Fimmtudagur 30. mars 2006

89. tbl. 10. árg.
Kenneth Clarke, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, segir á einum stað frá samtali sem hann átti við aldinn bandarískan stjórnskörung. Bandaríkjamaðurinn sagði að ungir stjórnmálamenn leituðu oft ráða hjá sér. „En þeir spyrja mig ekki lengur hvað ég haldi að þeir eigi að gera,“ bætti hann við: „Það eina sem þeir virðast hafa áhuga á er hvað þeir eigi að segja“.
– Jakob F. Ásgeirsson, Frá mínum bæjardyrum séð, bls. 149.

Þarna er komin frásögn sem hittir í mark. Á undanförnum árum hefur mjög aukist áhugi stjórnmálamanna á ímynd sinni og margir virðast raunar ekki hafa neitt sérstakt til að bera nema hana. Og þó svo þeir hafi eitthvað annað við sig, þá eru þeir margir hverjir aðallega með hugann við hvaða skoðanir þeir ættu nú að þykjast hafa. Hér á landi er þessi hugsun vitanlega mest áberandi með Samfylkingarmenn en tilhneiginguna má sjá innan allra flokka. Stjórnmálamenn – og þá ekki síst þeir í yngri kantinum – reyna að eltast við það þeir haldi að falli í kramið hverju sinni og reyna að slá sér upp stundarkorn í fjölmiðlum. Það versta sem nokkur þeirra getur hugsað sér er að setja fram skoðun sem fellur í grýttan jarðveg. „Það er sko alls ekki að gera sig“ segja þeir hver við annan á því tungumáli sem þeir hafa komið sér upp og virðist aðeins lauslega skylt því sem talað hefur verið hér í landinu undanfarnar aldir. „Þetta er bara ekki að virka“ bæta þeir jafnvel við til endanlegrar sönnunar.

Svo eru þeir sem hafa skoðanir en ímyndarsmiðirnir spasla yfir svo mannlegt eyra fái ekki greint þær. Þannig hafa ímyndarmenn fengið að leika sér með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, núverandi formann Samfylkingarinnar, í rúman áratug. „Ég held að samkeppni sé dýr og almennt til leiðinda“ sagði hún í borgarstjórn áður en henni var með ákvörðun breytt í nútímalegan stjórnmálamann. „Lokatakmarkið er sósíalisminn“ hafði hún sagt í Þjóðviljanum löngu áður. Í borgarstjórn var hún á móti frjálsum afgreiðslutíma verslana en lagði til að borgin ræki eina „neyðarverslun“ sem væri opin utan hans, svona fyrir þá sem nauðsynlega þyrftu á því að halda. Þetta var fyrir tíma ímyndarstjórnmálanna og áður en að kynningarmennirnir tóku völdin og bönnuðu stjórnmálamönnum sínum að tala áður en gerð hefði verið skoðanakönnun um málið. Í dag myndu Samfylkingarmenn aldrei tala eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerði árum saman. Þeir eru að vísu ekki komnir svo langt að styðja skattalækkanir og einkavæðingu þegar á þarf að halda í atkvæðagreiðslum á Alþingi, en ef ekki þarf annað en orð þá má treysta á þá.

Og það má raunar treysta á fleiri. „Staðreyndin er nefnilega sú að samkeppni í verði hefur oftar en ekki komið neytendum illa“ sagði Ögmundur Jónasson á Alþingi fyrr í þessari viku. 28. mars 2006 nánar tiltekið.

Ádögunum voru þrjú ár liðin frá því ráðist var inn í Írak og Saddam Hussein komið frá völdum í framhaldinu. Þessi þrjú ár hafa fréttamenn gætt þess að segja vandlega frá hverju því sem gæti bent til þess að illa hefði tekist til hjá bandamönnum og engar skærur verða sem ekki þykja eiga erindi í kvöldfréttir um allan heim. Gott og vel. Á þriggja ára afmælinu var fullyrt víða um heim að frá innrásarbyrjun hefðu fjörutíuþúsund manns fallið í Írak. Það er auðvitað ekkert gleðiefni og engin ástæða til að gera lítið úr þessu mannfalli.

Nema þetta er auðvitað gleðiefni fyrir þá stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn sem hafa tönnlast á því að „hundrað þúsund óbreyttir borgarar“ hafi fallið í Írak.