Mánudagur 13. febrúar 2006

44. tbl. 10. árg.

Þegar Björn Bjarnason menntamálaráðherra tilkynnti fyrir fjórum árum að hann hygðist sækjast eftir fyrsta sæti Sjálfstæðisflokksins við þá væntanlegar borgarstjórnarkosningar fór mikil spunaverksmiðja í gang. Sjálfstæðisflokkurinn treysti ekki konum. Nú ætti að skáka konu til hliðar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fór úr viðtali í viðtal og sagði allstaðar að „markvisst hefði verið grafið undan Ingu Jónu“ árum saman, og var auðvitað hvergi beðin um að nefna eitt einasta dæmi um að þetta hefði verið gert. Formaður eins andstæðingaflokksins sakaði Björn um að standa fyrir „áflogum“ í Sjálfstæðisflokknum og engum fréttamanni virtist þykja neitt undarlegt við að þessi maður hefði skyndilega áhyggjur af „áflogum“ þar. Út um allt voru hljóðnemar reknir framan í fólk og byrjað að tala um „stöðu kvenna“ innan Sjálfstæðisflokksins. Þarna var kominn karlmaður sem sóttist eftir efsta sæti framboðslistans þó fyrir væri kona sem oddviti borgarstjórnarflokksins þó hún hefði raunar ekki skipað efsta sæti lista flokksins við síðustu kosningar. Var það furða þó að Ingibjörg Sólrún, síðan flestir fréttamenn landsins og loks að því er virtist í könnunum stór hluti reykvískra kvenna yrði æstur?

En hvernig hefur þetta verið hjá Samfylkingunni, hvernig hafa fréttamenn tekið á henni og frambjóðendum þar? Hefur einhver þeirra minnst á það einu sinni undanfarnar vikur að sótt hafi verið að konu sem gegnir mesta virðingarstarfi sem íslensk kona hefur með höndum nú um stundir? Stefán Jón Hafstein getur kannski sagt að hann hafi verið að berjast fyrir sama sæti og hann hafði áður, en hvað með Dag B. Eggertsson sem gekk í Samfylkinguna viku áður en hann lýsti því yfir að hann vildi sjálfur leiða hana – hefur nokkur fréttamaður spurt hann hvers vegna hann vilji ýta þessari konu úr borgarstjórastóli? Minntist einhver fréttamaður yfirleitt á það undanfarnar vikur að það væri verið að „sækja gegn konu“? Hefur einhver þeirra sagt að kvenborgarstjóri hafi verið felldur? Hefur einhver spurt hvort Samfylkingin treysti ekki konum, eða komið með einhvern af þeim frösum sem til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn þarf alltaf að sitja undir í hvert skipti sem einhver kona nær ekki öllu því hún ætlaði í prófkjöri?

Nei það hefur ekki verið aukatekið orð um það. En það er þá kannski af því að fréttamenn hafa loksins séð að sér og bara tilviljun að það sé í kringum prófkjör Samfylkingarinnar sem þeir loksins skilja að kynferði frambjóðenda og kjörinna fulltrúa er fullkomið aukaatriði?

Í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi, fréttatímanum þar sem ljóst varð að Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri hafði tapað í prófkjöri Samfylkingarinnar, var það sagt þrívegis að konur væru „ekki nema“ svo og svo hátt hlutfall af efstu mönnum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði sem fram hafði farið daginn áður.