Þriðjudagur 17. janúar 2006

17. tbl. 10. árg.

Þá er eftirmaður Steingríms Hermannssonar líka búinn að gefa það út að önnur efnahagslögmál gildi á Íslandi en í vestrænum ríkjum almennt. Hér þurfi aðrar aðferðir en hefðbundið vestrænt frjálsræði í verslun og viðskiptum til bæta lífskjörin. Þetta staðfesti hann með skipan 10 manna nefndar sem fjalla á „um helstu orsakaþætti hás matvælaverðs á Íslandi og gera tillögur sem miða að því að færa matvælaverð nær því sem gengur og gerist í helstu nágrannaríkjunum“.

Þetta er víst mikið rannsóknarefni og ekki dugar minna en 10 manna nefnd með þrjá embættismenn sér til aðstoðar. Formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra hefur jafnframt óskað þess að „nefndin hafi í starfi sínu samráð við hagsmunasamtök, fulltrúa framleiðenda og helstu viðskiptaaðila“. Minna má það ekki vera til að komast til botns í þessu sérstæða máli. Hingað til hefur það þótt blasa við hverjum manni að innflutningsbann, tollar, vörugjöld og framleiðslukvótar eigi hlut að máli en formaður Framsóknarflokksins treystir því ekki nema rétt mátulega.

Þar sem hér mun um að ræða afar dularfullt rannsóknarefni og alveg séríslenskt fyrirbæri er skrítið að gengið sé framhjá veðurklúbbnum á Dalvík og Álfaskólanum við val á fulltrúum í nefndina.