Laugardagur 18. mars 2006

77. tbl. 10. árg.

Þ ingmenn Samfylkingarinnar eiga mikið erindi á Alþingi og framlag þeirra til þingstarfa er ómetanlegt. Þannig hafa verið sagðar af því fréttir að þingmaðurinn Valdimar Leó Friðriksson hafi brotið blað í sögu Alþingis með því að gera hlé á ræðu sinni um frumvarp til vatnalaga til að kasta af sér vatni, en hingað til hefur verið litið svo á að þingmenn haldi sig í ræðustólnum á meðan þeir flytja ræður sínar en sinni öðrum þörfum að loknum ræðuflutningi. Það er eins með þetta merkilega framlag Valdimars til þingsögunnar og ámóta merkilegt framlag Hlyns Hallssonar þingmanns vinstri grænna, sem neitaði fyrst að hnýta á sig hálsbindi og mætti svo með hanakamb í ræðustólinn, að djúpt hugsað málefnalegt innlegg þessara manna hefur gleymst. Það er þó ekkert fagnaðarefni, því að málefnalegt innlegg Valdimars var ekki síður gagnlegt en salernisferðin. Ræðan sem hann varð að gera hlé á snerist nefnilega um galla einkaeignarréttar og einkavæðingar, en um þetta fjallaði þessi merki þingmaður í löngu máli. Þeir sem héldu að „nútímalegir jafnaðarmenn“ væru búnir að gleyma fortíð sinni og jafnvel búnir að segja skilið við hana, ættu að kynna sér málflutning Valdimars og fleiri þingmanna Samfylkingarinnar í umræðunni um frumvarpið til vatnalaga. Í þeirri umræðu sýndu þingmenn Samfylkingarinnar að þeir hafa engu gleymt – og ekkert lært.

Í Kastljósi Ríkisútvarpsins fyrr í vikunni, fyrir samþykkt frumvarps til vatnalaga, var rætt um vatn og ýmislegt sem því tengist, þar með talið eignarrétt á vatni. Gunnar Haraldsson hagfræðingur var spurður álits og benti hann meðal annars á að þegar því væri haldið fram að ekki væri hægt að hafa eignarrétt á vatni vegna þess að það væri nauðsynlegt, bæri að hafa það í huga að margar aðrar lífsnauðsynjar væru í einkaeigu. Um mikilvægi eignarréttarins sagði Gunnar löngu orðið ljóst, að ef að eignarréttarfyrirkomulag væri ekki til staðar, þá leiddi það til sóunar auðlinda. Þetta væri það sem hefði gert það að verkum að menn væru núna farnir að líta til þeirrar lausnar að koma á eignarréttarskipulagi í vatni. „Það er í raun og veru til að koma í veg fyrir sóun,“ sagði Gunnar.

Í umræðum um vatn og vatnsréttindi á þingi síðustu daga og vikur hefur stjórnarandstaðan lítinn áhuga haft á sjónarmiðum á borð við þetta. Hún hefur þvert á móti í raun verið með kröfur um þjóðnýtingu vatnsréttinda þegar hún hefur talað harkalega gegn eignarrétti á vatni, sem hefur verið viðurkenndur hér á landi í að minnsta kosti tæpa eina öld. Ef marka má umræðurnar yrðu vatnsréttindi þjóðnýtt fengi stjórnarandstaðan nokkru um ráðið og menn hljóta að spyrja hvað kæmi þá næst? Ef einstaklingar mega ekki halda í vatnsréttindi sín, hvers vegna skyldu þeir þá fá að halda í önnur eignarréttindi?