Þriðjudagur 14. febrúar 2006

45. tbl. 10. árg.

Hið opinbera hefur umfangsmikið eftirlit með fyrirtækjum og einstaklingum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir svonefnt verðsamráð þeirra. Þrátt fyrir kvein stjórnarandstöðunnar um fjárskort til samkeppniseftirlits hafa útgjöld ríkisins til þeirra mála aukist mjög hin síðari ár. En þótt ríkið hafi áhyggjur af hugsanlegu samráði fyrirtækja hefur það þó sjálft á sínum snærum ýmsar verðlagsnefndir og dregur úr keppni milli fyrirtækja með sjóðum á borð við flutningsjöfnunarsjóð olíu. Ríkið heftir jafnframt samkeppni erlendis frá með tollum og og ýmsum tæknilegum viðskiptahindrunum. Annar angi hins opinbera, sveitarfélögin, hafa blygðunarlaust stundað verðsamráð gagnvart kennurum og fleiri starfsmönnum sínum með rekstri samráðslaunanefnda sveitarfélaganna. Kennarar hafa svo sjálfir langa verðasamráðshefð en verkalýðsfélög þeirra og annarra hafa auðvitað ekki verið annað en samráðsklúbbar þótt í seinni tíð hafi þau aðallega orðið að ferðaklúbbum og tjaldvagnaleigum.

Samráðið er með öðrum orðum ekki slæmt nema aðrir stundi það en stjórnmálamennirnir sem tala og setja lög gegn því. Nýjasta dæmið um samráð hins opinbera eru tilraunir yfirþjóðlegra stofnana á borð við ESB og OECD til að samræma skatta í aðildarlöndum sínum. Þessar stofnanir hrella einnig ýmis önnur lönd, stundum nefnd skattaparadísir, sem þeim þykir bjóða borgunum sínum og góð skattakjör. Í nýju riti eftir Richard Teather, lektor í skattarétti við Bournemouth University, eru dregin saman rök gegn þessari yfirþjóðlegu samræmingu.

Teather bendir á að með auknu frelsi í viðskiptum milli landa á níunda áratug síðustu aldar hafi kostir skattasamkeppni milli ríkja komið betur í ljós en áður. Þegar menn geta fært vörur, fyrirtæki, fé og sjálfa sig auðveldlega milli landa verða áhrifin af skattasamkeppninni mun meiri en áður. Það sé auðvitað mikilvægt að halda sköttum lágum en til þess að njóta ávaxtanna til fulls þurfi hagkerfið að vera frjálst og opið. Skattasamkeppni milli ríkja haldi aftur af skattahækkunum og dragi þar með úr svigrúmi ríkisstjórna til að stofna til nýrra útgjalda. Teather segir að allir hagnist á þessari lágskattakeppni því lönd með lága skatta geri alþjóðlega markaði skilvirkari og á því hagnist allir. Það sé því rangt af ríkisstjórnum að líta á þessa keppni sem ógnun. Teather segir jafnframt að það sé tvískinnungur hjá ríkjum Evrópusambandsins að leggjast gegn almennum lágum sköttum í öðrum löndum á meðan ýmsar sértækar skattareglur og undanþágur gilda innan sambandsins.