Föstudagur 17. mars 2006

76. tbl. 10. árg.

Kanada er eitt þeirra ríkja sem skrifuðu undir Kyoto sáttmálann um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Frá því blekið þornaði hefur útblásturinn ekki aðeins aukist þar á bæ heldur er aukningin einnig hraðari en fyrir undirritun. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi sem Mark Jaccard prófessor í auðlinda- og umhverfisfræðum við Simon Fraser háskólann í Vancouver í Kanada hélt á vegum Orkustofnunar í gær. Meginhluti erindis Jaccards snerist þó um horfur varðandi nýtingu á jarðefnaeldsneyti, kolum, olíu og gasi. Margir hafa spáð því að olían klárist mjög fljótlega. Sumir þeirra hafa þó einnig miklar áhyggjur af því að ef maðurinn hætti ekki að nota olíu hlýni mjög mikið á Jörðinni. Fyrri spáin ætti þó að gera þá seinni óþarfa. Spár um að olían klárist fljótlega hafa raunar fylgt olíuiðnaðinum í yfir hundrað ár. Undanfarin ár hafa birst mjög margar slíkar kenningar og margar bækur, sjónvarpsþættir og ritgerðir um efnið komið út. Jaccard telur þessar kenningar óraunhæfar og líklegra sé að titlar á bækur um endalok olíunnar gangi til þurrðar en olían sjálf. Hann spáir því til að mynda að jarðefnaeldsneyti sem nú svarar 85% af orkuþörf heimsins muni enn mæta tæplega 60% árið 2100. Jaccard segir að menn eigi til að mynda mjög langt í land með að nýta tjörusand en mikið magn hans sé að finna í Norður-Ameríku. Hann telur einnig líklegt að hægt verði að brenna olíunni í framtíðinni án þess að það auki styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Nú þegar séu ýmsar leiðir kannaðar til að losna við koltvísýringinn sem verður til við bruna olíu. Jaccard telur að menn hafi lagt of mikla áherslu á að þróa endurnýjanlega orkugjafa í stað þess að sníða vankantana af þeim sem þegar eru í notkun.

Jaccard hefur ritað bók um þetta efni sem kom út nýlega hjá Cambridge University Press.

Menn eru í mismikilli geðshræringu yfir óhjákvæmilegri brottför þotusveitar varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Eins og Bandaríkjamenn sögðu fyrir þremur árum hlaut sá dagur að renna upp að sveitin hyrfi til annarra brýnni verkefna. Svonefndir herstöðvaandstæðingar og friðarsinnar hafa manna mest fagnað þeirri ákvörðun George W. Bush  að stríðtólin verði ekki lengur látin ryðga hér upp á Íslandi heldur verði þeim nú beitt af fullu afli gegn blásaklausum brjálæðingum annars staðar í heiminum. Valdimar Gunnarsson, íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri, tjáði sig í kvöldfréttum NFS 16. mars um brotthvarf varnarliðsins en Valdimar sendi mótmælaskjal til dómsmálaráðherra þar sem hann taldi æfingaflug flugvéla þess yfir Eyjafirði trufla einbeitingu nemenda og starfsmanna skólans. Um þetta sagði hinn mæti íslenskukennari:

,,Afskaplega ánægður, nú hlakkar mig til prófa.“

Ýmis erlend matsfyrirtæki hafa að undanförnu efast um þá útreikninga sem fara fram í íslenska bankakerfinu. Sparisjóðurinn hefur nú kvöld eftir kvöld auglýst í sjónvarpi með þessum orðum:

„Aldamótin 2000 mörkuðu ekki heimsendi eins og sumir héldu heldur nýtt upphaf. Á þeim sjö árum sem liðin eru…“