Miðvikudagur 18. janúar 2006

18. tbl. 10. árg.

Fólk byggir ráðstöfun atkvæðis síns á hinu og þessu. Nýlega birtist til dæmis grein Í Morgunblaðinu þar sem maður einn útskýrði sína afstöðu með þessum orðum:

…ein af helstu ástæðum míns stuðnings við Framsóknarflokkinn er hversu vel flokkurinn hefur staðið við bak okkar samkynhneigðra í mannréttindabaráttu okkar. Framsóknarflokkurinn hefur farið með sveitarstjórnarmál í ríkisstjórn síðan 1995 og á þessum tíma hafa markverðustu áfangar náðst í réttindabaráttunni, má þar nefna lög um staðfesta samvist frá 1996 og síðar lagaheimild til stjúpættleiðinga.

Já fólk hefur ólíkar ástæður fyrir því hverja það kýs. Sú staðreynd að Framsóknarflokkurinn hefur farið með sveitarstjórnarmál í ríkisstjórn á sama tíma og þær lagabreytingar hafa verið gerðar sem hér voru nefndar, er þó sennilega heldur óvenjuleg, því hvorugt málefnið heyrir undir félagsmálaráðherra eða tengist sveitarstjórnarmálum að öðru leyti. Það voru dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson og Sólveig Pétursdóttir, en ekki félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins, Páll Pétursson, sem fóru með bæði hjúskaparmálefni og ættleiðingar á þessum tíma. Hitt er svo annað mál að Framsóknarflokkurinn sat í ríkisstjórn á þessum tíma og ber því vitaskuld sína ábyrgð á því sem stjórnvöld höfðust að – og ekkert að því að honum sé hrósað eða hann gagnrýndur fyrir einstök mál eins og gengur. Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að láta sér detta í hug að Framsóknarflokkurinn hafi ekki af heilum hug stutt umræddar lagabreytingar, en þær voru samþykktar á þeim tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn fór með dómsmálaráðuneytið, nokkru eftir að Al Gore fann upp internetið en áður en að Guðrún Ögmundsdóttir breytti þeim heimi sem við þekkjum.

Það er gott að hafa sérfræðinga. Við einn slíkan, doktor í stjórnmálafræði, var rætt í í útvarpi í gær vegna þess stóra atburðar, sem þegar hefur valdið ólgu meðal Ástu Möller og skelfingu á ritstjórn Morgunblaðsins, að konur urðu ekki í efstu sætum í nýlegu prófkjöri í Garðabæ. Einhverra hluta vegna vilja nú ýmsir breyta listanum frá því sem kjósendur skildu við hann og er það sagt hugsað til þess að hann höfði betur til kjósenda. En doktorinn í stjórnmálafræði minnti þó á að slíkt hefði ekki alltaf gefist vel, og nefndi til skýringar dæmið af því þegar Ellert B. Schram stóð upp fyrir Geir Hallgrímssyni eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þetta var ljómandi dæmi hjá henni og óþarfi að láta þá staðreynd, að Ellert B. Schram stóð aldrei upp fyrir Geir Hallgrímssyni, draga úr þýðingu þess. Enda datt þáttastjórnandanum það ekki í hug.

Ætli drjúgur hluti fólks telji ekki fegurra í heimahögum sínum en annars staðar. Að minnsta kosti er sennilegt að sú skoðun sé algeng meðal þeirra sem alist hafa upp á landsbyggðinni. Ef menn hins vegar leggja stjórnmál fyrir sig og með þeim umsvifum að þeir þurfa að gæta að fylgi sínu um land allt, þá getur versnað í því. Einn þeirra sem þarf að minnast þessa er Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður. Steingrímur er að norðan og finnst þá auðvitað landslagið þar heldur bragðmeira en það sunnlenska. Fyrir nokkru var hann á skemmtun á Suðurlandi og hefur þá auðvitað ekki viljað særa heimamenn meira en nauðsyn krafði, heldur viðurkenndi að hefur hver til síns ágætis nokkuð:

Í Þistilfirði er fegurð slíka
að finna, að sjálfur Drottinn hrærist.
En í Flóanum er fallegt líka
og flatneskjan, sem slík, hún lærist.