að fækka við lækkun matarverðsins. Ef farið verður of geyst í lækkunina er þess vegna hætt við að Ögmundur Jónasson þurfi að þola það að áhyggjur almennings af fátækt minnki enn.

Væntanleg skattalækkun er þess vegna ekki síður stórhættuleg en fyrri skattalækkanir, eins og stjórnarandstaðan á Alþingi mun vafalítið benda á.