Helgarsprokið 19. febrúar 2006

50. tbl. 10. árg.

Á dögunum urðu þau tíðindi að forysta kennarasambandsins gerði einhvers konar samstarfssamning við menntamálaráðuneytið um að fá að vera með í ráðum um væntanlega skerðingu náms til stúdentsprófs. Síðan þá hefur talsvert heyrst í kennurum sem eru afar ósáttir við þessa aðgerð forsvarsmanna sinna en heldur lítið enn sem komið er frést af kennurum sem eru ánægðir. Nema kannski Eiríkur Jónsson, en hvar kennir hann aftur? Annars eru umræðurnar um skerðingu námsins nokkuð merkilegar að því leyti að lengi vel var tæpast vitað um nokkurn mann utan ráðuneytis sem opinberlega mælti með slíkum hugmyndum þó að slíkir menn hafi vafalaust verið til og sjálfsagt ekki færri en þeir sem stóðu með Kristjáni Hreinssyni í baráttunni gegn Silvíu Nótt. Og það þarf ekki að vera neitt undarlegt við það að ráðuneytismönnum hafi þótt rétt að velta fyrir sér öllum þeim tíma sem farið er að nota í skólakerfinu og hefur þanist út undanfarin ár. Í grein í nýlegu hefti tímaritsins Þjóðmála segir menntamálaráðherra þannig meðal annars að kennslustundum hafi „fjölgað gífurlega. Þannig hefur kennslustundum í grunnskóla fjölgað um 2.310 og í framhaldsskóla um 400 frá árinu 1994. Þetta samsvarar því að grunnskólinn hafi verið lengdur um 13 vikur án þess að samsvarandi breytingar hafi orðið á námsefni og inntaki náms á þessum skólastigum. Stúdentar sem útskrifast í dag hafa því 2700 fleiri kennslustundir en þeir sem útskrifuðust árið 1995 og rúmlega þúsund fleiri kennslustundir en nemendur í nágrannalöndum okkar.“ Þetta eru augljóslega tölur sem hafa verður með í reikningnum ef menn vilja ræða hugmyndir menntamálaráðuneytisins af sanngirni. Ef menn segja að tillögur um styttingu náms myndu skerða námið, sem alls ekki þarf að vera fráleit skoðun, þá er að minnsta kosti sanngjarnt að halda því til haga að námið hefur þá líklega verið eflt mjög mikið á undanförnum árum, það er að segja ef kennslustundafjöldi er til marks.

„Það er með skólakerfið eins og svo margt annað. Einkarekstur er líklegri en opinber rekstur til að færa fleirum það sem þeir vilja.“

Annars eru umræðurnar um skerðingu námsins kannski ekki síst til þess fallnar að beina athyglinni að öðru sem nær væri að vinna að í skólakerfinu. Kæmi það ekki örugglega lesendum mjög á óvart ef hér yrði til dæmis stungið upp á auknum einkarekstri og þá samhliða auknu sjálfstæði hvers skóla um sig? Í núverandi kerfi er ekki óeðlilegt að ríkið skipti sér af málum eins og lengd námstíma en ef einkaaðilar tækju meiri þátt í rekstri skólakerfisins gæti það allt eins verið ákvörðun hvers skóla hversu langt nám hann byði upp á. Og það er hreint ekki víst að þeir myndu allir stytta það frá því sem nú tíðkast. Þannig segir Sölvi Sveinsson, skólastjóri Verzlunarskóla Íslands, í grein í sama hefti Þjóðmála og áður var vitnað í, að þriggja ára nám til stúdentsprófs þýði „skerðingu á námsefni. Það þýðir – í fyllingu tímans – dýrari háskólakennslu, lengra háskólanám. Hvað segir það um þriggja ára stúdentspróf á Norðurlöndum að stúdentar þar ljúka fyrstu háskólagráðu á svipuðum aldri og okkar fólk? Eiga menn að fjárfesta í lakari kosti en til boða er núna?“. Og ef marka má hljóðið í þeim framhaldsskólanemendum sem þessa dagana láta í sér heyra vegna styttingarhugmyndanna, þá er nú ekki víst að úr þeirri átt yrði mikil krafa til skólanna um styttra nám.

Meginatriðið er hins vegar það, að með auknum einkarekstri má ætla að fleiri nemendur fái vist í skóla eftir sínu höfði. Það þarf ekki að þýða það að skólinn verði „betri“ í einhverjum almennum skilningi. Óskir og þarfir nemenda eru vitanlega ólíkar. Og þegar skólarnir taka að leggja sig eftir því að þóknast sem flestum sem mest, þá þarf það ekki að þýða að akademískt nám þeirra allra verði „betra“. Það sem er hins vegar líklegra, er að fleiri fái það sem þeir leita að, allt frá einhverju nútímalegu námi upp í alvöru akademískt nám af þyngsta tagi. En vitaskuld er það svo, að þegar fjárveitingar til skóla og kennara hans fara eftir fjölda þeirra nemenda sem þar eru skráðir, þá hvetur það skólann og kennarana til þess að reyna að lokka sem flesta til sín. Og fjöldi nemenda þarf ekki endilega að vera meiri mælikvarði á gæði skólans en markaðsstarfið í kringum hann. En er samt ekki eitthvað ágætt við kerfi sem færir sem flestum það sem þeir leita að?

Á dögunum bárust skólabúningar á ný í tal og í tengslum við prófkjör í einum stjórnmálaflokknum. Skólabúningar eru ekki vitlausari hugmynd en margar aðrar. Að minnsta kosti getur verið mjög viðkunnanlegt í erlendum borgum og bæjum að sjá skólabörn í fallegum og virðulegum búningum sem margir hverjir bera með sér að eiga langa sögu. En það er einmitt hinn fyrirsjáanlegi galli við íslenska skólabúninga. Þeir yrðu ábyggilega alveg ákaflega ljótir. Þeir myndu nefnilega vera hannaðir út á að vera „þægilegir“ fyrir nú utan almenna hræðslu við hátíðleika. Þar sem lögregluþjónar ganga um með hafnaboltahúfur og í vindjökkum og stjórnendum helstu umræðuþátta ríkissjónvarpsins er ofverk að hnýta á sig hálsbindi, hvaða vonir mætti gera sér um skólabúninga? En þetta er að vísu aukaatriði hjá því aðalatriði að ákvörðun um skólabúninga eða ekki, er alveg tilvalin fyrir einkaskóla sem keppast við að fá foreldra til að velja sig fyrir börnin.

Það er með skólakerfið eins og svo margt annað. Einkarekstur er líklegri en opinber rekstur til að færa fleirum það sem þeir vilja. Með því er ekki sagt að starfsmenn einkafyrirtækja hljóti alltaf að vera betri eða samviskusamari en opinberir starfsmenn. Þó einkafyrirtæki hafi gjarnan hagnaðarvonina umfram opinberar stofnanir þá leiðir það ekki til þess að vandvirkni eða metnaður fylgi henni einni. Og þó að frjálslyndir menn segi gjarnan að menn fari betur með eigið fé en annarra, þá átta þeir sig vitaskuld á því að á því geta hæglega verið margar undantekningar. Ótalmörg fyrirtæki fara sér að voða í heimskulegum fjárfestingum og ýmsar opinberar stofnanir eru reknar af mikilli ráðdeild samviskusamra forstöðumanna. Þetta breytir ekki því meginatriði, að sá sem sjálfur hefur fjárhagslega hagsmuni af því að rekstur skili árangri og viðskiptavinir skili sér, hann er líklegri til að ná þeim markmiðum en sá sem enga slíka hagsmuni hefur. Fyrirtæki sem þarf að fá til sín viðskiptavini, hvort sem fyrirtækið er skóli, pylsugerð eða blikksmiðja, er líklegri til að reyna að höfða til þeirra en stofnun sem fær viðskiptavinina rekna til sín eins og fé af fjalli á hverju hausti.

Og þó menn geti haft ýmsar skoðanir á ágæti þeirra skóla sem lifa á því að fleiri og fleiri vilji stunda þar nám, þá er mikill þungi í þeirri röksemd að einkarekstur skólakerfis færi fleiri og fleiri nemendum skóla eftir sínu höfði. Menn geta alveg reynt að rökstyðja að einhverjir nemendur kaupi köttinn í sekknum og eyði nokkrum árum í skóla sem í raun sé bara umbúðir utan um skrum, en þeir nemendur eru þá að eyða eigin tíma en gera öðru fólki ekki neitt. Ekki frekar en það fólk sem vill að öðru leyti ráða tíma sínum og peningum sjálft. Sumir vilja að ríkið reki útvarpsstöð, haldi leiksýningar, byggi tónlistarhallir og svo framvegis og svo framvegis fyrir skattfé. Það getur vel verið að frá einhverjum sjónarhóli verði slík útvarpsdagskrá, leiksýningar og tónleikar „betri“ en eitthvað það sem skattgreiðendur myndu velja sér ef þeir réðu sjálfir, en það er aukaatriði. Fólk á að fá að ráða sem mestu um eigið líf.