Laugardagur 25. febrúar 2006

56. tbl. 10. árg.

E r Stefán Ólafsson í pólitík? Þessa spurningu lagði fréttamaður á NFS fyrir Stefán Ólafsson prófessor í gær eftir að hafa hlustað á málflutning hans um skattamál og fékk eftirfarandi svar: „Ég er ekki í neinni pólitík. Ég er ekki í neinum stjórnmálaflokki. Ég er ekki að vinna fyrir neinn stjórnmálaflokk. Ég er fræðimaður við Háskóla Íslands. Ég er að rannsaka þessi mál. Ég er að skrifa bók um þessi mál og það er af þeim ástæðum sem ég hef þetta efni og er að tala um þetta efni og kynna það. Mín pólitík er bara sú að koma staðreyndum á framfæri.“ Ekki ætlar að Vefþjóðviljinn að rengja Stefán um það að hann sé ekki skráður í stjórnmálaflokk og að hann sé ekki starfsmaður stjórnmálaflokks, en það breytir því ekki að Stefán er kominn langt út fyrir það að vera aðeins prófessor og er miklu frekar eitthvað sem kallast mætti pólitískur prófessor eða bara pólitíkus.

Stefán segist aðeins hafa áhuga á sannleikanum og það hljómar ósköp vel, en glansinn fer þó af því þegar Stefán neitar að horfa á staðreyndir í skattaumræðunni og vill aðeins ræða það sem hann telur koma ríkisstjórninni illa. Stefán neitar til dæmis að taka tillit til þess að sveitarfélögin, sérstaklega Reykjavíkurborg undir forystu vinstri flokkanna, hefur á undanförnum árum hækkað skatta á sama tíma og ríkið hefur lækkað þá. Svar Stefáns við þessu birtist í grein hans í Morgunblaðinu í gær þar sem  hann segir að ríkið beri „alla ábyrgð“ á skattheimtunni þrátt fyrir að allir viti – líka pólitískir prófessorar – að sveitarfélögin leggja skatta á íbúa sína og bera ábyrgð á þeirri skattlagningu. Og það vita líka allir að sveitarfélögin hafa verið að hækka skatta sína mikið og hafa sum árin jafnvel stolið allri skattalækkun ríkisstjórnarinnar. Stefáni Ólafssyni kemur þetta bara ekki við, því að áhugi hans á „að koma staðreyndum á framfæri“ krefst þess greinilega að hann neiti að ræða hlut sveitarfélaganna en ræði oft, lengi og með rangfærslum um hlut ríkisins.

Það er raunar fleira í þessari grein Stefáns í Morgunblaðinu í gær og ekki síður í fyrri grein hans frá því í síðasta mánuði sem gefur skýrt til kynna að hann er ekki aðeins að leitast við að koma staðreyndum á framfæri. Fyrri grein sinni lauk hann til dæmis á því að skammast út í ríkisstjórnina fyrir það hvernig hún hagaði skattalækkunum sínum. Stefán telur nefnilega að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar – hann viðurkennir að sumar af skattalækkununum séu skattalækkanir – séu ekki eins og þær ættu að vera. Hann vill annars konar skattalækkanir því að hann vill aðrar áherslur. Hann er ósáttur við skattalækkun til þeirra sem hafa háar tekjur og telur „eðlilegra að stjórnvöld beittu sér fyrir minnkun skattbyrðarinnar hjá lágtekjufólkinu í landinu“. Og hann lýkur greininni á þessum orðum: „Slíkt hefði verið betur til þess fallið að styrkja stöðugleikann í samfélaginu, draga úr fátækt og þrengingum. Það hefði einnig fallið betur að réttlætiskennd þjóðarinnar og þar með styrkt þjóðarsáttina.“

Nú má Stefán Ólafsson vissulega hafa þær pólitísku skoðanir að auka eigi tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins, eins og vinstri menn kalla þær aðgerðir að hækka skatthlutfallið. Það á hins vegar ekkert skylt við „að koma staðreyndum á framfæri“. Stefán ætti að viðurkenna  hver hann er og í hvaða tilgangi hann stendur í baráttu sinni. Hann er einfaldlega vinstri maður að berjast fyrir breyttu skattkerfi og hann ætti að hætta að reyna setja það í einhvern fræðabúning. Hann er ekki meiri fræðimaður í þessari umræðu en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir enda er málflutningur þeirra svo að segja orðrétt sá sami.

Þ að er mörg þrautin sem menn standa frammi fyrir. Nú hafa starfsmenn húsdýragarðsins í Reykjavík óskað eftir tillögum að nafni á naut nokkurt sem þeir hyggjast taka í þjónustu sína og kúa sinna. Nautið mun vera afkvæmi hins virta nauts, Guttorms, sem lengi starfaði í garðinum við góðar undirtektir. Vefþjóðviljinn vill endilega aðstoða í þessu máli og leggur því til að nautið fái nafnið Hjörleifur.