Laugardagur 18. febrúar 2006

49. tbl. 10. árg.

A llir fjölmiðlar eru auðvitað alveg hlutlausir og það er glæpsamlegt að halda öðru fram enda heiður heillar starfsstéttar að veði. Þetta er að minnsta kosti sú tilfinning sem menn fá þegar einhver, sérstaklega ef viðkomandi er stjórnmálamaður, leyfir sér að benda á að einhver frétt eða fréttaflutningur af einhverju máli hafi ekki verið fyllilega sanngjarn og sumum sjónarmiðum hafi verið gert hærra undir höfði en öðrum. Til að átta sig á meintu hlutleysi fjölmiðla er ágætt að skoða hvernig þeir fjalla um sjálfa sig og hagsmuni sína. Þetta birtist til að mynda í umfjöllun þeirra um niðurstöður fjölmiðlakannana, en ein slík var birt í gær.

Fréttastofa NFS afgreiddi könnunina til að mynda með því að fjalla alls ekkert um hana í aðalfréttatíma sínum klukkan 18:30. Ætla má að umfjöllunin hefði orðið meiri en engin ef einhver af þáttum miðla 365 hefðu náð inn á lista yfir tíu vinsælustu þætt í sjónvarpi á könnunartímabilinu, eða ef fréttir NFS hefðu sótt í sig veðrið, en hvorugu var að heilsa. Lítið er horft á fréttir NFS og fer heldur minnkandi og þættirnir sem stöðvar 365 bjóða upp á komast ekki á blað yfir vinsælustu þættina. Ríkissjónvarpið hafði hins vegar augljósa ánægju af að segja frá því í fréttatíma sínum að allir tíu vinsælustu sjónvarpsþættir landsins væru sýndir í Ríkissjónvarpinu. Þar var hins vegar ekki sagt frá því, ekki frekar en á NFS, að heldur færri horfa á fréttirnar nú en áður.

Í fyrirsögn Fréttablaðsins af fjölmiðlakönnuninni sagði „Fréttablaðið mest lesið“, rétt eins og það sé fréttnæmt að flestir lesi blað sem dreift er óumbeðið og endurgjaldslaust inn á næstum öll heimili landsins. Morgunblaðið sagði í fyrirsögn „Meðallestur Morgunblaðsins jókst um 4,1%“, sem kann út af fyrir sig að vera fréttnæmt, en verður líka að teljast nokkuð sjálfhverfur fréttaflutningur og ekki endilega það fréttnæmasta í könnuninni. Það hefði til að mynda verið fréttnæmara að segja frá því að meðallestur Fréttablaðsins heldur áfram að dala og hefur gert það nær viðstöðulaust fá miðju ári 2004.

Af hlutleysi sínu og kunnáttusemi fullyrðir Fréttablaðið svo í undirfyrirsögn að lestur fólks undir fimmtugu á því blaði mælist næstum þriðjungi meiri en lestur sama aldurshóps á öðrum blöðum. Staðreyndin er þó sú að munurinn er rúmlega 38% svo að Fréttablaðið hefði getað gert meira úr þessum mun kynni það að reikna prósentur. En ef ástæða er talin til að draga þetta fram mætti líka nefna að munurinn er ótrúlega lítill á lestri stóru blaðanna tveggja meðal þeirra sem eru fimmtugir og eldri.

Loks má nefna að Blaðið er ekki síður sjálfhverft en hin blöðin og segir í fyrirsögn „Stóraukinn lestur á Blaðinu“. Aukinn lestur Blaðsins er út af fyrir sig fréttnæmur, því að hann þýðir að Blaðið er búið að vinna til baka það lestrartap sem það varð fyrir í könnun í október í fyrra.