Miðvikudagur 29. mars 2006

88. tbl. 10. árg.

N

Heimsendaspá eins og fyrir 30 árum, en með öfugum formerkjum.

ý ísöld? var fyrirsögn greinar í tímaritinu Time um mitt ár 1974. Í greininni var meðal annars sagt frá því að sívaxandi fjölda vísindamanna væri farið að gruna það, eftir að hafa fylgst með undarlegu og óstöðugu veðurfari næstu ára á undan, að framundan væri í heiminum mikil veðurfarsleg vá. „Hversu mjög sem veðrið er breytilegt frá einum stað til annars og frá einum tíma til annars, þá sjá veðurfræðingar að meðalhiti jarðar hefur farið smám saman lækkandi síðustu þrjá áratugi. Engin merki eru um að þessi þróun sé að snúast við. Æ fleiri efasemdamenn í loftslagsmálum eru farnir að viðurkenna að þetta afbrigðilega veðurfar sem fram kemur í rannsóknum þeirra kunni að vera fyrirboði um nýja ísöld,“ sagði Time. Fréttin hélt áfram á þeim nótum að vísbendingar um þetta mætti finna hvarvetna og ísmyndun á norðurslóðum var sérstaklega tiltekin sem dæmi um þróunina. Nefnt var að maðurinn kynni að bera nokkra ábyrgð á kuldanum og greinin endaði á heimsendaspádómi þar sem vitnað var í vísindamann sem sagðist telja að ekki væri hægt að viðhalda mannfjölda jarðarinnar ef fleiri en þrjú ár sambærileg við árið 1972 kæmu í röð.

Allt var þetta auðvitað mjög ógnvekjandi og framsetningin var eins og gengur með þeim hætti að fólki varð um og ó. Hið sama má segja um umfjöllun helsta keppinautarins, Newsweek, sem birti umfjöllun sína um sama efni tæpu ári síðar. Þar var fyrirsögnin Kólnandi heimur og sagt var frá merkjum um verulegar breytingar á veðurfari jarðar og að þessar breytingar kynnu að hafa í för með sér umtalsverðan samdrátt í matvælaframleiðslu. Samdráttarins kynni að verða vart fljótlega, jafnvel innan tíu ára. „Sönnunargögnin til stuðnings þessum spádómum eru nú farin að hrannast svo hratt upp að veðurfræðingar eiga erfitt með að fylgjast með þeim,“ sagði Newsweek, og bætti við að áhrifanna væri þegar farið að gæta í minni kornframleiðslu á Englandi. Þessu fylgdi svo frásögn af miklum þurrkum við miðbaug og fellibyljum í mörgum ríkjum Bandaríkjanna. „Fyrir vísindamönnum eru þessir að því er virðist ólíku atburðir fyrstu merki um grundvallarbreytingu í veðurfari jarðar,“ sagði Newsweek og bætti við að meginatriði væri það að eftir langt tímabil með mildu veðri virtist loftslag jarðar nú fara kólnandi. Að sögn blaðsins væru veðurfræðingar ekki sammála um orsakir eða umfang þessa kólnandi loftslags, „[e]n þeir eru nánast á einu máli um að þróunin mun draga úr framleiðni landbúnaðar út öldina. Ef loftslagsbreytingarnar eru jafn afgerandi og þeir svartsýnustu óttast, kynni hungursneyðin sem fylgdi í kjölfarið að verða skelfileg.“ Þá var í greininni fjallað um gervihnattamyndir af skyndilegri og mikilli aukningu á snjó á norðurhvelinu og nýrri rannsókn um minnkandi sólarljós í Bandaríkjunum á árunum 1964 til 1972. Í greininni var einnig sagt frá því að vísindamenn teldu fá merki þess að stjórnmálamenn ætluðu að grípa til einfaldra aðgerða á borð við að safna mat eða taka tillit til þessara spádóma við gerð áætlana um fæðuframboð. „Því lengur sem skipuleggjendurnir bíða, þeim mun erfiðara verður fyrir þá að fást við loftslagsbreytingarnar þegar afleiðingarnar eru orðnar að ísköldum veruleika,“ sagði Newsweek að lokum.

Fjöldi greina um sama málefni birtist á þessum árum og ef marka mátti umfjöllunina voru svo að segja allir sammála því að loftslag færi kólnandi og að framundan væri umtalsverð hætta á matvælaskorti. Við vitum hvernig fór, loftslagið hlýnaði á ný og matvælaskortur varð ekki vandamál nema þar sem stjórnarfar hélt fólki hungruðu. Nú, þrjátíu árum síðar, eru þessi sömu tímarit enn að. Þau hafa ekkert lært á fyrri óförum og slá enn upp heimsendaspádómum um loftslagsbreytingar. Í nýjasta tölublaði Time er fyrirsögnin á forsíðu: „Verið hrædd, verið mjög hrædd.“ Ef marka má Time er heimurinn enn á heljarþröm, en að þessu sinni að vísu vegna hlýnunar loftslags en ekki vegna kólnunar. Enn eru vísindamenn sagðir svo að segja á einu máli og enn eru stjórnmálamenn sagðir aðhafast allt of lítið. Er ekki kominn tími til að „virt“ tímarit á borð við Time fjalli um loftslag jarðar af þeirri hófstillingu sem eðlileg er í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir? Vísindamenn vita ekki nú frekar en fyrir þrjátíu árum hvernig loftslag jarðar verður eftir tíu, tuttugu eða þrjátíu ár og þeir eru ekki allir sammála, ólíkt því sem ætla mætti af uppslætti Time. Vísindamenn vita ekki einu sinni nú frekar en fyrir þrjátíu árum hvers vegna veðurfarsbreytingar hafa verið eins og raun ber vitni. Eitt af því fáa sem hægt er að fullyrða um þessi mál með nokkurri vissu er að loftslag jarðar hefur tekið miklum breytingum í gegnum tíðina og að svo mun verða áfram. Það er sjálfsagt að halda áfram að rannsaka þessi mál og það er líka sjálfsagt að segja fréttir af þeim rannsóknum. En því fer fjarri að það sé sjálfsagt að draga í sífellu upp einhliða og öfgakennda mynd af rannsóknunum.