Helgarsprokið 2. apríl 2006

92. tbl. 10. árg.

U mræður um hugsanlega brottför varnarliðsins eiga sér stað víða í þjóðfélaginu, jafnvel á óvæntum stöðum. Þannig efndi Leiklistarsamband Íslands til umræðufundar í gær um brotthvarf varnarliðsins og önnur þjóðfélagsmál. Nú er vandséð hvernig viðfangsefnið tengist starfsemi Leiklistarsambandsins, nema þá hugsanlega vegna þess að andstaða margra við varnarliðið hefur í gegnum árin einkennst af tómum leikaraskap. En hvað um það, Leiklistarsambandið finnur sér tilgang í því að halda málfundi um stjórnmál og forystumenn þess sambands geta vafalaust rökstudd þá ákvörðun með einhverjum hætti fyrir félagsmönnum sínum. Þeir geta líka án efa fundið einhver rök fyrir því að velja þrjá ræðumenn til að tala á fundinum, sem allir hafa verið harðir í andstöðu við veru varnarliðsins. Það eru Andri Snær Magnason, Árni Bergmann og Steinunn Jóhannesdóttir. Það hlýtur að vera gert í þágu „samræðunnar“, „rökræðunnar“ og „gagnrýninnar umræðu“ að fá til fundarins þrjá einstaklinga sem eru sammála um grundvallaratriði málsins. Þetta eru trúlega nútímaleg og fagleg samræðustjórnmál í framkvæmd.

„Í haust lá fyrir að þetta yrði umdeilt mál á þingi og þá, auðvitað fyrir hreina tilviljun, efndi BSRB til samstarfs allra þessara ólíku samtaka um ráðstefnuhald og margra milljóna króna auglýsingaherferð í fjölmiðlum, biðskýlum strætisvagna og víðar.“

Á hitt ber að líta að forystumenn Leiklistarsambandsins geta vísað til fjölmargra fordæma um að félög séu stofnuð til að sinna einhverjum tilteknum, skilgreindum verkefnum, og síðan notuð í einhverjum allt öðrum tilgangi. Augljósasta dæmið er kannski Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sem stofnað var til að gæta hagsmuna félagsmanna sinna í kjara- og réttindamálum – og styðst við skylduaðild á þeim grundvelli – en hefur á undanförnum árum verið hugmyndabanki og bakhjarl róttækustu vinstri sjónarmiða í pólitískri umræðu hér á landi. Nýleg dæmi um óvænta og óvenjulega notkun á félagasamtökum í pólitískum hráskinnaleik er auðvitað barátta, sem framangreind samtök, BSRB, stóð í gegn vatnalagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar – en fyrir algjöra tilviljun var formaður BSRB jafnframt helsti herforingi stjórnarandstöðunnar á Alþingi. Þá var 14 ólíkum samtökum, sem starfa að afar mismunandi verkefnum, blandað inn í flokkspólitísk átök um mál sem var til umfjöllunar á hinum póltíska vettvangi.

Eins og menn muna snerist þingmál ríkisstjórnarinnar um það að staðfesta með skýrum hætti eignarrétt landeigenda á vatni, í samræmi við 80 ára túlkun fræðimanna og dómstóla. Í haust lá fyrir að þetta yrði umdeilt mál á þingi og þá, auðvitað fyrir hreina tilviljun, efndi BSRB til samstarfs allra þessara ólíku samtaka um ráðstefnuhald og margra milljóna króna auglýsingaherferð í fjölmiðlum, biðskýlum strætisvagna og víðar. Í þessari herferð var auðvitað ekki minnst berum orðum á frumvarp ríkisstjórnarinnar, en slegið fram almennum sjónarmiðum og fullyrðingum gegn einkaeignarrétti á vatnsréttindum og með ríkiseign á þessum gæðum. Rétt er að rifja upp að þau samtök sem létu nota sig í þessum tilgangi voru, auk BSRB, Kennarasamband Íslands, Þjóðkirkjan, Náttúruverndarsamtök Íslands, Landvernd, Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, SÍB-Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, Ungmennafélag Íslands, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Öryrkjabandalag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Alþýðusamband Íslands. Landssamband eldri borgara og UNIFEM á Íslandi. Lesendur geta skemmt sér við að velta fyrir sér hver þessara samtaka eru stofnuð og starfrækt til að hafa skoðanir á fyrirkomulagi eignarhalds á vatnsréttindum. Menn geta líka velt fyrir sér í hvaða tilfellum forystumenn þessara samtaka hafa vísvitandi yfirfært persónulegar skoðanir sínar á pólitískum málum á samtök sín og í hvaða tilfellum forystumennirnir létu formann BSRB einfaldlega plata sig til að taka þátt í þessari baráttu.

Rétt er að geta þess að þegar vatnalagafrumvarpið var til afgreiðslu á Alþingi komu fram upplýsingar um að undirskrift Ungmennafélags Íslands og Félags Sameinuðu þjóðanna hefðu ranglega verið notaðar undir neikvæða umsögn um frumvarpið. Ekki er hins vegar vitað um stöðu hinna samtakanna, en formenn og stjórnir þeirra félaga, sumra að minnsta kosti, ættu að búa sig undir að svara spurningum frá félagsmönnum sínum um heimildir, tilgang og almenna réttlætingu þess að blanda samtökunum inn í þessa baráttu. Hverju mun formaður SÍB, samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, t.d. svara í því sambandi? Hver eru tengsl UNIFEM við málið? Eða Landssambands eldri borgara og Öryrkjabandalagsins? Voru þessi félög stofnuð í þeim tilgangi að berjast gegn einkaeignarrétti á vatni og gátu þeir sem gengu í þau búist við að þau sneru sér að þeirri baráttu? Hverju hyggst biskup svara um afskipti þjóðkirkjunnar af málinu? Má næsta vænta sjónarmiða kirkjunnar um frumvörp til breytinga á skattalögum, lögum um fjármálastarfsemi, orkusölu til húshitunar, landbúnaðarlöggjöf eða þess háttar?

En vel á minnst, ætli hafi gleymst að afla upplýsinga um afstöðu Leiklistarsambandsins til vatnalagafrumvarpsins?