Mánudagur 30. janúar 2006

30. tbl. 10. árg.

Ólíkt Kolbrúnu Bergþórsdóttur, einum yfirlýstasta hægrikrata landsins – sem þó mun aldrei fara betur með atkvæðisrétt sinn en svo að eyða honum á þá vinstrisinnuðu Samfylkingu – þá kaus Vefþjóðviljinn ekki í prófkjöri Framsóknarflokksins um helgina, og veit því ekki af eigin reynslu hvernig staðið var að kosningu þar. Sem er miður, ekki síst hvað varðar svokallaða utankjörfundarkosningu. Það væri að minnsta kosti mjög fróðlegt að vita hvað framsóknarmenn eiga við þegar þeir tala um utankjörfundarkosningu, því þeir munu að minnsta kosti hafa haft það talningarlag að telja fyrst allra þau atkvæði sem greidd voru utan kjörfundar og það raunar á sama tíma og kjörfundurinn stóð. Fyrstu tölur voru birtar um leið og kjörstöðum var lokað og síðar var sagt frá því að það hefðu verið utankjörfundaratkvæðin sem þar voru á ferð. Það kemur nokkuð á óvart því eitt einkenni utankjörfundarkosningar, eins og þær eru almennt tíðkaðar í landinu, er að þeir sem taka þátt í henni geta einnig kosið á kjördegi ef þeim býður svo við að horfa. Þess vegna eru utankjörfundaratkvæði jafnan talin síðust þar sem bera þarf utankjörfundarskrána saman við kjörfundarskrána. Eins og lýsingar af vinnulagi framsóknarmanna hljóma, þá mætti eiginlega ímynda sér að ekki hafi farið fram nein utankjörfundarkosning, heldur hafi prófkjörsdagarnir einfaldlega verið miklu fleiri en einn.

En þetta er aukaatriði. Það sem hins vegar er forvitnilegt frá almennu sjónarmiði er sá óútskýrði munur sem var á þeim atkvæðum sem greidd voru fyrir síðasta laugardag og svo þeim sem þá komu. Fyrir utan efsta manninn, þá eru niðurstöðurnar algerlega ósambærilegar og mætti lengi leita áður en fundin yrðu slík dæmi um mun á niðurstöðu í „utankjörfundarkosningu“ og kjörfundarkosningu. En þetta verður vitanlega aldrei skoðað og þeir sem eru áhugasamir um vinnubrögð í Framsóknarflokknum munu hvorugur fá forvitni sinni svalað. En sennilega geta þeir snúið sér til kjörstjórnar síðasta landsfundar Samfylkingarinnar. Hún mun verða snögg að svara því til að ekkert óeðlilegt hafi átt sér stað. Sem er eflaust rétt.

Fleiri eru ánægðir en þeir sem sigra í prófkjörum. „Ég er feikilega ánægð, dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að þjóðkirkjan hafi brotið bæði stjórnsýslulög og jafnréttislög“ sagði kona ein í fréttum um helgina eftir að hafa fengið dóm á þá kirkju þar sem hún starfar sem prestur.

Það var nú aldeilis ánægjulegur áfangi fyrir einn prest.