Mánudagur 3. apríl 2006

93. tbl. 10. árg.

Það er gaman að hafa eitthvað til að hrósa sér af. Í nýjasta hefti tímaritsins The Economist hugsar ritstjóri þess, Bill Emmott, til fyrstu tveggja forvera sinna, tengdafeðganna James Wilsons og Walters Bagehots, og segist hafa fengið þann síðarnefnda til að snúa sér við í gröf sinni þegar hann hafi látið tímaritið segja að breska konungdæmið væri „an idea whose time has passed“. Svo skemmtilega vill hins vegar til, að grein Emmotts var kveðjuleiðari hans en hann lét af störfum nú um mánaðamótin. Bill Emmott sem ritstjóri The Economist –  sú hugmynd heyrir því sögunni til en Elísabet II. situr enn í höll sinni, þess albúin að skipa fyrir. Sennilega er þess enn langt að bíða að hagræðingarmenn og nútímavæðarar hafi breska konungdæmið undir, en margt er það engu að síður annað sem þarf að láta undan fyrir nútímanum. Í sama hefti The Economist er þannig greint frá því að breski herinn hafi nú breytt skipulagi sínu með þeim afleiðingum að sex skoskar fótgönguliðsdeildir, þar af sú elsta innan breska hersins, heyri nú sögunni til. Nú getur kurteist vefrit í öðru landi auðvitað ekki staðið í því að skamma Breta fyrir að breyta hjá sér herdeildaskipulaginu, en það breytir því ekki að undir niðri má auðvitað hafa samúð og eftir miðnætti skilning á sjónarmiðum þeirra bresku hermanna sem að sögn The Economist kalla þessa ráðstöfun hreina villimennsku. Að endilega hafi þurft að endurskipuleggja elstu fótgönguliðsdeild breska hersins.

Það er alveg ábyggilegt, hvað sem líður hinum stoltu og raunar óvenjusigursælu fótgönguliðssveitum Skota, að allt of oft er gömlum og góðum hlutum varpað fyrir róða af hreinum óþarfa. Auðvitað vilja frjálslyndir menn ekki amast við sparnaði hjá hinu opinbera, né þá því að hið opinbera hætti einhverri þeirri starfsemi sem það nú sinnir. En ef að tilgangurinn með breytingum á helstur að vera „hagræðing“, „nútímavæðing“, „straumlínulögun“ eða annað álíka, þá er ástæða til að fara varlega. Slíkur ávinningur skilar sér sjaldnast. Sameining sveitarfélaga er dæmi, enda er það algert lykilatriði sameiningarmanna að íbúarnir hafi enga möguleika á að láta sameiningu ganga til baka. Nýjast í sameiningarsögunni er nú að Kjalnesingar eru margir hverjir hinir kvekktustu á sameiningunni við Reykjavík og þykir sem þeirra mál hafi mjög orðið útundan hjá stjórnendunum í ráðhúsinu. Kjalarneshreppur fæst hins vegar aldrei heimtur til baka. Sama má segja um svo margt sem nútímavæðingarmenn ná að koma fyrir kattarnef vegna þess að aðrir gættu ekki að sér.

Undir ritstjórn Bills Emmotts var The Economist nútímalegt blað, áhugasamt um bæði sparnað og hagræðingu. Sjálfsagt verður tímaritið það líka undir stjórn eftirmanns hans, Johns Micklethwaits, sem The Sunday Telegraph sagði á dögunum að væri af því þekktur að koma oft til vinnu með buxurnar ofan í sokkunum, sem vitaskuld getur verið mjög hentugt. En það er líka í mörg horn að líta á stóru tímariti. Í klausunni um skosku fótgönguliðana er þess meðal annars getið að þeir hafi getið sér gott orð í Krímstríðinu. „The Argyll’s foaming-mouthed resistance af Balaclava, in the Crimean war, was immortalised in the phrase „the thin red line“.“ segir The Economist. Það er auðvitað álíka hæpin fullyrðing og sú að breska konungdæmið sé ekki tímanna tákn.