Miðvikudagur 22. febrúar 2006

53. tbl. 10. árg.

Þ

Snæfellsjökull um hásumar.

að þurfti víst ekki að koma neinum á óvart að Hjörleifur Guttormsson fyrrverandi þingmaður Alþýðubandalagsins skyldi fylgja eftir fréttum um aukinn hraða skriðjökla Grænlandsjökuls út í hafið með því að sækja fram með heimsendakenningar og kröfur um hertar aðgerðir hins opinbera gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Fréttir af Grænlandsjökli byggðust annars vegar á gömlum upplýsingum úr skýrslu frá breskum stjórnvöldum, sem hafa ákveðið að nota loftslagsmál til að draga athyglina frá vandamálum  heima fyrir, og hins vegar á nýrri grein í tímaritinu Science, þar sem birtar voru mælingar á grænlenska ísnum.

Í þessari umræðu gleymist yfirleitt sú óvissa sem ríkir og fjallað er um í vísindatímaritunum, en þar birtist varla grein um þessi málefni án þess að vísindamennirnir bendi á að frekari rannsóknir þurfi á viðfangsefninu. Þá gleymist ekki síður að rannsóknir eru afar misvísandi, sem er líklega til marks um óvissuna. Þannig var undir lok síðasta árs birt önnur grein um Grænlandsjökul í sama tímariti, Science, þar sem niðurstaðan var að íshellan á Grænlandi væri að þykkna og hefði þykknað um rúma 5 cm á ári á síðustu árum. Slíkar fréttir, sem þykja jákvæðar á tímum umræðu um hugsanlega hækkun sjávarborðs og hitastigs, eiga reyndar ekki eins greiða leið í opinbera umræðu og fréttir sem hræra heimsendataugar lesenda.

Önnur jákvæð frétt af svipuðum toga birtist í sama tímariti um mitt síðasta ár, en þar var sagt frá rannsókn á Suðurskautslandinu. Rannsóknin gaf til kynna að stærstur hluti íshellunnar væri að þykkna en ekki þynnast, þótt ísinn væri að minnka á Suðurskautsskaganum og næsta nágrenni. Suðurskautsskaginn er reyndar sá hluti Suðurskautslandsins sem oftast kemst í fréttir og það er ástæða til að hugleiða hvers vegna fréttir af þynningu þar þykja áhugaverðari en fréttir af þykknun á miklu stærri hluta af Suðurskautslandinu.

Þegar á allt er litið virðist erfitt að komast að annarri niðurstöðu um þessi mál en þeirri að þótt þekking fari vaxandi sé hún enn af svo skornum skammti að menn viti lítið hver þróunin verður. Það er til dæmis ekki hægt að fullyrða með vissu hvort að andrúmsloft jarðar mun hlýna eða ekki á næstu áratugum þótt margir spái því nú að það muni hlýna nokkuð. Þaðan af síður er hægt að fullyrða um afleiðingar þess fyrir sjávarhæðina. Þar kemur margt til, til að mynda spurningin um það hvort aukinn hiti mundi hafa í för með sér aukna úrkomu sem þýddi þykkari ís á stærstu jökulhellum jarðar. Á meðan óvissan um þessi mál er jafn mikil og raun ber vitni geta menn velt því fyrir sér hversu skynsamlegt það væri að svara kalli gamalla þingmanna Alþýðubandalagsins og annarra sem vilja að mannkynið taki á sig þungar byrðar.