Föstudagur 27. janúar 2006

27. tbl. 10. árg.

Þegar R-listinn tók við stjórn Reykjavíkurborgar fyrir tæpum 12 árum hafði hann uppi fögur fyrirheit um að efla „almenningssamgöngur“. Mun listinn hafa átt við stóru gulu farartækin sem almenningur notar nær ekkert. Efndum R-listans í þessum efnum er sennilega best lýst með því að síðasta heila ár hans við stjórn borgarinnar féll Íslandsmetið í bílakaupum. Aukningin í bílakaupum milli ára mun raunar vera Evrópumet og bílaeignin er nú að öllum líkindum höfuðborgarheimsmet.

En þótt R-listinn amist við bílum og hafi reynt að þrengja kost þeirra sem fara um á fjölskyldubílnum með því að draga gatnagerð hefur hann þó ekki verið svartsýnni en svo á framtíð einkabílsins að bensínstöðvum hefur snarfjölgað í borginni í valdatíð hans. Í R-listanum eru einnig menn og jafnvel heilu flokkarnir sem telja olíuna vera alveg að klárast og mikil olíukreppa muni skella á fljótlega. Það gefur auga leið að þegar bensínið klárast þá er gott hafa nóg af bensínstöðvum enda fæst þar orðið ýmislegt annað en bensín.

Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að amast við því að R-listinn gefi út sífellt fleiri leyfi fyrir bensínstöðvar. En það er óneitanlega gaman að því að stjórnmálaafl sem stefnir að því að útrýma einkabílnum og telur að olía gangi til þurrðar á næstu árum skuli hafa svo margar nýjar bensínstöðvar á afrekaskrá sinni.

Er það rétt að Palestínumenn hafi í fyrradag kosið hryðjuverkasamtök til að fara með meirihluta á löggjafarþingi sínu? Er það rétt að Sveinn Rúnar Hauksson formaður félagsins Ísland-Palestína hafi svo komið í fjölmiðla í gær og sagt að úrslit kosninganna skiptu bara engu máli því annar stjórnmálaflokkur hefði alla embættismenn, bókasafnsverði jafnt sem lögregluna, á sínum snærum? Eða dreymdi Vefþjóðviljann þessa bilun?