Miðvikudagur 15. mars 2006

74. tbl. 10. árg.

Lýðræðissinnarnir í stjórnarandstöðunni á Alþingi héldu í gær áfram baráttu sinni fyrir því að lýðræðislegur vilji meirihlutans næði fram að ganga við afgreiðslu frumvarps til vatnalaga. Þeir sýndu lýðræðisástina í verki með því að ræða um fundarstjórn forseta í hálfa aðra klukkustund í stað þess að leyfa umræður um það sem var á dagskrá fundarins, það er að segja frumvarp til vatnalaga. Þegar vel var liðið á umræðuna um „fundarstjórn forseta“ var forseta greinilega farið að blöskra hvernig þingmenn misnotuðu fundarsköp þingsins og áminnti þá hvern af öðrum um að halda sig við umræðuefnið „fundarstjórn forseta“ þegar þeir kveddu sér hljóðs undir þeim lið í stað þess að ræða eitthvað allt eins og þeir vissulega gerðu.

Kristján L. Möller þingmaður Samfylkingarinnar fékk fyrstur slíka áminningu, en þegar hann lauk máli sínu sagðist forseti ekki hafa heyrt að þingmaðurinn ræddi fundarstjórn forseta og brýndi fyrir þingmönnum að halda sig við efnið. Næstur tók til máls Björgvin G. Sigurðsson þingmaður Samfylkingarinnar og talaði um flest annað en fundarstjórn forseta þrátt fyrir að hafa kvatt sér hljóðs undir þeim lið. Forseti ítrekaði þá áminningu sína um að þingmenn ræddu það sem þeir hefðu kvatt sér hljóðs um. Þetta var ekki í síðasta skiptið í umræðunni sem forseti neyddist til að áminna þingmenn stjórnarandstöðunnar um að ræða einungis um fundarsköp forseta undir þeim lið, því að Einar Már Sigurðarson þingmaður Samfylkingarinnar kaus einnig að fara út fyrir umræðuefnið.

Og það er ekki eins og ítrekaðar áminningar til þingmanna Samfylkingarinnar um að halda sig við þingsköp hafi stafað af því að í forsetastólnum hafi setið þingmaður stjórnarflokkanna. Nei, í forsetastólnum sat Jóhanna Sigurðardóttir og var – eins og von er – augljóslega nóg boðið vegna vinnubragða félaga sinna í þingflokki Samfylkingarinnar. Lýðræðisást margra þingmanna Samfylkingarinnar og annarra úr stjórnarandstöðunni birtist vissulega með afar einkennilegum hætti þessa dagana. Þeir virðast staðráðnir í að koma í veg fyrir að lýðræðislega kjörnum meirihluta Alþingis takist að greiða atkvæði um mál sem hann hefur áhuga á að koma í gegnum þingið.