Föstudagur 24. febrúar 2006

55. tbl. 10. árg.

F ormenn stjórnarandstöðuflokkanna, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Steingrímur J. Sigfússon, rituðu báðir grein í Morgunblaðið í gær vegna hræringa á gjaldeyris- og hlutabréfamarkaði á þriðjudag og miðvikudag. Á greinunum mátti merkja að formennirnir þóttust loks sjá vin í eyðimörkinni; vonarglætu fyrir sig og sína flokka í kjölfar allsherjarhruns í íslensku efnahagslífi. Vart mátti á milli sjá hvor þeirra var ánægðari með að allt væri að fara norður og niður. Þá fer fylgið kannski loks upp.

Það er kannski til marks um hve kinnockískir þessir tveir stjórnmálamenn eru orðnir að bæði krónan og hlutabréf hækkuðu í verði eftir að landsmenn höfðu lesið greinar þeirra yfir morgunkaffinu í gær. Æ,æ.

En greinarnar voru upplýsandi af fleiri ástæðum. Ingibjörg Sólrún telur að það hafi verið mistök að ríkisstjórnin „lögfesti lækkun tekjuskatts langt fram í tímann“. Sjálf gerði hún og R-listinn auðvitað sitt til að vega upp á móti þessum lækkunum með því að hækka útsvarið í Reykjavík. Það er gott að hafa það skriflegt frá henni að tekjuskatturinn hafi verið lækkaður næst þegar hún sakar ríkisstjórnina um skattahækkanir.

Steingrímur hefur uppi svipaðar kenningar og segir ríkisstjórnina hafa hellt olíu skattalækkana á bálið. Já svo miklar eru skattalækkanirnar – svona rétt á meðan stjórnarandstaðan tekur sér hlé frá því að skamma ríkisstjórnina fyrir skattahækkanir – að Steingrímur segir þær hafa sömu áhrif og olía á eld.

M eðferð Fréttablaðsins á Degi B. Eggertssyni borgarfulltrúa hefur stundum orðið Vefþjóðviljanum umfjöllunarefni. Um síðustu helgi kom upp úr kafinu að skipulagsyfirvöld í Reykjavík höfðu klúðrað annarri lóðaúthlutun á tæpu ári. Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs, treysti sér ekki til að ræða málið við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson í Kastljósi Ríkissjónvarpsins á mánudagskvöldið. En Fréttablaðið náði tali af Degi. Á mánudaginn sagði Dagur lesendum blaðsins frá draumahúsinu sínu og pípulögnum heima hjá sér. Og á þriðjudaginn gaf Dagur lesendum blaðsins svo þau ráð að sofa vel og slaka  á í öxlunum, það væri vanmetið.

Helsta fréttamálið í nokkra daga er skipulagsklúður í Reykjavík. Í sömu mund birtir Fréttablaðið tvö viðtöl við formann skipulagsráðs borgarinnar. Og spyr hann um pípulagnir og slökunarráð.