Laugardagur 29. apríl 2006

119. tbl. 10. árg.

Á Morgunvakt Ríkisútvarpsins í gær var rætt við nýkjörinn formann Rithöfundasambandsins, Pétur Gunnarsson, um eitt og annað sem tengist ritun bóka og nýju embætti hans. Eitt af því sem komið var stuttlega inn á voru kjör rithöfunda, þegar spyrillinn bar fram eftirfarandi spurningu: „En Pétur hvernig eru kjör rithöfunda? Hvað er það sem skiptir mestu máli fyrir kjör rithöfunda að þeir geti skrifað bækur?“ Og svarið stóð ekkert í Pétri: „Ja, það er alveg tvímælalaust þessi launasjóður rithöfunda sem að hefur nú tekið áratugi að koma heim og saman, en það er þessi launasjóður sem að er eiginlega má segja okkar grundvöllur og stendur á bak við ja þessa bókastarfsemi sem er í landinu.“

Spyrill bætti þá við: „Sumir segja að það sé rangt að rithöfundar séu á einhverjum opinberum launum, menn eigi bara að bjarga sér sjálfir og skrifa góðar bækur, selja þær og fá þannig peninga.“ Og Pétur svaraði að bragði: „Nei, sko, íslenski bókamarkaðurinn er nú ekki stór. Við erum 300.000 manna þjóð. Og ég held að lesendahópur á Íslandi verði nú sjaldan það stór að hann geti staðið undir það góðum rithöfundum. Ég held að samfélagsheildin þurfi nú alltaf að koma þarna að málum. Og það ber vissulega ríkulegan ávöxt, eða halda menn að maður eins og Guðjón Friðriksson hefði getað skrifað sín miklu verk um Hannes Hafstein og Jón Sigurðsson og Einar Benediktsson ef hann hefði ekki verið á föstum starfslaunum. Og sömuleiðis þá, af því að menn eru nú oft að tala um útrás, að þá er ekki lítið sem  hefur verið þýtt af verkum íslenskra rithöfunda á síðustu árum. Og þarna er líka að koma afrakstur, ávöxtur af þessu starfi.“

Það er vissulega áhyggjuefni ef rétt er hjá formanni Rithöfundasambandsins að opinber launasjóður rithöfunda sé grundvöllur ritstarfanna og ráði þar með mestu um hvað er ritað og gefið út. Þetta er ekki aðeins áhyggjuefni vegna þess að það eru skattgreiðendur sem neyddir eru til að leggja fé í sjóðinn. Nei, þessi staða er ekki síður áhyggjuefni vegna þess að ef marka má nýkjörinn formann er það opinber sjóður en ekki almenningur í landinu, kaupendur bóka, sem hefur mest um það að segja hvaða bækur eru ritaðar og gefnar út hér á landi. Pétur nefnir síðan nokkrar bækur sem hann telur að hefðu ekki verið ritaðar án þessa opinbera styrks, en hvað með allar bækurnar sem ekki komu út vegna þess að menn treystu sér ekki til að keppa við hinn opinbera sjóð? Og hvernig hugnast mönnum það að hið opinbera – eða einhverjir aðilar sem ná til sín úthlutunarvaldi fyrir hönd hins opinbera – ráði jafn miklu og formaðurinn lýsir um það hvaða bækur koma út  hér á landi, og þar með jafnvel hvaða bækur koma ekki út? Hlýtur ekki að vera æskilegra að út komi þær bækur sem lesendur vilja kaupa en að lítill hópur manna geti – í krafti skattfjár sem hann hefur sölsað undir sig – haft mikið um það að segja hvað kemur út og hvað ekki?

Svo er það útrásarkenning formannsins nýja. Hér í eina tíð tóku menn erlend lán til að niðurgreiða útflutning á lambaketi. Það þótti í þá daga hin besta útrás. Útrásarkenning formannsins er litlu skárri.

D ómsmálaráðherra átti í vikunni fund með varnarmálaráðherra Frakka, sem lýsti vilja sínum til þess að Frakkar ykju til muna umsvif sín á Norður-Atlantshafi. Það er gott og blessað að Frakkar vilji taka að sér stærra hlutverk við öryggisgæslu á þessu svæði, en slíkt fyrirkomulag krefst þó ákveðinnar skipulagningar. Til dæmis, hvað ef þýskt skip eða flugvél rataði inn á svæðið, hvar ætti þá að gefast upp? Eiga Frakkarnir að þurfa að standa í því úti á reginhafi?

Í  Bóksölu Andríkis hefur nú verið tekin upp sú nýbreytni að auk hefðbundinnar áskriftar að tímaritinu Þjóðmálum er nú hægt að festa kaup á einstökum heftum þess. Það er full ástæða til þess að hvetja alla áhugamenn um þjóðmál til að verða sér út um Þjóðmál.