Helgarsprokið 22. janúar 2006

22. tbl. 10. árg.

Ý msir virðast hafa skipt um skoðun á svonefndri Norðlingaölduveitu að undanförnu. Fyrir aðeins þremur árum virtist nokkuð góð sátt um veituna eftir úrskurð Jóns Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra, um nýja útfærslu á henni. Á þessum þremur árum hafa efnisatriði málsins ekki breyst heldur hugur manna til veitu á þessum stað. Það sem hefur einnig gerst á þessum þremur árum er að efnahagsástandið hefur batnað verulega. Atvinnuleysi var nær tvöfalt meira á vetrarmánuðum árið 2003 en það er um þessar mundir. Íslendingar eru líklega á toppi hagsveiflunnar nú en voru að byrja að fikra sig upp á við vorið 2003.

Það er áhugaverð spurning hvaða áhrif efnahagsástandið hefur á afstöðu manna til virkjana og annarra framkvæmda sem ganga augljóslega á náttúruna. Það má gera því skóna að í hagsæld eins og nú um stundir séu fáir tilbúnir til að fórna fallegri náttúru undir veitur, virkjanir og háspennulínur. Þegar atvinnuleysi eykst er ekki óvarlegt að gera ráð fyrir að einhverjir vegi það þyngra að atvinna verði til við virkjanir og línulagnir.

Á sjötta áratug síðustu aldar setti hagfræðingurinn og síðar Nóbelsverðalaunahafinn Simon Kuznets fram þá kenningu að ójöfnuður aukist við upphaf aukinnar hagsældar en svo dragi aftur úr honum þegar lengra líður á hagvaxtarskeið. Samkvæmt þessari kenningu ætti ójöfnuður að aukast í fátækum löndum þegar hagvöxtur fer af stað en minnka í löndum sem náð hafa ákveðinni velmegun. Hagfræðingar hafa gaman að því að setja hugsanir sínar á línurit og ferillinn sem sýnir þessa þróun er svona hólslaga eins og fylgi Samfylkingarinnar, jafnt og þétt upp á við í formannstíð Össurar og svo jafnt og þétt niður í tíð Ingibjargar Sólrúnar.

Á tíunda áratug síðustu aldar tóku hagfræðingarnir Gene M. Grossman og Alan B. Krueger graf þetta og settu náttúruspjöll á lóðrétta ásinn og tekjur manna á lárétta ásinn. Með öðrum orðum telja þeir að þegar menn byrja að bæta hag sinn – til dæmis með iðnvæðingu – gangi menn á náttúruna en þetta snúist við þegar ákveðinni velmegun er náð. Þeir studdu þessa kenningu með rannsóknum og hún var kærkomið mótvægi við allt talið um „endimörk vaxtar“ og aðrar heimsendaspár sem umræða um umhverfismál var föst í frá því um 1970.

Umhverfisverndarsinnar hafa margir hverjir litið á hagvöxt sem andstæðu umhverfisverndar. En heilnæmt umhverfi, óspillt náttúra, fjölbreytt lífríki og önnur umhverfisgæði verða seint efst á forgangslista þeirra sem búa við mjög kröpp kjör. Menn þurfa að hafa efni á umhverfisvernd til að stunda hana.

Í seinni tíð hafa ýmis útivistar-, sport- og önnur tómstundafélög orðið mjög áberandi þátttakendur og málsvarar umhverfisverndar af ýmsu tagi. Skógaræktarfélög, ferðafélög, veiðifélög, fuglaskoðunarfélög og fleiri áhugamannafélög eru farvegur fyrir vaxandi áhuga almennings á því að njóta náttúrunnar. Hagvöxtur síðustu ára og þar með aukin bílaeign, betri vegir og auknar frístundir gera sífellt fleirum kleift að njóta náttúrunnar, hvort sem það er með veiði eða fjallgöngu.