Þriðjudagur 4. apríl 2006

94. tbl. 10. árg.

Ívikubyrjun var nokkuð undarleg frétt í sjónvarpinu. Þar var greint frá því að fyrirtæki hér í bæ er farið að bjóða fermingarbörnum afnot af stórri gulri bifreið. Það þótti meira að segja fréttnæmt að fyrirtækið auglýsti þjónustu sína með heilsíðuauglýsingu í útbreiddu blaði.

Í fréttinni rætt bæði við einn starfsmann fyrirtækisins, sem auðvitað sá fáa meinbugi á þessu, en einnig var rætt við starfandi prest hér í bæ. Presturinn var fremur óhress með þessa þjónustu og sagðist ekki vilja að fermingarbörnin kæmu til athafnarinnar á þessu farartæki og væntanlega er honum þá einnig í mun að þau fari ekki í ferlíkinu heldur, nýfermd og hvaðeina. Hvað skyldi presti mislíka við þetta? Jú, þarna væri verið að draga fram efnahagslegan mun á fermingarbörnunum, sem klæðast sem kunnugt er öll í eins kyrtlum á þessum degi, en hugmyndin þar að baki er víst sú, sagði prestur, að engin munur sést þá á þeim börnum sem koma frá ríkmannlegum heimilum og hinum sem þar sem fjárráðin eru þrengri.

Nú er það svo spurning um hvernig ber að túlka orð prests. Á að skilja hann sem svo að hann kjósi að foreldrarnir gæti þess sérstaklega að koma ekki til fermingarinnar með börnin sín í dýrum jeppum og lúxusbílum, það er að segja sá hluti þeirra sem hefur efni á slíku prjáli? Ef til vill telur hann heppilegast að allir kirkjugestir komi í strætó og fari hver til síns heima með sama hætti.

En sú „lausn“ á þessu „vandamáli“ er dálítið gölluð, því þá ferðuðust allir í enn þá stærri gulum bíl en þeim, sem fékk prest til að segja hug sinn um þetta mikilvæga mál. En kannski að prestur sé of upptekinn við að útbúa samræmda gjafalista til að gefa þessu gaum sem stendur.

Þetta mál styrkir ágætlega þá skoðun, að brátt megi fara að skilja að ríki og kirkju. Það er tæpast hægt að ætlast til þess að skattgreiðendur yfirleitt séu að púkka upp á þjóðkirkjuna, ef fararskjótar fermingarbarna eru meðal helstu áhyggjuefna kirkjunnar manna.