Laugardagur 21. janúar 2006

21. tbl. 10. árg.

Þ að er ekki nýtt að haldnar séu ræður um skattbyrði með þeim hætti sem Stefán Ólafsson prófessor gerði í Morgunblaðinu á miðvikudaginn. Eins og skattkerfið er hannað bendir aukin skattbyrði manns í flestum tilvikum til þess að hann hafi bætt hag sinn. Auknar tekjur manna leiða til aukinnar skattbyrði. Og Íslendingar hafa verið að auka tekjur sínar mjög mikið á undanförnum árum. Þess vegna greiða þeir nú hærra hlutfall launa en áður í skatt. Skattalækkanir undanfarinna ára hafa ekki dugað til að vinda ofan af þessari þróun. En þessar staðreyndir fá sjaldan að fljóta með í gagnrýni af þessu tagi. Það á bæði við um málflutninginn nú sem og löngum áður. Fyrir þingkosningar 2003 var þessi umræða áberandi og það átti vafalaust þátt í fylgistapi Sjálfstæðisflokksins hve brösuglega flokknum gekk að skýra þessi mál. Umræðan fór aftur af stað ári síðar. Í bók sinni, Fjölmiðlum 2004, fjallar Ólafur Teitur Guðnason um skattbyrðisfréttaflutning sem þá hafði staðið yfir um stund:

Svo er hitt sem er villandi. Því er stillt upp sem miklum tíðindum að skattbyrði láglaunafólks hafi aukist mest. Þetta sýnir að enginn skilningur er fyrir hendi á þeim eiginleika skattkerfisins, að skattbyrði eykst mjög hratt á lágar tekjur – og því hraðar sem tekjurnar eru lægri. Þetta er einfaldlega eðli kerfisins og verður ekki umflúið nema skattkerfinu verði hreinlega umturnað. Þetta hefur ekkert að gera með aðgerðir – eða aðgerðaleysi – stjórnvalda á síðustu árum eins og gefið er í skyn í frétt Fréttablaðsins. Sá sem hefur 75.000 kr. í laun greiðir 1,9 % af þeim í skatta. Ef launin hækka í 80.000 kr. greiðir hann 4,2 %. Svona virkar kerfið. Skattbyrðin tvöfaldast við þessa smávægilegu launahækkun. Annað dæmi enn skýrara: Sá sem hefur 71.350 kr. í laun greiðir 10 kr. í skatt. Ef launin hækka um skitinn þúsundkall verður skattuinn 395 kr. Skattbyrði þessa vesalings manns hefur næstum því fertugfaldast! Eigum við ekki bara að slá því upp á forsíðu? Þessi dæmi ættu að sýna, að þótt svona útreikningar geti verið skemmtilegir og dramatískir hefur niðurstaðan litla sem enga þýðingu. Hún er bara ósköp saklaus stærðfræðileg afleiðing af því hvernig skattkerfið virkar – og ætti ekki að koma neinum á óvart.

Fyrir utan þau dæmi sem Ólafur Teitur tekur hér, þá má ímynda sér að maður nokkur hafi í laun nákvæmlega 100 þúsund krónur umfram svokölluð skattleysismörk. Ef hann myndi skyndilega lækka í launum um þennan hundraðþúsundkall þá gæti hann auðvitað glaðst yfir því að „skattbyrði“ hans hefði lækkað með mjög afgerandi hætti. En það er ekki víst að honum þættu skiptin góð. Aukin „skattbyrði“ getur verið til marks um að það hafi einfaldlega hlaupið á snærið hjá launamanninum.

Eina leiðin til að komast hjá því að skattbyrði aukist mjög hratt með hækkandi tekjum er að taka upp flatan skatt. En svo einkennilegt sem það er þá eru það einmitt þeir sem kvarta mest undan aukinni skattbyrði með hækkandi tekjum sem eru mest andsnúnir flötum skatti.