Mánudagur 16. janúar 2006

16. tbl. 10. árg.

Fyrir þremur mánuðum kveinkuðu eigendur mikillar fyrirtækjasamsteypu sér talsvert undan Morgunblaðinu. Og þeir sem eiga mikið undir sér hafa gjarnan önnur ráð en hinir, og í þessu tilfelli óskuðu stjórnendur fyrirtækisins eftir – og fengu – fund með forsvarsmönnum blaðsins til þess að ræða fréttastefnu Morgunblaðsins, eins og það var einhvers staðar kallað. Fundarins kröfðust þeir með vísan til þess að þeir auglýstu mikið í blaðinu.

Gott og vel, auðvitað kemur þetta í sjálfu sér ekki öðrum við. En þegar menn senda þessa dagana frá sér yfirlýsingar um að það komi sko ekki til greina að skipti sér af ritstjórnarstefnu þeirra blaða sem þeir þó eiga, þá er kannski ekki nema von að einhver rifji upp hversu skammt er síðan þeir töldu sig eiga heimtingu á að skipta sér af blöðum annarra, ef þeir bara auglýstu í þeim. Enda er það svo að það er bæði vitleysa og fyrirsláttur þegar komið er með frasana um að eigendur hafi ekkert um það að segja hvers konar blöð þeir gefa út. Og þegar horft er til þess að nú hafa meira að segja eigendurnir viðurkennt að þeir borga með rekstri DV – útgáfa þess er hugsjónastarf – þá sést enn betur hversu lítið mark á þessu að taka. Eigendur sem að öðru leyti eru ekki kunnir að því að vilja tapa á viðskiptum. Hver ætti að borga með rekstri DV sem ekki væri ánægður með framleiðsluna? Og vera ófáanlegur til að selja þegar menn gefa sig fram og vilja kaupa blaðið? Spyrja ekki einu sinni Björgólf Thor Björgólfsson um það hvað hann væri tilbúinn að borga! Og það menn sem hingað til hafa sagt að allt sé til sölu fyrir rétt verð.

Umræðan síðustu daga um hugsanlegar kauptilraunir Björgólfsfeðga er dæmi um það hvernig þjóðmálaumræða getur snúist algerlega að aukaatriðum. Jafnvel þó að einhver hafi viljað kaupa DV og hætta í framhaldi útgáfu þess þá kemur það fjölmiðlafrelsi ekkert við. Fyrir nú utan þá augljósu staðreynd að enginn er neyddur til að selja – og því ekki sviptur frelsi þó hann ákveði að gera það – þá myndi slík niðurlagning fjölmiðils auðvitað opna rúm fyrir annan í hans stað, ef það hafa verið markaðsástæður fyrir útgáfu hans. Það minnkar auðvitað ekki möguleika neins til að gefa út fjölmiðll ef að einhver annar hættir útgáfu. Það eykur frekar möguleikana. Á hinn bóginn geta menn minnkað möguleika annarra með því að fylla markaðinn sjálfir af miðlum þannig að vart verði pláss fyrir aðra. Slíkt gætu menn fremur gagnrýnt, þó Vefþjóðviljinn, sem er andvígur samkeppnislögum, myndi auðvitað ekki vilja að slíkir viðskiptahættir yrðu bannaðir með lögum.

Og tökum svo það dæmi að „Konur gegn klámi“ safni liði og peningum og fari svo og kaupi Bleikt og blátt og annað hvort hættu útgáfu þess eða breyttu ritstjórnarstefnu þess. Dytti einhverjum í hug að fjölmiðlafrelsi hefði verið skert? Myndi hinn hugrakki Halldór Ásgrímsson koma í fjölmiðla og segjast ekki trúa því að þetta hefði verði gert?