Fimmtudagur 16. mars 2006

75. tbl. 10. árg.

Hvaða óskaplegi aumingjagangur, svo það sé sagt beint út, var að semja við stjórnarandstöðuna um frumvarpið til vatnalaga? Af hverju vildu menn gefa það út að hægt væri að taka Alþingi í gíslingu og fá látið að vilja sínum? Héldu menn að það væri kannski einhver ólga í þjóðfélaginu vegna frumvarpsins? Var þögn Kristins H. Gunnarssonar um málið ekki næg sönnun þess að meðal borgaranna var lítill sem enginn áhugi á málinu? Svo er meira að segja fallist á þá lausn að láta lögin ekki taka gildi fyrr en að loknum næstu alþingiskosningum svo að hugsanlega nýr meirihluti þá geti breytt þeim. En hvers vegna ætti hugsanlegur slíkur meirihluti að fá að breyta lögunum? Ekki má núverandi meirihluti það!

Er einhver sérstakur ágreiningur um þá skoðun að lýðræði á Alþingi felist í því að meirihluti þingmanna geti sett þau lög sem hann telur nauðsynleg en að aðrir þingmenn megi gera sínar athugasemdir, leggja fram og fá afgreiddar breytingartillögur og svo framvegis? En að minnihlutinn geti ekki tekið af meirihlutanum réttinn til þess að fá málið afgreitt. Af hverju að semja við menn – og það eftir örfáa daga – sem eru í raun að taka þingið í gíslingu? Nú og á hinn bóginn, þeir þingmenn, sem yfirleitt eru ákafir að tala um lýðræðið og stjórnarskrána, hvernig verja þeir fyrir sér og öðrum að standa tímunum saman í ræðustólnum og lesa ljóð og sögur? Þannig hefur nefnilega umræða lýðræðissinnanna í stjórnarandstöðunni verið. Þeir hafa einfaldlega hertekið ræðustólinn til að koma í veg fyrir að tiltekið þingmál verði rætt og afgreitt. Og þess á milli hafa þeir staðið fyrir margra klukkustunda umræðum „um fundarstjórn forseta“ þar sem næstum öll umræðuefni eru rædd nema fundarstjórn forseta?

Og við þessa menn er svo samið.