Föstudagur 31. mars 2006

90. tbl. 10. árg.

Dagur B. Eggertsson formaður skipulagsráðs Reykjavíkur berst nú eindregið fyrir því að væntanleg Sundabraut verði höfð einföld. Áður hefur Dagur komið því til leiðar að þar sem eru tvær akreinar til skiptanna er önnur tekin undir tóma strætisvagna, líkt og sjá má í Lækjargötu. Einnig er vinsælt ráð hjá skipulagsráði að þrengja götur svo menn fari nú ekki að standa í þeirri trú að um meira en eina akrein sé að ræða. Ekki er vitað hvort það er bara reynslan af röðinni á Gullinbrú fyrir breikkun sem ræður för hans, eða hvort það er Ölfusárbrúin sem hann er veikur fyrir. Dagur hefur sennilega farið í opinbera heimsókn austur fyrir fjall og þá eins og aðrir orðið að mjaka bílnum sínum eftir eftir einbreiðri Ölfusárbrúnni og séð að þar var kominn umferðarhnútur sem tilvalið væri að flytja til Reykjavíkur handa einkabílistunum þar að glíma við. Sú hugmyndafræði myndi líka ganga sæmilega ofan í flesta samherja hans innan R-listans enda þar samankomnir allir helstu andstæðingar einkabílsins sem finna má á Íslandi. Og nú mundi kannski einhver segja að einfeldningur íslenskra skipulagsmála verið fenginn til að fara fyrir hópnum.

Raunar er R-listanum mislagðar hendur í skipulagsmálum almennt. Lóðaskortur hefur orðið eitt aðalsmerki stjórnartíðar hans og það sem hann gerir til að bæta úr honum verður einhvern veginn allt að allsherjarklúðri. Jafnvel lóðahappdrætti verður fíaskó þegar mönnum mistekst að draga úr hatti. Þegar næst er efnt til útboðs og fyrirtækjum bannað að bjóða svo að það verða bara venjulegt fjölskyldufólk sem fái loksins lóðir – þá kemur bara byggingarmeistari og býður í eigin nafni hæst í allt og hlær. Lóðaskoturinn var meðvituð stefna í nafni þéttingar byggðar og tilraun til að draga úr umferð hins skelfilega einkabíls. En þegar engar lóðir var að hafa í Reykjavík fóru menn fyrst í nágrannasveitarfélögin og svo austur fyrir fjall og suður með sjó. Þaðan aka menn svo til vinnu í borginni og R-listinn situr upp með miklu meiri umferð og dreifðari byggð en nokkru sinni fyrr.