Þriðjudagur 24. janúar 2006

24. tbl. 10. árg.

Reynslumiklir menn þykjast hafa komið sér upp þeim fróðleik að allt gangi því skár sem undirbúningurinn er betri. Opinberar hátíðir eru í ljósi þessa fróðleiks undirbúnar mörg ár fram í tímann, sumar konur kváðu vera langt komnar með brúðkaupsplanið löngu áður hinn heppni á sér nokkurs ills von og hjá sumum mun prófkjörsundirbúningur hefjast löngu áður en valinn er vettvangur og flokkur aukheldur málefni. Sem betur fer er Vefþjóðviljinn ekki svona forsjáll. Ef hann hefði til dæmis ákveðið að undirbúa tíu ára afmæli sitt með árs fyrirvara þá yrði hann að byrja í dag og því nennir hann ómögulega. Þess í stað ætlar Vefþjóðviljinn að fagna níu ára afmæli sínu í dag í góðum félagsskap sjálfs sín og eru blóm og kransar afþakkaðir en þeir sem vilja minnast hans geta gert það á eigin ábyrgð.

Allt um það, Vefþjóðviljinn er níu ára í dag og hefur því gengið tæplega þrjúþúsund og þrjú hundruð sinnum á fund lesenda sinna með ýmis erindi. Flest hafa þau snúið að því áhugamáli að frelsi borgaranna til orðs og æðis aukist fremur en hitt. Í því sjónarmiði felst almenn andstaða við tekjur og gjöld hins opinbera þó því fylgi hins vegar ekki sú skoðun að allt hljóti að vera ómögulegt og illa sinnt sem hið opinbera gerir. Né heldur sú ímyndun að tiltæki einkaaðila séu öll hin ágætustu, að „niðurstaða á markaðinum“ hljóti alltaf að verða sérstaklega góð eða í það minnsta geðfelld. Það er misskilningur ef menn halda að frjálslyndir menn séu ánægðir með allt sem þeir vilja ekki að ríkið skipti sér af. Af því að samkeppnisreglur koma oft til tals í þessu blaði þá eru þær kannski ágætt dæmi. Frjálslyndur maður getur verið andvígur því að settar séu opinberar reglur um stærð fyrirtækja, hvað þau megi eiga og hvað þau megi gera – en það er alls ekki þar með sagt að sami maður sé ánægður með viðskiptahætti fyrirtækjanna eða annað í þeirra fari. Það er einfaldlega allt annar hlutur. Hinn frjálslyndi maður myndi hins vegar vilja bregðast við með því að beina viðskiptum sínum annað og myndi sennilega seint skilja þá sem tala sig máttlausa um „markaðsráðandi fyrirtæki“, „öfluga samkeppni“ og hver öll þessi hugtök nú eru, en fara svo á hverjum degi og versla í algeru hugsunarleysi um alla borg. Það er eðlilegt og sjálfsagt að fólk hagi viðskiptum sínum, ef það vill, eftir einhverjum slíkum sjónarmiðum, en það er hins vegar ekki eins sjálfsagt að heimta opinberar stofnanir og „eftirlitsaðila“ til þess að sjá um það fyrir mann.

Nóg um það. Eitt af því sem dreif á daga Andríkis, útgáfufélags Vefþjóðviljans, á síðasta ári, var að félagið opnaði bóksölu á lýðnetinu. Hafa þar síðan verið til sölu allnokkrar bækur sem líklegar þykja til að höfða til áhugamanna um þjóðmál og menningu að ógleymdu tímariti sem helgað er slíkum málefnum, Þjóðmálum, en útgáfa þess er ein besta nýung í íslenskri þjóðmálaumræðu í langan tíma. Það er ástæða til að fagna útgáfu þess rits, því sambland vinstrimennsku, rétttrúnaðar og almenns einskis hefur tekið æ stærri skerf í þeim fjölmiðlum sem landsmönnum munu nærtækastir. Bóksala Andríkis hefur, ólíkt flestu sem sagt er ganga vonum framar, gengið vonum framar og er þá bara eftir að finna út hverjar vonirnar voru.

Kosningar standa fyrir dyrum nú í vor. Ekki er að efa að þá mun aukast enn straumur þeirra bréfa sem Vefþjóðviljanum berst og virðist ætlað að láta í ljós það sjónarmið að einhverra hluta vegna eigi bréfritari heimtingu á því málflutningur hans verði nú svona eða hinsegin. Sumir bréfritarar virðast til dæmis telja sig eiga kröfu til þess að vefritum úti í bæ þyki allir kostir jafn slæmir í kosningum og mega ekki heyra á það minnst að einhver geti verið skárri en hinir. Seint verður þó beygt undan slíkum sjónarmiðum. Þegar kjósandi stendur frammi fyrir því að þurfa að merkja við á kjörseðli, þá er hann á sinn hátt á sama stað staddur og sá sem til dæmis þarf að velja sér maka, um lengri eða skemmri tíma. Það er enginn sem allt er léð en allir kunna að hafa eitthvað við sig. Galdurinn er að hitta á þann skásta. En það hefur aldrei verið erindi Vefþjóðviljans að segja mönnum hvað þeir eiga að kjósa – nú og þaðanafsíður að finna konum mann eða mönnum konu- heldur einfaldlega að miðla hugmyndum sínum um lífið og tilveruna og með þau sjónarmið geta lesendur hans gert það sem þeir vilja.

Andríki, útgáfufélag Vefþjóðviljans, fagnar í dag í níunda sinn afmæli þessa afkvæmis síns. Félagið þakkar öllum þeim sem skipt sér hafa af ritinu á þessum tíma, hvort sem er með skömmum eða hvatningarorðum, hæpnum fullyrðingum eða röngum tilvitnunum. Þá þakkar félagið þeim sem hafa séð ástæðu til þess að styðja þessa útgáfu með litlum fjárframlögum, um leið og það leyfir sér að vekja athygli á því að hægt er að bætast í þann inndæla hóp með því að smella á réttan hnapp hér til hliðar. Útgjaldahnappurinn er vitanlega vinstra megin á síðunni.