Helgarsprokið 29. janúar 2006

29. tbl. 10. árg.

N iðurstaða prófkjörs Framsóknarflokksins í Reykjavík er athyglisverð fyrir ýmissa hluta sakir, ekki síst þeirra ásakana sem einstakir menn hafa haft uppi um að forysta flokksins sé einangruð og hafi lítinn stuðning almennra flokksmanna, eða grasrótarinnar eins og það er stundum kallað. Sá sem lætur mest að sér kveða í þessari gagnrýni er fyrrverandi alþingismaður Alþýðubandalagsins, Kristinn H. Gunnarsson þingmaður Framsóknarflokksins. Hann gekk meira að segja svo langt í gær að rita grein í Morgunblaðið þar sem hann kvartaði yfir því að ýmsir forystumenn í einstökum félögum í flokknum og forystan sjálf, hefðu haft óeðlileg afskipti af prófkjörinu með því að láta stuðning sinn við ákveðna frambjóðendur í ljós. Telur hann víst að hann sé næstur á lista yfir þá sem ekki hljóti stuðning forystumanna í flokknum.

„Dagur sat í þessu sæti sem óháður, en hann segist nú aldrei hafa sagst vera óháður heldur óflokksbundinn. Hvers vegna sat hann í sæti óháðra ef hann var ekki óháður?“

Það er út af fyrir sig hægt að bera á borð alls kyns samsæriskenningar þegar röðun á lista er ákveðin í fámennum hópi völdum af forystu flokks, en þegar um er að ræða opið prófkjör þá fer að verða erfiðara að halda því fram að forystan hafi stýrt hendi kjósenda og þeir sem þykjast tala fyrir hönd grasrótar flokks hljóta að efast um málstað sinn ef kjósendur í prófkjöri eru þeim alveg ósammála. Það skal ósagt látið hvort að Kristinn H. Gunnarsson telur úrslitin í prófkjörinu í Reykjavík áfall fyrir kenningar sínar. Ef marka má reynsluna lætur hann sér hvergi bregða, en staðreyndin er sú að sá frambjóðandi sem hann telur frambjóðanda forystuklíkunnar smáu, Björn Ingi Hrafnsson, hlaut 48% gildra atkvæða í fyrsta sæti, sem er miklu meiri stuðningur en keppinautarnir fengu. Kristinn getur svo sem bent á að frambjóðandinn hafi ekki stuðning meiri hluta framsóknarmanna á bak við sig, sem er út af fyrir sig rétt, en þá gætu ýmsir farið að rifja upp stuðning þann sem Kristinn sjálfur fékk á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins fyrir tæpu ári. Fyrir flokksþingið hélt hann því fram að mikil óánægja væri með forystuna innan flokksins og hann lýsti því yfir á forsíðu Fréttablaðsins að hann útilokaði ekki framboð gegn formanni eða varaformanni, eins og Vefþjóðviljinn fjallaði um á sínum tíma. Árangur Kristins í þessu framboðsbrölti sínu var sá að hann hlaut 6,7% atkvæða í kjöri til formanns, 5,2% til varaformanns og 2,5% til ritara. Þetta er nú allur stuðningur flokksmanna við Kristin H. Gunnarsson og gagnrýni hans, en samt er stundum látið eins og hann mæli fyrir munn margra.

Þá vekur athygli hve rýran stuðning keppinautarnir um fyrsta sætið fengu. Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi Framsóknarflokksins hlaut aðeins 35% atkvæða samanlagt í fyrsta og annað sæti, en hún hlaut leiðsögn hjá ímyndarráðgjafanum Gunnari Steini Pálssyni og kom fram sem ný og breytt manneskja eins og viðfangsefni hans gera gjarnan. Þriðji keppinauturinn, varaborgarfulltrúinn Óskar Bergsson, hlaut einnig slæma útreið, en hann fékk innan við 40% atkvæða í þrjú efstu sætin samanlagt.

Loks vekur athygli við þetta prófkjör, meðal annars í ljósi þeirrar umræðu sem farið hefur fram síðustu daga um stöðu tungumálsins og þá sérstaklega beygingarkerfisins og málfræðinnar almennt, að frambjóðandinn sem bar sigur úr býtum kann ekki að fallbeygja nafnið sitt og fór fram undir slagorðinu „Björn Ingi í 1. sætið“. Hann er svo sem ekki fyrsti frambjóðandinn sem ekki kann að beygja eigið nafn, en það væri óneitanlega ágætt ef frambjóðendur til ábyrgðarstarfa vissu hvað þeir heita í öllum föllum, sérstaklega þegar þeir segjast í kosningabaráttunni hafa áhuga á menntun barna og unglinga.

Önnur prófkjörsbarátta er nú háð af kappi í höfuðborginni, en hún er innan Samfylkingarinnar sem ætlar sér stóra hluti í borgarstjórnarkosningunum. Líkurnar á því eru að vísu ekki miklar, því að Samfylkingin hefur visnað hratt undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og hefur samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar komist niður í 23,6% fylgi. Flokkurinn hafði 31% í þingkosningunum árið 2003, 27,4% í könnun Gallup í desember og 34% þegar Ingibjörg Sólrún taldi nauðsynlegt að velta Össuri Skarphéðinssyni úr stóli formanns í maí í fyrra. Flokkurinn hefur lækkað í nánast hverri könnun frá því að Ingibjörg Sólrún tók við og á sama hraða verður flokkurinn horfinn um mitt ár 2008.

Það þarf svo sem ekkert að koma á óvart þótt flokkurinn sé að hverfa, því að málflutningur flokksmanna er allur og ævinlega ótrúverðugur. Eitt dæmi mátti sjá í viðtali Blaðsins í gær við Dag B. Eggertsson borgarfulltrúa sem býður sig fram til fyrsta sætis í prófkjöri Samfylkingarinnar. Þar var Dagur spurður að því hvernig honum hefði verið tekið í Samfylkingunni eftir að hafa verið óháður í samstarfi R-listans. „Ég hef aldrei sagst vera óháður, heldur óflokksbundinn,“ svaraði Dagur þá, og þykir greinilega ekki fínt lengur að vera óháður. En hverjar eru staðreyndirnar, var hann óháður eða ekki? Var hann ef til vill bara óflokksbundinn Samfylkingarmaður eins og marga hefur lengi grunað og sigldi þannig undir fölsku flaggi allan tímann? Eða var hann óflokksbundinn Framsóknarmaður eða Vinstri grænn og sigldi þá líka undi fölsku flaggi? Þetta ruglingslega tal samfylkingarmanna er auðvitað óskiljanlegt venjulegu fólki sem fylgdist með því þegar Ingibjörg Sólrún fékk að handvelja einstaklinga, „sem ekki tengdust flokkunum“ eins og það var orðað, til að skipa 7. og 12. sæti á framboðslista R-listans fyrir síðustu kosningar. Þessi tveir fulltrúar, Dagur B. Eggertsson og Jóna Hrönn Bolladóttir, hafa hingað verið kallaðir óháðir og þá er vitaskuld átt við að þeir séu óháðir stjórnmálaflokkum en ekki að þeir séu til dæmis óháðir þyngdaraflinu eða öðrum lögmálum sem hinn almenni maður þarf að búa við.

Til staðfestingar þessu má hafa að 19. ágúst síðast liðinn birtist í Morgunblaðinu sérstök leiðrétting vegna fréttaskýringar um R-listann sem birt hafði verið tveimur dögum áður. Í leiðréttingunni var á það bent að Ingibjörg Sólrún hefði ekki verið fulltrúi Samfylkingarinnar í 8. sæti á framboðslista R-listans fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2002, heldur „utan kvóta“. Svo sagði: „Hver flokkur hafði tvö sæti upp að 7. sæti, sem Dagur B. Eggertsson sat í sem óháður.“ Dagur sat í þessu sæti sem óháður, en hann segist nú aldrei hafa sagst vera óháður heldur óflokksbundinn. Hvers vegna sat hann í sæti óháðra ef hann var ekki óháður? Og fyrst hann var ekki óháður, hvaða flokki var hann þá ekki óháður? Eða á hann við að hann  hafi ekki verið óháður Ingibjörgu Sólrúnu sem valdi hann á listann? Og síðast en ekki síst: Hvers vegna er Dagur að reyna að fela það að hann hafi setið í sæti óháðra? Er hann að reyna að halda því að kjósendum í prófkjörinu að hann hafi nú alltaf verið þeirra maður? Er heiðarlegt af honum að þykjast vera það sem hann er ekki eða að þykjast ekki vera það sem hann er? Má ekki treysta því að fjölmiðlar spyrji hann áður en kosið verður í prófkjörinu hverjum hann hafi ekki verið óháður?