Miðvikudagur 1. febrúar 2006

32. tbl. 10. árg.

Indriði H. Indriðason lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands ritar grein í nýjasta tímarit stjórnmálafræðinema undir fyrirsögninni Vankantar þjóðaratkvæðagreiðslna og kveður þar við nokkuð annan tón en hjá þeim sem ákafast tala um þjóðaratkvæðagreiðslur og lýðræði. Indriði segir í grein sinni að hæpið sé að tala um „vilja fólksins“, því að það sé einfaldlega ekki með góðu móti hægt að skilgreina hann á nokkurn hátt.

Indriði tekur dæmi af því að ef velja eigi á milli þriggja kosta, sem geti kallast Keflavík, Álftanes og Vatnsmýri, þá megi vel vera að atkvæðagreiðsla skili alls ekki „vilja fólksins“ enda sé hann ekki endilega skýr. Sú staða geti komið upp, og það þurfi ekki að vera óraunhæft, að ríflega helmingur kjósenda verði alltaf ósáttur við niðurstöðuna. Þá geti skipt máli í hvaða röð er kosið ef kjósa eigi oftar en einu sinni til að ná niðurstöðu. Sá sem sjái um atkvæðagreiðsluna geti því ráðið niðurstöðunni með því einfalda móti að ákveða röðina í kosningunni. „Í stað þess að dreifa valdinu og veita þegnunum aukin áhrif hefur valdinu í raun verið þjappað saman. Af þessu leiðir, að hvaða fyrirkomulag er valið til að halda þjóðaratkvæðagreiðslur, hvernig valkostirnir eru skilgreindir og hvernig kosið er skiptir allt miklu máli,“ segir Indriði.

Hann veltir því upp hvort ólíklegt sé að þessi staða komi upp, en segir að svo sé ekki. Sýnt hafi verið fram á að hliðstæð vandamál séu alltaf til staðar ef ákvörðunin sem taka þurfi sé „nægilega“ flókin. Í grófum dráttum megi segja, að ef ákvörðunin feli í sér tvær víddir, til dæmis kostnað og staðsetningu, þá sé vandinn til staðar. „Og það sem meira er, sá sem fær að ákveða fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar getur fengið hverja þá niðurstöðu sem hann kýs.“

Indriði segir ennfremur: „Það skref að taka upp þjóðaratkvæðagreiðslur auðveldar okkur ekki nema í undantekningartilvikum að finna „vilja fólksins“, heldur felur það einfaldlega í sér nýja dreifingu á ákvörðunartökuvaldi samfélagsins. Það er ekki sjálfgefið að sú niðurstaða verði lýðræðislegri nema í mjög yfirborðskenndum skilningi þess orðs. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru hvorki góðar né slæmar í eðli sínu og það er því alls ekki augljóst mál að þær eigi að hafa stærra hlutverk í sameiginlegri ákvörðunartöku okkar.“

Valgerður H. Bjarnadóttir, bæjarfulltrúi Vinstrigrænna á Akureyri og fyrrverandi framkvæmdastjóri jafnréttisstofu, tilkynnti í gær að hún hefði ákveðið að setjast ekki á lista flokksins við komandi bæjarstjórnarkosningar.

Það þýðir væntanlega að hún mun eftir svona tvö ár stefna bæði flokknum og bænum og fá sér dæmt sætið og ógreidd bæjarfulltrúalaun.