Þriðjudagur 14. mars 2006

73. tbl. 10. árg.
Haraldur Ólafsson segir að það stefni í að borgin ætli að vaða á skítugum skónum yfir íbúa Vesturbæjar, eina ferðina enn. Það virðist viðtekin hugmynd að í nafni þéttingar byggðar hafi allir eigendur einbýlishúsa öðlast rétt til að rífa þau og reisa blokkir í staðinn. Enginn beri ábyrgð á því að bílar séu uppi um allar gangstéttir og hverfið breyti smám saman um svip til hins verra.
– Frásögn Vesturbæjarblaðsins í mars 2006.

H

Aukið verður á bílastæðaskortinn við Bræðraborgarstíg í nafni þéttingar byggðar.

araldur Ólafsson, best þekktur sem veðurfræðingur, býr við Hávallagötu í Reykjavík. Þeir sem þekkja til á vallagötunum eða annars staðar í Vesturbænum vita að þar má varla koma fyrir fleiri bílum en þegar fylgja núverandi íbúum.  Skipulagsyfirvöld í borginni eru hins vegar annarrar skoðunar. Þau telja að fjölga megi íbúðum á svæðinu og neita að viðurkenna að fleiri íbúðum fylgi fleiri bílar. Nú er það auðvitað ekkert náttúrulögmál að menn þurfi að vera á bíl en frá því R-listinn komst til valda með þá stefnu að draga úr umferð einkabíla í borginni hefur bílum snarfjölgað. Bílum í Reykjavík hefur fjölgað úr 450 í tæplega 700 á hverja 1.000 íbúa í valdatíð R-listans.

Haraldur sendi Degi B. Eggertssyni formanni skipulagsráðs bréf á dögunum þar sem hann fer hörðum orðum um að borgaryfirvöld hafi leyft byggingu fjölbýlishúsa við vesturenda Hávallagötu, nánar tiltekið á horni Holtsgötu og Bræðraborgarstígs. Haraldur segir í bréfinu, sem birt er í Vesturbæjarblaðinu, að nú sé það að koma á daginn sem íbúar hafi varað við þegar þeir mótmæltu byggingu fjölbýlishúsanna að yrði ekki tekið tillit til þeirra mundu fleiri fylgja í kjölfarið og þrengsli aukast. Nú stendur nefnilega til að fjölga íbúðum á þessu svæði með því að rífa einbýlishúsið Blómsturvelli og byggja fjölbýlishús. Jafnframt munu bílastæði á lóð Blómsturvalla hverfa.

Við enda Hávallagötu, á Bræðraborgarstíg, voru fyrir fjölbýlishús án nokkurra bílastæða og fá stæði fylgja nýju húsunum. Þetta þýðir auðvitað aðeins eitt. Íbúar við Bræðraborgarstíg, þar sem engin bílastæði eru, leggja í nálægum götum.

Þéttingar- og lóðaskortsstefna R-listans kemur því ekki aðeins fram í lóðaskorti heldur veldur hún auknum bílastæðaskorti í eldri hverfum borgarinnar. Og það er ekki eins og borgaryfirvöld viti ekki af þessum skorti. Þau senda starfsmenn sína daglega um Vesturbæinn til að sekta þá sem tylla bílhjóli upp á gangstéttarbrún.