M álfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðisins. Án frelsis til að tjá skoðanir sínar og til að velja hvaða skoðanir maður vill heyra viðraðar er ekki hægt að tala um að fólk hafi tækifæri til frjálsar skoðanamyndunar og án hennar er tómt mál að tala um að borgararnir hafi möguleika á að taka sjálfstæðar meðvitaðar ákvarðanir og að þeir hafi jafnan rétt til áhrifa á samfélag sitt. Jafnframt er það algerlega andstætt lýðræðishugmyndinni að samfélaginu sé stýrt af hugmyndafræðilegum eða trúarlegum formúlum. Lýðræði er það stjórnarform sem Vesturlönd og ýmis önnur ríki hafa valið. Fæstir sem í þessum ríkjum búa efast um ágæti þess og kosti umfram önnur stjórnkerfi sem reynd hafa verið. Þrátt fyrir að borgarar þessara ríkja séu sjálfsagt inn við beinið eilíflega þakklátir fyrir stjórnkerfið sem þeir búa við og það frelsi sem það tryggir, leiða fæstir hugann að því dags daglega. Lýðræðið er þó ekki sjálfsagður hlutur enda býr minnihluti manna við það. Það er fremur ungt í þeirri mynd sem við þekkjum það og hefur kostað ógrynni mannslífa að koma því á og verja það.
Það er mikilvægt fyrir borgara lýðræðisríkja að hafa lýðræðið og frelsið í heiðri og virða. Það er enda varlegt að treysta því að nokkur annar geri það. Annað slagið verðum við líka vör við að ýmsir hafa megnustu andúð á frelsi borgara þessara ríkja. Nýjasta dæmið um slíkt kemur fram í ofsóknum ofstopa- og ofsatrúarmúslíma víða um heim vegna tólf teiknaðra mynda af Múhameð sem danska dagblaðið Jyllands-Posten birti – hinn 30. september á síðasta ári! Nú tæpu hálfu ári síðar ætlar allt um koll að keyra í trylltum mótmælum þar sem skotið er úr byssum, öllum Dönum og Norðmönnum hótað dauða og helvíti, kveikt er í sendiráðum, myndir af Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Dana eru skotnar í tætlur með hríðskotarifflum og þjóðfánar Danmerkur og Noregs vanvirtir og brenndir. Allt í nafni heilagrar reiði í garð heilu þjóðanna vegna þess að dagblöð í Danmörku og Noregi hæddust að spámanninum Múhameð með birtingu mynda af honum.
„Þó er hægt að vona að borgarar múhameðstrúarríkja, sem búa við kúgun leiðtoga sinna eða ofstækishópa, hafi kynnst betur hugmyndum um frelsi og lýðræði og rísi upp gegn ofríkinu. Þeir voru ekki margir árið 1980 sem trúðu því að kommúnistaríkin hryndu eitt af öðru áratug síðar.“ |
Margir múhameðstrúarmenn hafa í heiðri bann við að teiknaðar séu og birtar myndir af spámanninum. Ekkert er nema gott um það að segja, þeir hafa fullan rétt á því. Þó ber að nefna að löng hefð er fyrir að birta myndir af spámanninum, bæði í múhameðstrúarríkjum sem og annars staðar, og hefur það sjaldnast orðið tilefni mikilla eftirmála. Raunar voru þessar myndir, sem ofstopamenn eru að missa vitið vegna, birtar í egypska blaðinu Al Fagr í október í fyrra og vöktu þá enga sérstaka athygli eða umtal, enda múhameðstrúarmenn ekki alveg óvanir skopmyndum, jafnvel af spámanninum.
En hvað veldur að málið fer á það flug sem við höfum orðið vitni að? Á því eru tvær skýringar helstar. Hin fyrri er, að hópur ofstækisfullra múhameðstrúarmanna, sem búsettur er í Danmörku sættir sig engan veginn við stjórnskipulag ríkisins sem hann býr í en þiggur þó veglegar bætur „velferðarríkisins. Hópur, sem tengist samtökunum Islamisk Trosamfund, með íslamska trúarleiðtogann (imam) Abu Laban í broddi fylkingar, ferðaðist um Mið-Austurlönd til þess að æsa menn upp gegn Danmörku. Í Danmörku kynntu þeir þetta þannig að þeir ferðuðust um múhameðstrúarlöndin til að draga úr æsingnum og fá þau til að setja ekki viðskiptabann á Danmörku. En það var fjarri sanni, sem sást best á því að þeir höfðu bætt myndum í myndasafnið sem þeir höfðu meðferðis í áróðursferðina og sem margir héldu fyrir vikið að hefðu birst í Jyllands-Posten. Voru þessar myndir sýnu verri en þær sem birtust í blaðinu. Á einni var Múhameð í svínslíki, sem vitanlega fer afskaplega fyrir brjóstið á múhameðstrúarmönnum. Í raun er myndin af manni sem tók þátt í svínahátíð í litlum bæ í Frakklandi og er hann vægast sagt mjög undrandi á því að hafa dregist inn í þessa deilu. Ofstopamennirnir vissu hins vegar hvað þeir voru að gera og að ekkert gagnast áróðri þeirra betur en að vantrúuðu hundarnir í Danmörku hafi teiknað og birt myndir af spámanninum í svínslíki.
Hin ástæða þess að deilan hefur magnast svo er að völd ofstopamannanna aukast við að stilla upp sameiginlegum óvini sem hægt er að ráðast á með ofstopa. Með því æsa þeir lið til fylgis við sig og hræða hógværari múhameðstrúarmenn til að hafa sig hæga. Jafnframt hræða þeir auðvitað líftóruna úr mönnum sem ganga gegn vilja þeirra, til að mynda skopmyndateiknurunum, og minnka líkurnar á að gengið sé gegn vilja þeirra. Til að gera illt verra, þá hljóta þeir stuðning einræðisherra múhameðstrúarlanda sem beina vilja athyglinni frá innri vandamálum ríkja sinna og reiði kúgaðra þegna sinna að öðrum. Leiðtogar þessara ríkja eru dauðfegnir þegar reiðin beinist gegn öðrum en þeim sjálfum. Ljóst er að ekki væri kveikt í erlendum sendiráðum í þessum ríkjum nema stjórnvöld horfðu í gegnum fingur sér með það eða beinlínis styddu það.
Tvennt er sérstaklega athyglisvert við þessi mótmæli öll. Hið fyrra er, hversu fámenn æsingamótmælin eru yfirleitt þrátt fyrir allt. Hitt er að tvískinnungsháttur öfgamannanna veldur því að ekki ber að hlusta á eða taka mark á þeim, svo ekki sé talað um að láta eftir óbilgjörnum kröfum þeirra. Aðferðir þeirra við að láta óánægju sína í ljós snúast allar um að beita aðferðum sem eru að minnsta kosti jafn slæmar og helst verri en það sem þeir eru að gagnrýna. Í hugum þessara ofstopamanna er sjálfsagt að óska vantrúuðu hundunum í Danmörku og Noregi dauða og djöfli, ákalla Osama Bin Laden eftir föstudagsbænina til að sprengja upp Kaupmannahöfn, hóta öllum Dönum og Norðmönnum lífláti, skjóta myndir af forsætisráðherrum vantrúaðra ríkja í tætlur, vanvirða og kveikja í fánum og trúarlegum táknum annarra, afneita gereyðingarherferð nasista gegn Gyðingum, birta skopmyndir af trúarlegum og menningarlegum persónum annarra þjóða og svo framvegis. Þeir krefjast að allir sýni þeim og tilfinningum þeirra ýtrustu virðingu en eru ekki tilbúnir að sýna öðrum eða tilfinningu annarra neina virðingu. Menning, trúarbrögð, tilfinningar og tákn múhameðstrúarmanna eru sum sé heilög en annarra skipta engu máli og sjálfsagt er að ráðast gegn þeim og svívirða að vild.
Hvar halda þessir talsmenn sannleikans sig þegar sprengjur springa meðal saklausra óbreyttra borgara í Ísrael, hvar voru þessir fulltrúar guðlegs réttlætis í kjölfar árásanna á tvíburaturnana í Bandaríkjunum, hvar voru þessir talsmenn trúarbragða friðarins þegar sprengjurnar sprungu í lestunum í Madrid og hvar voru þessir menn, sem eru fullir reiði réttlætisins, þegar tyrkneski presturinn var skotinn tveimur skotum í bakið af ofstækisunglingi um daginn? Af hverju heyrðist hvorki hósti né stuna þá? Eða er allt leyfilegt gegn vantrúuðum hundum? Af hverju ætlar allt um koll að keyra þegar birtar eru teikningar af spámanninum en enginn þeirra segir neitt þegar svívirðileg fjöldamorð eru framin á saklausum borgurum? Af hverju ættu borgarar vantrúaðra ríkja að taka nokkurt tillit til skoðana manna sem sjá allt frá einni hlið, manna sem telja sig mega gagnrýna okkur að vild og hóta, en þola enga gagnrýni sjálfir?
Nú krefjast ofstopamennirnir opinberrar afsökunarbeiðni dönsku ríkisstjórnarinnar á birtingu Jyllands-Posten auk þess sem hún grípi til aðgerða gegn blaðinu, svo sem að beita það sektum. Þeim er vitanlega frjálst að hafa þá skoðun og viðra hana að vild. Verra er hins vegar að þeir sætta sig ekki við frelsið sem ríkir í lýðræðisríkjunum, menningu þeirra og hefðir. Þeir krefjast skilyrðislausrar hlýðni við boðum sínum.
Það er mikilvægt að nefna í þessu sambandi að þetta eru fulltrúar örsmás hóp múhameðstrúarmanna og fáir koma nálægt þeim mótmælum sem lýst hefur verið. Flestir láta þau fram hjá sér fara og sem betur fer eru flest mótmælin friðsöm. Þrátt fyrir að öfgamennirnir séu langt í frá fulltrúar skoðana flestra múhameðstrúarmanna þá eru þeir hávær og ógnandi hópur sem fær mikla athygli fjölmiðla. Það er þess vegna mikilvægt að gæta þess að þeir móti ekki umræðuna.
Aðferð ofstækismannanna er velþekkt. Hún er að hræða fólk til fylgispektar við sig og hugmyndir sínar. Með ofbeldi og hótunum um ofbeldi er fólk hrætt til að viðra ekki aðrar skoðanir en þær sem ofríkismönnunum geðjast. Þetta er aðferð sem beitt er af kommúnista-, trúarofstækis- og fasistaríkjum nútímans og síðustu aldar og annarra einræðisríkja sögunnar. Menn vita hverju þeir eiga von á hagi þeir sér ekki að vilja ofstækismannanna. Reynt er að fanga þegna þjóðfélagsins með ofbeldishótunum. Því miður hefur ofstopamönnunum orðið allt of mikið ágengt í að halda samborgurum sínum í heljargreipum óttans og í síauknum mæli tekist að færa ógnarvald sitt yfir til annarra heimshluta. Skemmst er að minnast þegar Íranar kváðu upp trúarlegan dauðadóm yfir Salman Rushdie svo ekki sé talað um óttann í kjölfar hryðjuverkanna hinn 11. september 2001.
Þó að vissulega sé æskilegt að meðborgurum, trúarbrögðum, kynþáttum og skoðunum, svo dæmi séu tekin, sé sýnd tilhlýðilega virðing, þá verða menn, í lýðræðisríkjum að minnsta kosti, að geta tekið gagnrýni og háði. Öll trúarbrögð heimsins hafa þurft að sitja undir gagnrýni og gríni, lúterstrú, katólskan, gyðingdómurinn, búddisminn, ásatrúin og svo mætti lengi telja. Það er jafnframt algerlega óþolandi krafa að blöð í lýðræðisríkjum fari silkihönskum um eitt fremur en annað. Við það myndu fjölmiðlar missa trúverðugleika sinn, enda er aldrei hægt að vita til hvers þeir láta kúga sig, ef ofstækismönnum tekst að kúga þá til að meðhöndla trúarbrögð sín öðruvísi en annarra. Auk þess er hætta á að ofstækismenn reyni að hrifsa alla höndina verði þeim réttur litli fingur.
Við bönnum mönnum ekki að hafa skopskyn eða skoðanir bara af því að okkur mislíkar þær. Það má ekki beygja sig undan kúgun ofríkismanna og því má ekki gefa eftir í þessari deilu. Lýðræðið og hornsteinar þess, eins og mál- og prentfrelsi, er mörgum mönnum ekki síður mikilvægt en trú og ofstopamenn verða, sem og þeir borgarar lýðræðisríkja sem vilja hefta málfrelsið til að sefa fámenna hópa víða um heim, að skilja þar verður ekki gefið eftir. Lýðræðið tryggir raunar að menn geti ástundað þau trúarbrögð sem þeir óska. Flestir múhameðstrúarmenn skilja þetta auðvitað og þeim mun mikilvægara er að láta ekki ofstopamennina auka áhrif sín með því að gefa of mikið eftir gagnvart þeim.
Því miður er þó hætt við að bið verði á því að nokkur maður leggi í að teikna mynd af Múhameð, svo ekki sé talað um skopmynd. Því miður hefur Jyllands-Posten neyðst til að láta undan þrýstingnum og draga örlítið í land og því miður hefur Kofi Annan að vanda brugðist góðum málstað og gagnrýnt blöð sem birt hafa myndirnar áður en hann gagnrýndi öfgamótmælin. Þannig hefur ofstopamönnunum orðið nokkuð ágengt í þessum átökum. Þó er hægt að vona að borgarar múhameðstrúarríkja, sem búa við kúgun leiðtoga sinna eða ofstækishópa, hafi kynnst betur hugmyndum um frelsi og lýðræði og rísi upp gegn ofríkinu. Þeir voru ekki margir árið 1980 sem trúðu því að kommúnistaríkin hryndu eitt af öðru áratug síðar.