Þriðjudagur 31. janúar 2006

31. tbl. 10. árg.

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar kvörtuðu undan skattalækkunum haustið 2004. Nú segja stjórnarandstöðuþingmenn að skattar hafi alls ekki lækkað.
Leiðtogar stjórnarandstöðunnar kvörtuðu undan skattalækkunum haustið 2004. Nú segja stjórnarandstöðuþingmenn að skattar hafi alls ekki lækkað.

Það er mikilvægt að sú umræða sem Stefán Ólafsson prófessor kom af stað um skattamál fyrir tveimur vikum lognist ekki út af. Samkvæmt útreikningum Stefáns hefur skattbyrði aukist hjá flestum Íslendingum síðustu árin. Það hefur gerst þrátt fyrir að ýmis skatthlutföll hafi verið lækkuð. Ástæðan er einfaldlega sú að tekjur manna hafa aukist og þar með greiða menn hærri skatta. Þannig verður það þar til flatur skattur verður lagður á landsmenn.

Í stighækkandi skattkerfi eins og því íslenska aukast tekjur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, hratt með auknum tekjum. Ef það er almennur vilji til að halda skattbyrði niðri við slíkar aðstæður þarf að lækka skatta hratt þegar tekjur manna aukast. Það þarf að halda áfram að ræða hvernig menn koma í veg fyrir að skattbyrðin haldi áfram að aukast með aukinni velmegun.

Ástæðan fyrir því að skattar voru ekki lækkaðir nægilega mikið á síðustu árum var ekki síst sú kenning að skattalækkanir auki á þensluna svonefndu, svona eins og peningarnir fari bara í hlutlausan gír ef stjórnmálamenn fá þá til ráðstöfunar en valdi miklum skaða ef hinn almenni maður fær að nota þá að eigin vild. Ýmsir stjórnarandstæðingar töldu til að mynda þær lækkanir sem þó voru gerðar á sköttum algert glapræði sem mundu setja þjóðfélagið um koll. Þegar þær skattalækkanir sem nú eru jafnt og þétt að koma til framkvæmda voru kynntar haustið 2004 fóru leiðtogar stjórnarandstöðunnar hamförum gegn skattalækkunum á þensluforsendunum. Össur Skarphéðinsson þáverandi formaður Samfylkingarinnar sagði óheppilegt „að ráðast í umfangsmiklar skattalækkanir“. Rök hans voru efnislega þau sömu og 11. apríl 1999 þegar hann kvartaði undan því á Stöð 2 að skattar væru lækkaðir því að fólk eyddi peningunum bara í vitleysu.

Í þessu þensluástandi sem núna ríkir þá tel ég það vera mikil mistök hjá ríkisstjórninni að lækka skatta yfir línuna, líka til þeirra sem höfðu enga þörf fyrir slíkt og notuðu þetta sem kaupmáttarauka til þess að eyða í innfluttan lúxus

Það er því sérkennilegt að sjá þingmenn stjórnarandstöðunnar taka undir að skattar hafi verið hækkaðir þegar þeir hafa reglulega kvartað undan því að skattar hafi verið lækkaðir yfir línuna.