Fimmtudagur 26. janúar 2006

26. tbl. 10. árg.

Sumum virðist þykja betra að vera hlægilegur en fyndinn. Morgunblaðið, svo dæmi sé tekið, gerir ekki mikið að gamni sínu ef undan eru skildar myndasögur og teikningar Sigmúnds. En af og til virðist blaðið sjá ástæðu til þess að fá lesendur sína til að brosa að öðru en gamansemi sinni. Í fyrradag birti Morgunblaðið til dæmis baksíðufrétt um athyglisvert mál, frumvarp menntamálaráðherra um breytingar á lögum um grunnskóla. Í frumvarpinu er kveðið á um margt sem getur skipt nemendur og foreldra þeirra talsverðu máli; nám utan skólans verður metið til valgreina, íþróttaiðkun úti í bæ getur veitt undanþágu frá skólasókn, foreldraráð fá rétt til að skipta sér af ýmsu, ákveðið verði í lögum lágmarksfjárframlag sveitarfélaga til rekstrar skólans og svo framvegis. Með öðrum orðum, ýmislegt sem á erindi í fréttir og skiptir máli, hvort sem það er nú vit í tillögunum eða ekki. Og hvað ætli Morgunblaðinu hafi nú fundist mikilvægast í málinu, hvað ætli hafi ratað í baksíðufyrirsögnina? Jú, hún var: „Kveðið á um jafnrétti nemenda til náms óháð kynhneigð“. Morgunblaðið hafði nefnilega fundið í frumvarpinu eitthvað um að „skerpt sé á jafnrétti nemenda til náms óháð kynhneigð, en slíkt ákvæði var ekki að finna í gömlu lögunum“.

Hefði þessi fyrirsögn verið á frétt í öðrum fjölmiðli hefði kannski mátt ímynda sér að það hefði verið gert menntamálaráðuneytinu til háðungar. En ekki í Morgunblaðinu. Þar þykir þetta það markverðasta við frumvarpið, að „skerpt sé á“ ákvæðum sem „var ekki að finna í gömlu lögunum“. Morgunblaðið hefur verið á útopnu undanfarið vegna ýmissa mála er snúa að hugsanlegum réttindum þeirra sem kjósa fremur að eyða ævinni með fólki af eigin kyni en hinu, og sennilega er hægt að fá hvaða mál sem er á baksíðuna með því einu að skjóta orðunum „óháð kynhneigð“ inn í tillögur og málflutning. Þó er engin þörf á öllum þessum hamagangi því það er ágæt sátt um það á Alþingi að það verði ekki hallað á þá á nokkurn hátt með löggjöf sem búa með manneskju af sama kyni.

En það er gott til þess að vita að ekki verður lengur brotið á börnum í grunnskólum vegna kynhneigðar þeirra. Það hefur verið mikið vandamál fram að þessu.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar, hafa jafnan uppi stór orð með heldur litlum rökstuðningi um pólitísk afskipti af Ríkisútvarpinu og dagskrá þess. Það hefur sennilega verið í þeim anda sem Magnús Þór Hafsteinsson varaformaður hins stjórnlynda Frjálslynda flokks berst nú á Alþingi fyrir því að þátturinn „auðlind, fréttaþáttur um sjávarútvegsmál“ verði að nýju tekinn á dagskrá Ríkisútvarpsins. Eins og sennilega var við að búast þá brást menntamálaráðherra og ýmsir þingmenn við með því að segja að ráðherra skipti sér ekki af dagskrá útvarpsins. Það hljómar auðvitað voðalega vel. En af hverju eiga menntamálaráðherra og alþingismenn ekki að hafa skoðun á dagskrá Ríkisútvarpsins? Nú er það svo, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að ríkið heldur úti sjónvarpi og útvarpi. Hvað er að því, að stjórnmálamenn sem hafa þó eitthvert umboð frá kjósendum í landinu láti sig það skipta hvað stofnanir ríkisins hafa fyrir stafni. Er eitthvað lýðræðislegra eða betra að Páll Magnússon, Bjarni Guðmundsson eða aðrir embættismenn sem enginn hefur nokkurn tíma kosið, ákveði hvað þessi stofnun ríkisins sendir út? Það er allt of algengt að menn slái því fram í fljótheitum að kjörnir fulltrúar eigi ekki að skipta sér af störfum opinberra stofnana, svona eins og stjórnmálamenn séu allir hinir vafasömustu og með annarleg markmið, ólíkt embættismönnunum sem séu ákaflega „faglegir“. Ríkið og sveitarfélög á vissulega að sinna sem fæstu, en kjörnir fulltrúar, með lýðræðislegt umboð, eiga að vera miklu óhræddari við að hafa skoðun á þeim verkum sem hið opinbera sinnir.

Og fyrst nefndur hefur verið fréttaþátturinn Auðlind, þáttur sem Magnús Þór Hafsteinsson sá meira að segja einu sinni um, þá skal látin í ljós sú skoðun að tilvalið væri að setja hann aftur á dagskrá og þá helst í staðinn fyrir áróðursþáttinn „spegilinn“, sem er Ríkisútvarpinu til hneisu á hverjum þeim degi sem hann er kynntur sem fréttaþáttur.