Laugardagur 28. janúar 2006

28. tbl. 10. árg.

S íðast liðinn sunnudag var opnuviðtal í Morgunblaðinu við sendiherra nokkurn sem hefur starfað í utanríkisþjónustunni í fjóra áratugi. Tilefnið var ærið þótt fátt kæmi fram í viðtalinu, en tilefnið mun þó vitaskuld ekki vera það sem ýmsir gætu haldið, það er að segja að sendiherrann er nú í framboði í prófkjöri. Hvað um það, þótt sumum kunni að þykja loftferðasamningar ekki nema rétt hæfilega skemmtilegt umfjöllunarefni þá eru þeir vafalaust til sem drekka í sig allt sem þeir komast yfir um slíka samninga. Loftferðasamningarnir eru þó ekki það sem vakti áhuga Vefþjóðviljans á viðtalinu, heldur það sem sagt var um útgjöld vegna framlags Íslands á heimssýningunni í Japan í fyrra.

Sendiherrann upplýsti Morgunblaðið um það að útgjöldin hefðu verið innan kostnaðaráætlunar og að það hafi raunar átt við um allt framlag Norðurlandanna, sem hafi verið með sameiginlegan sýningarbás. Þetta þótti sendiherranum sérstaklega ánægjulegt og sagði að þetta þætti „töluvert afrek“ og væri „of fátítt“. Það er óneitanlega athyglisvert, og réttlætir út af fyrir sig opnuviðtal við embættismann, þegar hann upplýsir eftir 40 ára reynslu af hinu opinbera að það sé „töluvert afrek“ að menn fari ekki fram úr kostnaðaráætlun. Ef rétt er – og Vefþjóðviljinn efast ekkert um það – þá segir það heilmikið um opinberan rekstur að það þurfi að lýsa sérstakri ánægju með það ef opinberir starfsmenn  halda sig við kostnaðaráætlanir.

Þetta er svo sérstaklega athyglisvert þegar haft er í huga að kostnaðaráætlunin var ekki sérlega nánasarleg, eða 57 milljónir króna. Já, að sögn sendiherrans var 57 milljónum króna eytt í sýninguna af hálfu Íslands og má giska á að ýmsum hefði þótt nær að verja fénu í eitthvað annað, til dæmis í lækkun skatta. Það er svo líka athyglisvert hvernig þessi útgjöld skiptust, því að beinn kostnaður við sýningarbásinn var rúmar 20 milljónir króna en afgangurinn, þá væntanlega tæpar 37 milljónir króna, var „kostnaður við ýmsan undirbúning og sérstaklega við einkar velheppnaða menningarkynningu á Íslandsdegi sýningarinnar 15. júlí síðastliðinn þar sem 3.000 manna áhorfendasvæði var nánast fullskipað“. Af þessu má væntanlega draga þá ályktun að meirihluti þessara 37 milljóna króna hafi farið í að lokka að íslenska básnum þessa tæplega 3.000 áhorfendur og kostnaður við hvern áhorfanda hefur þá væntanlega legið á bilinu 5.000 til 10.000 krónur, líklega nær hærri tölunni.

Nú er það vissulega ágætt að ekki var farið fram úr ríflegri fjárveitingunni, en er virkilega engin leið að fara betur með almannafé en að eyða því með þessum hætti?