Mánudagur 20. febrúar 2006

51. tbl. 10. árg.

H

Reykvísk fjölskylda auglýsti eftir hinum heppnu í lóðahappdrætti R-listans í Lambaseli á síðasta ári.

vað er með R-listann og lóðaúthlutun? Nú tókst borgaryfirvöldum að klúðra enn einni lóðaúthlutuninni og virðist raunar sem í lóðamálum takist R-listanum það eitt að tryggja sífelldan skort. Nú þarf auðvitað ekki nauðsynlega að vera slæmt í sjálfu sér að sami náunginn sé hæstbjóðandi í allar lóðir nema eina, en það er samt svo fjarri því sem stefnt var að, að það hlýtur að verða að kalla þetta enn eitt útísandrennsli hinna nútímalegu borgaryfirvalda. Árni Þór Sigurðsson hefur þegar hlaupið fram og kennt félögum sínum svokölluðum í borgarráði um málið og sagt að rétt sé að draga úr nöfnum umsækjenda í stað þess að selja hæstbjóðendum. Afgreiðsla borgarráðs á aðferðinni við lóðaúthlutunina í Úlfarsárdal hlaut aðeins 3 atkvæði Samfylkingarfólksins Dags B. Eggertssonar, Stefáns Jóns Hafsteins og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Það minnir hins vegar á annað afrek R-listans, því núverandi borgaryfirvöld hafa það einnig á sinni afrekaskrá að hafa klúðrað drætti úr hatti. Eins og rakið hefur verið þá voru niðurstöður Lambasels-útdráttar Reykjavíkurborgar með hreinum ólíkindum svo ekki sé meira sagt. Virðist blasa við að vinnubrögðin við útdráttinn hafi verið óvenjulegt fúsk og hætt við að sumir hafi af og til krafist utandagskrárumræðna af minna tilefni.

Eins og flestir vita, aðrir en Kristján Hreinsson sem hefur lýst því yfir að hann hafi ekki horft á sjónvarpið og viti ekki hver úrslit urðu, þá sigraði hin snotra Silvía Nótt í söngvakeppni Ríkissjónvarpsins á laugardaginn. Þetta munu vafalaust verða Kristjáni vonbrigði þegar hann heyrir af úrslitunum útundan sér með vorinu, en það verða þá ekki fyrstu vonbrigðin sem Kristján verður fyrir. Eins og Vefþjóðviljinn ræddi um á sínum tíma þá gerðist það fyrir tveimur árum að Kristján, sem þá var formaður borgarmálaráðs vinstrigrænna sagði sig úr flokki sínum með opnu bréfi í Morgunblaðinu. Skýringin á úrsögn Kristjáns var sú, að honum hafði verið meinað að fá rædda eða greidd atkvæði um tillögu sem hann hafði lagt fram til ályktunar á landsfundi vinstrigrænna. Og um hvað ætli tillagan hafi nú verið? Tillagan var um ítrekun á andstöðu vinstrigrænna við Kárahnjúkavirkjun! Kristján sagði að sér hefði verði sagt að það væri „afturhvarf til fortíðar“ að álykta á þennan veg. Forysta vinstrigrænna hafði greinilega ákveðið að nú ættu menn að þegja um Kárahnjúkavirkjun og þá var það gert.

Og Kristján sagði fleira og þessi formaður borgarmálaráðs vinstrigrænna vék að R-listanum svofelldum orðum:

„Við stjórn borgarinnar eru mönnum svo mislagðar hendur að ég gæti lengi haldið áfram að benda á atriði sem eru fullkomlega á skjön við það velsæmi sem mér var sagt að Vg ætlaði að temja sér“. Og hvaða fjölmiðill halda menn nú að hafi sagt frá því að formaður borgarmálaráðs vinstrigrænna teldi fjölmargt í störfum meirihluta borgarstjórnar vera á skjön við velsæmi? Nú auðvitað enginn.

Og ímyndi menn sér nú að samsvarandi forystumaður annars staðar í hinu pólitíska litrófi myndi tala svona. Ætli það yrðu fréttir? Ætli hann yrði tíður gestur í fjölmiðlum? Ætli Spegillinn yrði spenntur? Ætli dálkahöfundum hefðu þótt tíðindi? – Já ætli það ekki bara.