Þriðjudagur 21. febrúar 2006

52. tbl. 10. árg.

Þ að varð brátt um samræðustjórnmál Dags B. Eggertssonar formanns skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. Og kosningabaráttan vart byrjuð. Dagur treysti sér ekki til að eiga samræðustund með Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni oddvita Sjálfstæðisflokksins í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Þar var nýjasta lóðaúthlutun R-listans til umræðu en hann virðist ekki ætla að fara að þeim reglum sem settar voru fyrir uppboð lóðanna. Það er í stíl við það sem gerðist í Lambaselshappdrættinu í fyrra.

R-listinn hefur haft þá stefnu að „þétta byggðina“ fremur en að bjóða upp á ný byggingarsvæði. Þetta leiddi fyrst til þess að menn með mótatimbur fóru í Kópavoginn og næstu nágrannasveitarfélög en svo suður með sjó og austur í sveitir. Þar fór þétting byggðarinnar út um þúfur.

Eins og Vilhjálmur benti á í Kastljósinu í gær þá stýrir borgarstjórn framboði lóða í borginni. Borgin hefur í raun einokun á þessum gæðum og skammtar þau naumt. Það er því ekki alls kostar rétt að borgarstjórn láti markaðslögmálin ráða þegar hún skammtar nokkrar lóðir á ári. Það er svo sem vandséð að á meðan sveitarfélögin fara með þetta vald að hægt verði að tala um einhver markaðslögmál í þessu sambandi. Þegar það bætist svo við að það hefur verið meðvituð stefna R-listans að menn geti helst ekki byggt í borginni nema það þjóni „þéttingunni“ eru menn farnir að láta eitthvað allt annað en lögmál framboðs og eftirspurnar ráða för.

Á ritstjórnarskrifstofum íslenskra fjölmiðla má stundum finna mikla áhugamenn um fjármögnun stjórnmálastarfsemi. Þessi áhugi kemur oft í ljós í kjölfar kosninga og undantekningarlaust þegar sjálfstæðismenn efna til prófkjörs til að velja frambjóðendur sína. Sama var raunar uppi á teningnum nú fyrir skömmu þegar Framsóknarflokkurinn í Reykjavík hélt prófkjör sitt vegna borgarstjórnarkosninga í vor. Hins vegar er ljóst að þessir áhugamenn láta minna fyrir sér fara nú í kjölfar sambærilegs prófkjörs Samfylkingarinnar í Reykjavík. Er þó ljóst ekkert var til sparað af hálfu frambjóðenda í efstu sæti listans, hvorki hvað varðar skrifstofurekstur, útgáfu prentaðs efnis né auglýsingar, en þær eru að jafnaði stærsti útgjaldaliður prófkjörsframbjóðenda. Óhætt er að fullyrða að aldrei hafi til dæmis verið auglýst meira í ljósvakamiðlum en fyrir þetta samfylkingarprófkjör en sem kunnugt er hafa sjónvarpsauglýsingar verið nær óþekktar í prófkjörum fram til þessa.

Það er því von að spurt sé af hverju rannsóknarblaðamenn landsins hafi ekki þjarmað að frambjóðendum Samfylkingarinnar í kjölfar prófkjörsins. Þeir hafa ekki þurft að sitja undir síendurteknum spurningum um kostnað sinn eða eða styrktaraðila heldur komist upp með að gefa almennar yfirlýsingar um áætlaðan kostnað og styrktaraðilarnir séu vinir og vandamenn, auk mikils fjölda smárra styrktaraðila. Þeir hafa líka lítið verið krafðir svara um meinta eða hugsanlega hagsmunaárekstra sem af þessari fjáröflun geti stafað. Raunar má segja að sú eina sem hefur gert slíka kröfu sé flokkssystir þeirra, Jóhanna Sigurðardóttir, en í síðustu viku vakti hún máls á þessu á heimasíðu sinni. Þar segir hún að gera verði þá kröfu til frambjóðenda Samfylkingarinnar að þeir geri opinberlega grein fyrir útgjöldum og tekjum framboða sinna og hverjir hafi veitt þeim fjárhagsstuðning. Vísar hún í því sambandi til þingmála Samfylkingarinnar varðandi þetta efni þar sem meðal annars er krafist upplýsinga um alla sem styrkja prófkjörsframboð um meira en 200 þúsund krónur.

Nú hefur Vefþjóðviljinn sem slíkur engan áhuga á því að hnýsast í bækur einstakra flokka eða frambjóðenda og telur raunar að kröfur vinstri manna í gegnum árin um reglur vegna fjármögnunar stjórnmálastarfsemi séu hrein og klár sýndarmennska. Það væri hins vegar forvitnilegt að heyra svör frambjóðenda Samfylkingarinnar, enda hefur ekki skort á yfirlýsingar af hálfu þess fólks um þörfina á því að menn geri hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum.