Fimmtudagur 23. febrúar 2006

54. tbl. 10. árg.

Einn almerkasti spámaður Íslendinga er maður að nafni Halldór Ásgrímsson sem meðfram öðrum störfum og veigaminni hefur þann starfa með höndum að sjá það fyrir sem öðrum er hulið. Á dögunum var því slegið upp austan hafs og vestan að sjáanda þessum hefði vitrast að Íslendingar yrðu horfnir í greipar Evrópusambandsins árið 2015 og það þó engin áþreifanleg rök mæli með slíkum örlögum og enginn stjórnmálaflokkur gangist við því að berjast fyrir þeim, með þeirri undantekningu að vísu að Samfylkingin hefur allt frá ótímabærri fæðingu sinni talað um að sér sé bannað að tala um Evrópumál.

Í gær vitraðist Halldóri Ásgrímssyni svo nýr sannleikur og slík tíðindi áttu auðvitað hvergi annars staðar heima en á forsíðu Fréttablaðsins þar sem þeim var maklega slegið upp. Chelsea vinnur þrjú eitt sagði Halldór Ásgrímsson um væntanlegan leik hins breska fótboltaliðs við Barcelona, sem fram skyldi fara þá um kvöldið að viðstöddum Halldóri Ásgrímssyni (sjálfum). Halldór bætti því við í samtali við blaðamann að þessi spádómur sinn væri ekki verri en hver annar og má það að því leyti til sanns vegar færa að hann var hreint ekki verri en Evrópusambandsspádómur sama.

Leiknum lauk svo skömmu síðar með fræknum sigri Barcelona og, rétt eins og Evrópusambandsræða Halldórs á dögunum, einkenndist hann af sjálfsmörkum. Nánar tiltekið voru tvö af þremur mörkum leiksins sjálfsmörk og er það nýtt met sem ekki verður slegið fyrr en Halldór kemur heim sem vonandi er ekki langt að bíða.