Ef að menn vilja koma rekstri úr böndunum þá er til þess að minnsta kosti eitt ráð sem er líklegt til að gefast vel. Fela sveitarfélögunum umsjón hans. Sveitarstjórnarmönnum virðist að minnsta kosti ákaflega ósýnt um það mörgum hverjum að fara vel með skattfé eða að standast þrýsting. Og þegar sveitarstjórnarkosningar nálgast virðist barátta þeirra hvers við annan helst snúast um keppni í eyðsluhugmyndum, svo nefndri „framtíðarsýn“ og „spennandi tækifærum“. Allt á nú að verða ókeypis, í trausti þess að einhver hafi gróðursett peningatré í garðinum hjá sambandi sveitarfélaga. Og svo vel þykir sumum hafa tekist að auka óráðsíuna að þeir vilja helst að fleiri verkefni fari sömu leið frá ríkinu til sveitarfélaganna. Það er hugmynd sem ástæða er til að sporna við. Á dögunum sagði Sunnlenska fréttablaðið frá því að frá árinu 1998 hefði nemendum í grunnskólum á Suðurlandi fjölgað um 152 en starfsmönnum skólanna um 144. Rekstrarútgjöld á hvern nemanda hefðu aukist úr um 362 þúsundum krónum vegna hvers nemanda í 709 þúsund krónur á sama tíma.
Kannski hafa skólarnir stórbatnað á síðustu árum, kannski eru unglingar nú miklu fróðari en fyrri kynslóðir hafa verið á sama aldri. En svo getur líka verið að það sé aðallega eyðslan sem hafi aukist. Skólarnir orðnir að geymslustofnunum þar sem fjöldi starfsmanna stjanar við krakka og reynir að hafa ofanaf fyrir þeim á meðan foreldrarnir eru annars staðar að vinna fyrir útsvarinu.
Stjórnarandstaðan stendur nú fyrir furðulegu málþófi til að tefja fyrir samþykkt frumvarps til nýrra vatnalaga. Málflutningur hennar er raunar svo furðulegur að hann jafnast næstum á við þau stóreinkennilegu viðbrögð stjórnarsinna að fallast í sífellu á að fresta umræðum, bæta við nefndarfundum og fara að gráta. Hvers vegna er stjórnarandstöðunni ekki bara leyft að tala? Málstaður hennar virðist vera hreinn misskilningur, hvort sem að hann stafar af því að hún hafi misskilið frumvarpið sem liggur fyrir eða þá af því að hún hefur misskilið gildandi rétt. En hvort sem er, þá eru frasar hennar, um að vatn sé „undirstaða lífs“ og megi því ekki vera í einkaeign eða ganga kaupum og sölum, sama vitleysan. Hvað ætli henni þyki nógu ómerkilegt til að mega vera í einkaeign? Matvælaframleiðsla – sem ekki væri nú gott fyrir hinn almenna mann ef legðist af – ætli einkaaðilar megi sinna henni? Er kannski öruggast að ríkið taki hana yfir? Hvað með lyf? Ekki væri nú vel gott ef þau hyrfu öll á einu bretti. Mega einkaaðilar framleiða þau og selja? Hvað ef þeir hættu því bara?
Nú og ef sú furðulega staða kæmi upp, að einhver eignaðist allt vatn á landinu og annað hvort vildi ekki hleypa öðrum að því eða þá bara við því verði að stefndi í almennan þorsta – ætli hið opinbera gæti þá ekki brugðist við því? Hver er eiginlega hættan af því að einkaaðilar geti átt vatnsból?