Fimmtudagur 2. febrúar 2006

33. tbl. 10. árg.

Nú munu dómarar landsins, einhverjir þeirra að minnsta kosti, ætla í mál við ríkið til þess að fá launahækkun. Tilefnið auðvitað ný lög um breytingar á lögum nr. 120/1992 um kjaradóm og óánægja dómara rökstudd með venjulegu tali um stjórnarskrá, sem virðist mega nota til að rökstyðja hvað sem er nú á dögum. Ekki síst varð sá rökstuðningur algengur eftir að við hann bættist vitleysan um að „stjórnarskráin eigi að njóta vafans“, sem er í raun hæpið því það eru sett lög sem „njóta vafans“, því reglan hlýtur að vera sú að lög gildi, nema stjórnarskráin mæli því í mót. Sett og birt lög gilda þar til önnur ríkari réttarheimild finnst, það er að segja stjórnarskrá eða nýrri lög, já og hugsanlega eldri sérlög, – og „vafinn“ stendur með meginreglunni. Sönnunarbyrðin hvílir vitanlega á þeim manni sem heldur því fram að sett og birt lög gildi ekki.

En þetta er annað mál og ekki ástæða til þess að hafna alltaf öllu sem rökstutt er með einhverri óljósri vísan til stjórnarskrárinnar. Hér er hins vegar aðstaðan sú, að stjórnarskráin hindrar ekki á neinn hátt þá lagabreytingu sem alþingi ákvað að gera á dögunum.

Eitt sem dómarar nefndu um tíma, var að með hinum nýju lögum væri eignarréttur þeirra skertur. Sú kenning stenst ekki, enda eiga þeir ekki önnur laun en þeir hafa unnið sér inn. Ógreidd laun, fyrir starf sem ekki er búið að vinna, er ekki eign í skilningi eignarréttar. Það má ekki rugla þessu saman við þá aðstöðu að maður sem sviptur er starfi sínu með ólögmætum hætti getur fengið sér dæmdar bætur fyrir það. Þar er það orðið „ólögmætum“ sem ræður úrslitum, en ef hann er sviptur starfinu með lögmætum hætti fær hann engar bætur og hefur auðvitað ekki verið sviptur neinni „eign sinni“. Þeir sem eru undir kjaradóm settir eiga enga heimtingu á því að hver úrskurður hans standi um eilífð og auðvitað ekki heimtingu á því að löggjafinn breyti aldrei reglum um kjaradóm. Auðvitað má Alþingi breyta þeim lögum sem það hefur sett um kjaradóm. Alþingi mætti leggja kjaradóm niður ef það svo kysi. Og þar sem að lagabreytingin frá Alþingi var ekki látin taka gildi aftur í tímann eða skerða laun um þann tíma sem þegar hafði verið unninn, var enginn sviptur eign sinni.

Annarri röksemd hafa dómarar beitt og raunar meira eftir því sem á hefur liðið. Það er talið um þrískiptingu ríkisvaldsins og sjálfstæði dómara. Sú röksemd á ekki við hér heldur. Í fyrsta lagi blasir við að einhver angi ríkisvaldsins verður að geta sett reglur um launakjör dómara. Ef löggjafinn má það ekki, þá er aðeins framkvæmdavaldið eftir nema menn vilji að dómsvaldið eigi sjálftöku um laun sín. Það hlýtur því að mega slá því föstu að löggjafinn megi setja almennar reglur um laun dómara. Með því er ekki sagt að löggjafinn – eða aðrir – megi beita því valdi sínu til þess að hafa áhrif á það hvaða dómar verði kveðnir upp í landinu. Það gengur ekki að laun dómara séu hækkuð eða lækkuð eftir því hvernig einhverjum fellur við dóma þeirra. En það má ekki rugla þessu saman við almennar breytingar sem taka til dómara eins og annarra sambærilegra aðila, og allra dómara en ekki bara sumra. Menn verða líka að átta sig á því, að möguleikar þeirra, sem ráða kjörum dómara, til þess að hafa áhrif með ákvörðunum sínum felast ekki aðeins í því að lækka kjör þeirra heldur líka hinu gagnstæða. Ef nú löggjafinn – eftir að hafa lýst því yfir að nauðsynlegt væri að tilteknar launahækkanir kæmu ekki til framkvæmda – hefði ákveðið að laun dómara einna skyldu hækka, hefði þá löggjafinn ekki í raun verið að veita dómurum glaðning? Menn geta ekki látið eins og löggjafanum sé bara bannað að taka ákvarðanir sem dómurum líka illa.

En þetta er aukaatriði. Aðalatriðið er það, að löggjafanum getur ekki verið bannað að setja almennar reglur þó þær taki þá til dómara rétt eins og annarra sem svipað er ástatt um. Ef upp kæmi til dæmis sú staða í ríkisfjármálum að nauðsynlegt væri að mati Alþingis að lækka laun allra ríkisstarfsmanna um fimm prósent, þá væri það galinn maður sem héldi að það væri aðför að „sjálfstæði dómstóla“ ef dómarar yrðu innifaldir í því. Ef ákvörðunin sneri hins vegar eingöngu að þeim ríkisstarfsmönnum sem ganga í skikkjum og vilja að staðið sé upp fyrir sér, þá mætti komast að annarri niðurstöðu. Ef að löggjafinn, með réttu eða röngu, metur það svo friður haldist ekki á vinnumarkaði nema komið sé í veg fyrir að æðstu embættismenn landsins hækki meira en hefðbundnir launamenn, þá er það langsótt að í því felist einhver aðför að „sjálfstæði dómara“ þó þeir séu ekki sérstaklega undanþegnir hinni almennu ákvörðun.

Eitt er hins vegar vafasamt í þessu máli þó sérfræðingarnir sem fjölmiðlarnir eru alltaf að hringja í virðist engar áhyggjur hafa af því. Stjórnarskráin segir að laun forseta skuli ákveðin með lögum. Hefur Alþingi þá heimild til þess að fela „kjaradómi“ að taka þá ákvörðun?

Ítilefni af væntanlegu prófkjöri Samfylkingarinnar þurfti því miður í gær að rjúfa í skyndi viðtalaröð við Dag B. Eggertsson um hvaðeina, til að segja frá því að japönsk kona, Yoko Ono að nafni, sem hefur á ævi sinni unnið það eitt listaverk að hafa komist upp á milli Bítlanna, sé væntanleg hingað til lands eftir margar vikur að afhenda Stefáni Jóni Hafstein tíumetra háa upplýsta súlu.

Stefán Jón telur þetta mikið listaverk. Hann hefur lengi verið þeirrar skoðunar að í borgina vanti risastóran sívalning, baðaðan ljósgeislum, fullan af lofti.