Helgarsprokið 12. mars 2006

71. tbl. 10. árg.

F lunkunýr heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, segist ætla að einbeita sér að málefnum aldraðra. Hún tók við af heilbrigðisráðherranum Jóni Kristjánssyni sem einbeitti sér líka að málefnum aldraðra. Enda er ekki vanþörf á, vandi aldraðra er mikill. Hann er svo mikill að einföld atriði í lífi þeirra verða umræðuefni spjallþátta í sjónvarpi og greinarefni í blöðum. Einföld atriði eins og hversu oft þeir fara í bað eða hve margir þeirra deila saman herbergi eða hvort þeir megi biðja aðra fullorðna mannesku um að fara fyrir sig út í búð eftir mjólkurpotti. Um þetta er raunverulega rætt af fólki á besta aldri í blöðum og sjónvarpi en reyndar sjaldnar af þeim sem sjálfir teljast aldraðir. Við þá eru tekin viðtöl, gjarna inni á heimilum þeirra eða herbergjum og þeim hrósað fyrir að geta leyst af hendi ýmis verkefni hversdagsins. Svo heldur spjallið áfram, þar sem fagaðilar á besta aldri tala um vanda aldraðra og niðurstaðan er alltaf sú sama: ríkisstjórnin sinnir ekki öldruðum.

„Vegna þessara blankheita þá eru ákvarðanir um einföld atriði daglegs lífs á borð við hversu oft aldraðir fara í bað teknar af heilbrigðisráðherra en ekki þeim sjálfum.“

Nú binda eflaust margir vonir við nýjan metnaðarfullan ráðherra, fulltrúa flokks með allt of lítið fylgi í ríkisstjórn sem á allt of mikið af skattfé. Og kannski er ekki ástæða til svartsýni, kannski leiðir þetta til þess að einhver gömul kona fær að fara í bað oftar en einu sinni í viku og einhver gamall karl þarf ekki að búa lengur með öðrum gömlum karli sem hann þolir ekki og menn skyldu ekki gera lítið úr því. Þetta er ekki léttvægt í hugum þessara einstaklinga ekki frekar en önnur persónuleg mál hvers og eins. En í raun og veru er vandi aldraðra ekki takmarkaðar baðferðir eða leiðinlegir sambýlingar. Það eitt að auka bil milli hjúkrunarrúma úr tíu sentimetrum í fimmtíu, baðferðum úr einni á viku í tvær á viku og fjölga einbýlum á dvalarheimilum um eitt prósent er ekki lausn á vanda aldraðra þó áhrifin yrðu eflaust mikil fyrir þá einstaklinga sem yrðu þessa aðnjótandi.

Og hver er þá vandi aldraðra? Fyrsta vísbending er að vandi aldraðra er ekki heilbrigðisvandi og heilbrigðisráðherra er jafnvel sísta manneskjan til að leysa hann. Önnur vísbending er að hann verður ekki leystur með því að öldrunariðnaðurinn innleiði nýtt kerfi til að „meta hjúkrunarþyngd“. Þriðja vísbending er að enginn þeirra stjórnmálamanna sem segist vilja ráða bót á vanda aldraðra hefur opinberlega sagt hver vandinn er. Svarið er einfaldlega það að aldraðir eiga ekki pening. Þeir eru skítblankir.

Þeir eru kannski ekki alveg allir krúnk en þá kemur líka að öðrum stærsta vanda þeirra: Þeir eiga ekkert annað sameiginlegt en aldurinn. Með öðrum orðum þá eiga þeir eiginlega akkúrat ekkert sameiginlegt, nema að hluti þeirra á það sameiginlegt að vera skítblankur. Vegna þessara blankheita þá eru ákvarðanir um einföld atriði daglegs lífs á borð við hversu oft aldraðir fara í bað teknar af heilbrigðisráðherra en ekki þeim sjálfum. Og af því að stjórnmálamenn eru næstum allir bara tæknikratar þá kemur umræðan um vanda aldraðra til með að snúast um hvað teljist eðlilegur fjöldi baðferða á viku í stað þess að snúast um hvort það sé eðlilegt að stjórnmálamenn taki ákvarðanir um það hvenær fullorðið fólk fer í bað.

Næst þegar einhver fullyrðir að ríkisstjórnin sinni ekki öldruðum þá væri ekki úr vegi að spyrja: hvaða ríkisstjórn? Með þessari spurningu kæmust menn að minnsta kosti skrefi nær því hvers vegna aldraðir eru svona blankir og þar með skrefi nær hinum raunverulega vanda. Manneskja sem er áttræð í dag hefur nær alla sína starfsævi búið við stjórnarfar og efnahagslíf sem bauð upp á fá tækifæri til að varðveita peninga, spara og safna. Þó mörgum tækist að spara þrátt fyrir lítil efni og festa féð í steinsteyptu íbúðarhúsnæði, sem líklega hefur verið vænsti kosturinn fram á níunda áratug síðustu aldar, þá var sá sparnaður einnig gerður upptækur með eignasköttum. Aðrar sparnaðarleiðir á þessum tíma eins og bankareikningar, ríkisskuldabréf og lífeyrissjóðir mætti sem best kalla brandara ef ekki væri fyrir það hversu margir töpuðu miklu á þeim.

Til að skilja vanda aldraðra þarf að hafa það í huga að aldraðir eru í vissum skilningi framtíðin. Þeir sem eru aldraðir í dag eru framtíð verðbólgu- og haftaáranna. Framtíð þeirra ára þegar geymsluþol peninga var næstum ekki neitt. Framtíð þeirra ára þegar stjórnmálamenn stjórnuðu efnahagslífinu.