Mánudagur 23. janúar 2006

23. tbl. 10. árg.

Það stefnir í aldeilis bráðfyndin úrslit í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Það virðist nefnilega allt benda til þess að borgarstjórinn í Reykjavík verði ekki efstur og ekki borgarstjóraefni Samfylkingarinnar. Þvert á móti verði borgarstjóraefni Samfylkingarinnar annar hvor þeirra manna sem fyrir rúmu ári sóttu fast að verða borgarstjóri en hinir vinstriflokkarnir tóku ekki í mál. Samfylkingin hyggst því ekki bjóða fram sem borgarstjóra þann einstakling sem vitað er að samstarfsflokkar þeirra geta fellt sig við heldur annan hvorn þeirra sem vitað er að samstarfsflokkarnir geta ekki sætt sig við. Og fram að kosningum mun sitja borgarstjóri sem eigin flokksmenn munu hafa hafnað sem borgarstjóraefni.

Nú er prófkjörinu auðvitað ekki lokið, svo öruggast er að byrja ekki að hlæja alveg strax. En það stefnir í að þetta geti orðið hið skemmtilegasta prófkjör á að horfa. Það yrði þá líka í annað skipti á tæpu ári sem Samfylkingarmenn kysu að valda almennum fögnuði með slíku vali sínu, en síðastliðið vor kusu þeir sér formann sem margir aðrir töldu ólíklegan til þess að auka líkurnar á því að Samfylkingin kæmist til verulegra áhrifa í landinu. Með sama hætti og Vefþjóðviljinn lýsti þeirri skoðun sinni að best væri að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yrði kjörin formaður Samfylkingarinnar, þá vill blaðið nú eindregið benda óákveðnum Samfylkingarmönnum á að kynna sér þá Stefán Jón og Dag vandlega.

Frá sjónarhóli Samfylkingarmanna sjálfra er hins vegar sennilega aðeins eitt sem mælir gegn því að kjósa annað hvort Stefán Jón Hafstein eða Dag B. Eggertsson til að leiða listann. Hvorugur þeirra hefur nægt sjálfsálit fyrir þá baráttu sem framundan er.