Laugardagur 31. desember 2005

365. tbl. 9. árg.

Á R A M Ó T A Ú T G Á F A

E ins og áður um þetta leyti hefur Vefþjóðviljinn tekið saman þau atriði sem lakara væri ef hyrfu alfarin með árinu inn í aldanna skaut.

Steingervingur ársins: Eftir að Haraldur Örn Ólafsson hafði haft mikið fyrir því að ná sér í titilinn „pólfari“ með því að þramma þar í um þrjá mánuði með Ingþór á bakinu, kvefaðan, þá kom einhver Gunnar, ók á pólinn á sólarhring og er orðinn „Pólfarinn“.

Forföll ársins: Ingþór lagði á stað með Gunnari en hanskahólfið bilaði á örlagastundu.

Sérfræðingar ársins: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði eftir ónafngreindum sérfræðingum sínum að fá hefði mátt meira fyrir Símann. Það eru sennilega bæði fjársterkari og reyndari menn en til dæmis Björgólfur Thor Björgólfsson og Ólafur Jóhann Ólafsson sem báðir urðu undir í útboðinu um fyrirtækið.

Orsök ársins: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð ekki hissa þegar einkavæddur Síminn sagði upp fimm starfsmönnum sínum á Ísafirði. Þetta væri það sem hefðist upp úr því að selja fyrirtækið allt of háu verði. Kaupendurnir ættu fullt í fangi við að eiga fyrir þessu.

Ráðning ársins: Flugleiðir festu sér stjórnanda til framtíðar og réðu unga konu sem forstjóra. Hún varð svo eina dragtklædda grúppía landsins þegar Flugleiðir urðu að FL-group.

Áhugi ársins: Fáir fjölmiðlar höfðu sérstakan áhuga á, hvað þá fylgdu honum eftir, þegar stjórn Flugleiða sagði af sér og skildi stjórnarformanninn eftir. Hvernig halda menn að til dæmis breskir fjölmiðlar létu ef öll stjórn British Airways gerði hið sama, og þar á meðal eiginkona Gordons Browns?

Vinstrigrænn ársins: Robert James Fischer, Íslendingur, kom heim í heiðardalinn og lýsti við komuna yfir andstöðu við Bandaríkin, gyðinga, Kárahnjúkavirkjun og eiginlega allt nema Fischer-klukkuna og Sæmund Pálsson.

Samstarfsmaður ársins: Árni Magnússon félagsmálaráðherra mætti í „gleðigöngu“ og hélt þar ræðu og ákvað að eigna sér og sínum allt það sem gert hefði verið og yrði hugsanlega gert í málefnum göngumanna.

Stöðumat ársins: Gísli Marteinn Baldursson mat það svo að Eiður Smári og Bubbi Morthens væru lykillinn að sigri í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.

Sigur ársins: Ekki var nein spurning að Selma kæmist leikandi létt í úrslit Eurovision og líklegt að þar yrði hún líka í toppbaráttunni.

Álög ársins: Þegar sagt var frá því að Styrmir Gunnarsson hefði í einkabréfi notað nokkuð bragðmikið orðalag, þá varð um leið ljóst að á þá menn, sem glíma við þau örlög að vera talsvert minni stílistar en þeir vildu gjarnan vera, yrði lögð sú kvöð að koma þessu sama orðalagi að einhvers staðar, eigi sjaldnar en vikulega.

Tveirfyrireinn ársins: Dagur B. Eggertsson lýsti því yfir að ef R-listinn byði ekki fram að ári þá myndi hann ekki gera það heldur sjálfur.

Blaðamaður ársins: Þorvaldur Gylfason prófessor.

Fylgi ársins: Ágúst Ólafur Ágústsson var kjörinn varaformaður Samfylkingarinnar með 800 atkvæðum. Það var ágætis árangur og raunar erfitt að gera betur á 500 manna fundi.

U-beygja ársins: Borgarstjórn Reykjavíkur lýsti skyndilega yfir andstöðu við dauðarefsingar. Og samhljóða auðvitað; minnihlutinn er vonlaus.

Innganga ársins: Dagur B. Eggertsson tilkynnti að hann myndi ekki ganga í Samfylkinguna.

Skáldsaga ársins: Jónsbók.

Nám ársins: Mannauðsstjórnun er að sigla fram úr leiðtogafræðum á lokasprettinum til alfroðunnar.

Flótti ársins: Hugtakið um öskuna og eldinn öðlaðist nýja vídd þegar vinstrimenn í Kópavogi, óánægðir með vinnubrögð í prófkjöri vinstrigrænna ákváðu að ganga í Samfylkinguna.

Hæfi ársins: Nær stöðugur áhugi fréttamanna á hagsmunatengslum stjórnmálamanna tók sér stutt hlé rétt á meðan Kolbrún Halldórsdóttir barðist fyrir hærri fjárveitingum til óháðra leikhópa.

Nýliði ársins: Valdimar L. Friðriksson, framkvæmdastjóri Íþróttafélagsins Aftureldingar og formaður UMSK, varð nýr þingmaður Samfylkingarinnar. Hann sagði að sitt „fyrsta verk verði að beita sér fyrir því að föst 100 milljóna króna fjárveiting komi árlega til sérsambanda ÍSÍ“.

Hópferð ársins: Þegar sprengingar urðu í Lundúnum um mitt sumar, kom í ljós að fyrir tilviljun voru helstu viðskiptamógúlar landsins auk þeirra Ólafs Ragnars Grímssonar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, staddir í fjármálahverfi borgarinnar á þessum sama tíma.

Drykkjumaður ársins: Skúli Eggert Þórðarson skattrannsóknarstjóri er að sögn Jóns Ólafssonar athafnamanns „mjög lausmáll þegar hann er undir áhrifum áfengis“. Jón hefur um þetta fjölmörg dæmi sem ónafngreindir menn hafa sagt honum. – Allar aðrar heimildir eru samdóma um að Skúli hafi ekki smakkað áfengisdropa síðan árið 1977.

Ræðuhöld ársins: Jón Ólafsson athafnamaður greindi frá því að þáverandi forsætisráðherra hefði í afmælisræðu til Þórarins Eldjárns skálds, verið svo heiftúðugur að ræðan hefði öll snúist um athafnamanninn en ekki afmælisbarnið. Sérstakt sannindamerki var að hinn ræðumaður afmælisins var Einar Kárason sem nú hefur skrifað doktorsritgerð um Jón. Svo óheppilega vildi til að ræðan var til á bandi. Hún tók þrettán mínútur og í henni var ekki minnst á Jón Ólafsson athafnamann en í þrjátíu sekúndur á Jón Ólafsson Indíafara.

Svar ársins: Að þessu loknu varð svar Þórarins til þeirra mætu manna, Jóns og Einars, þetta: „Höfundur á eftir hetjunni að skrá / og herma það sannleikans vinum. / En í Jónsbók má ekki á milli sjá / hvor meira lýgur að hinum.“

Kostir ársins: Eftir að sett var þátttökumet í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lýsti Stefán Jón Einstein því yfir að kjósendur hefðu þar „gert upp á milli tveggja lakra kosta“.

Málflutningur ársins: Mörður Árnason gat þess á alþingi að forsvarsmenn olíufyrirtækjanna væru svikarar, svindlarar og pakk sem ætti að vera komið „á ónefndan stað fyrir löngu“. Nokkrum dögum áður hafði Samfylkingin gengið af göflunum yfir því að Björn Bjarnason hefði sagt að dómur Hæstaréttar, sem sendi Baugsmálið aftur til meðferðar héraðsdóms, þýddi að málinu væri ekki lokið.

Launakröfur ársins: Verslunarmannafélag Reykjavíkur var reitt yfir því að til væru fyrirtæki sem ekki ætluðu að greiða konum laun fyrir að taka sér frí á kvennafrídaginn. Sú reiði er í stíl við umræður um „launamun kynjanna“, þar sem yfirleitt er ekki litið til mismunandi vinnuframlags heldur bara starfsheita.

Dæmi ársins: Sama verslunarmannafélag fékk Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur til að sitja fyrir í karlmannsgervum til að leggja áherslu á að kynferði fólks eigi ekki að skipta máli heldur aðeins hæfni þeirra.

Átak ársins: Árni Magnússon stóð fyrir velheppnuðu átaki um sameiningu sveitarfélaga.

Stuðningur ársins: Í Grýtubakkahreppi, sveitarfélagi Valgerðar Sverrisdóttur, greiddu 210 manns atkvæði. Þar var sameining naumlega felld. 208 sögðu nei. 2 sögðu já. Engum fréttamanni datt í hug að spyrja Valgerði hvað hún hefði kosið.

Prinsipmenn ársins: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir bauð LÍÚ upp á sátt sem snerist um að Samfylkingin myndi hætta baráttu fyrir stefnu sinni í sjávarútvegsmálum gegn því að útgerðarmenn myndu ekki benda öðrum á að Samfylkingin væri skyndilega þögnuð.

Karl ársins: Steinunn Valdís Óskarsdóttir vildi ekki að reist yrði stytta af Tómasi Guðmundssyni Reykjavíkurskáldi – þar sem ekki væri vitað til þess að hann hefði verið kona.

Fatagreifi ársins: Hlynur Hallsson, varaþingmaður vinstrigrænna, náði ekki að hnýta á sig hálsbindi áður en hann talaði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi. Sennilega hefur hann tafist við að strauja Steingrímsjoð-nærbolinn sem hann var í innanundir, en vinstrigrænir skera sig sem kunnugt er frá „persónudýrkunarflokkunum“ með því að vera eini flokkurinn þar sem félagsmenn nota nærföt með myndum af formanninum í þeim tilvikum sem þeir nota nærföt.

Hvíldardagur ársins: Undanfarin ár hafa forkólfar R-listans fagnað „bíllausa-deginum“ með því að láta keyra sig um í embættisbifreiðum um alla borg með einkabílstjóra undir stýri. Nú nenntu þeir greinilega ekki að verða að athlægi einu sinni enn og breyttu nafninu í „hvíldardag bílsins“.

Óðagot ársins: Stjórnmálamenn í flestum flokkum voru sammála um að varhugavert væri að auka skattalækkanir. Nú væri öllu fórnandi til að þenslan ykist ekki.

Varfærni ársins: Samtímis fögnuðu stjórnmálamenn úr öllum flokkum nýjum og enn vitfirringslegri hugmyndum um byggingu tónlistarhúss á kostnað skattgreiðenda. Það eykur þensluna ef skattgreiðendur fá að halda peningunum sínum og nota þá eins og þeir vilja. Það eykur ekki þensluna ef peningarnir eru teknir af þeim og byggð höll fyrir á annan tug milljarða.

Áfall ársins: Árið 2000 taldi Össur Skarphéðinsson það „áfall fyrir lýðræðið“ að maður væri kjörinn forseti Bandaríkjanna með færri atkvæðum en mótframbjóðandinn. Árið 2005 fagnaði Össur Skarphéðinsson því er jafnaðarmenn og vinstrimenn í Noregi náðu meirihluta á þingi með færri atkvæði en borgaraflokkarnir.

Nafn ársins: Nýr forstjóri var valinn til Eftirlitsstofnunar EFTA. Fyrir valinu varð Norðmaður með því ákaflega viðeigandi nafni: Bull.

Stórborg ársins: Þráinn Bertelsson þjóðfélagsrýnir greindi frá því að í Reykjavík væri „fljótlegra að verða sér úti um eiturlyf en að panta pitsu“. Sennilega ætti lögreglan að líta til hans og fá að skoða hjá honum flýtivalið á símanum.

Málþing ársins: Samtök norrænna kirkjugarða héldu málþing í Reykjavík undir yfirskriftinni „Kirkjugarðurinn sem verustaður“. Frummælendur voru Jón Sigurðsson forseti, Skúli Magnússon fógeti og Páll Melsteð amtmaður.

Smekkmenn ársins: Þegar forsætisráðuneytið flaggaði í hálfa stöng á meðan á útför Guðmundar Benediktssonar ráðuneytisstjóra stóð, klifruðu ungir menn upp á þak stjórnarráðsins, fjarlægðu íslenska fánann og settu í staðinn borða með herskárri áletrun gegn álverum.

Afsökun ársins: Eftirá sögðust álversandstæðingar enga hugmynd hafa haft um að flaggað hefði verið í minningarskyni um látinn starfsmann. Það er ekki von. Fáni í hálfa stöng er nú ekki tákn sem menn þekkja eða bera virðingu fyrir.

Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.

Alþýðuleiðtogi ársins: Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins ákvað að flytja byltinguna út og hóf baráttu meðal mónakóskrar alþýðu.

Vísindastofnun ársins: Viðskiptaháskólinn á Bifröst tók upp nafnið Stjórnmálaskóli Samfylkingarinnar

Bíll ársins: Tveir metangas-bílar brunnu í akstri á árinu. Veit einhver hvað metangasbílar eru margir í landinu?

Prófkjör ársins: Ólafur Fáfnir Magnússon greindi frá því að hann og Margrét Sverrisdóttir myndu skipa fyrstu tvö sæti Frjálslyndra við næstu borgarstjórnarkosningar.

Starfsmaður ársins: Andri Teitsson tilkynnti stjórn KEA að hann yrði í fæðingarorlofi til sextugs.

Heimildamenn ársins: Samkvæmt öruggum heimildum kaffihúsaspekinga þá var það frágengið að Magnús Ragnarsson, Elín Hirst, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Bjarni Guðmundsson, Þorsteinn Pálsson og eiginlega allir Íslendingar nema Páll Magnússon yrði næsti útvarpsstjóri.

Kröfugerð ársins: Öryrkjabandalag Íslands stefndi heilbrigðisráðherra og gerði þá kröfu að honum yrði gert að leggja fram og mæla með tilteknu lagafrumvarpi. Næst verða þingmenn dæmdir til að vera með ákveðin frammíköll.

Móttökur ársins: Bolli Thoroddsen og félagar í stjórn Heimdallar buðu fjölda splunkunýrra félagsmanna velkomna með því að velja þá þegar í stað á SUS-þing þar sem þeir fyrir tilviljun kusu allir sama frambjóðanda og Bolli Thoroddsen og félagar í stjórn Heimdallar studdu til formanns. Þeir sem starfað höfðu í ungliðahreyfingunni áður, verða bara valdir einhvern tíma seinna.

Viðvörun ársins: Morgunblaðið, sem ekki er nú fyrir neitt væl, sló því upp á forsíðu að „með fjölgun trampólína fjölgar trampólínslysum“.

Sameiningarmenn ársins: Skorradalshreppur á skilið virðingu allra góðra manna. Meirihluti bæði Frakka og Hollendinga stóð sig einnig vel. Og Evrópusambandið mun hlusta jafn vel á þá og félagsmálaráðuneytið á Skorrdælinga.

Rannsakendur ársins: Viðskiptaháskólinn á Bifröst gerði „launakönnun“ með því að hringja í nokkra fyrrverandi nemendur. Runólfur Ágústsson rektor sagði að niðurstöðurnar væru sláandi og hann skammaðist sín fyrir þjóðfélagið. Síðar kom í ljós að í könnuninni var ekki gerður munur á því hvort svarendur voru í fullu starfi eða hálfu.

80 % ársins: Eftir að Evrópusambandssérfræðingar eins og Halldór Ásgrímsson og Eiríkur Bergmann Einarsson höfðu árum saman klifað á því að Íslendingar þyrftu að innleiða „80 % af öllum lagagerðum Evrópusambandsins“ var málið skoðað af þeim sem eitthvað vita um Evrópusambandsmál og í ljós kom að rétt tala er 6,5 %.

26 ársins: Halldór Ásgrímsson boðaði hálfsmánaðarlega blaðamannafundi, óháð því hvort nokkuð væri að frétta, þegar hann hóf störf í forsætisráðuneytinu. Í fyrra hélt hann engan fund og á þessu ári tvo.

Auglýsing ársins: Viðskiptaháskólinn á Bifröst auglýsti eftir starfsmanni og þuldi upp hæfniskröfur sínar og tók fram að sérstök dómnefnd myndi meta umsækjendur. Þetta voru sjálfsögð vinnubrögð enda var verið að auglýsa eftir kennara við lagadeild, hvorki meira né minna.

Ráðning ársins: Viðskiptaháskólinn á Bifröst réði sér starfsmann. Starfið var ekki auglýst, viðkomandi hafði sáralitla reynslu af lögfræðistörfum og ekkert framhaldsnám. Þetta var sjálfsagt enda var einungis verið að ráða forseta lagadeildar skólans. Það er alger tilviljun að þessi ráðning opnaði leið Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur inn á þing. Hún sagði í viðtali að nú væri úr sögunni sú röksemd gegn formannsframboði sínu að hún væri ekki á þingi. En hún kom hvergi nálægt enda ekki vön því að fá sitt í bakherbergjum.

Útdráttur ársins: Lambaselsdráttur Reykjavíkurborgar er afrek út af fyrir sig. Það er vandaverk að klúðra drætti úr hatti.

Hrós ársins: Tímaritið Vera hrósaði „Útlendingastofnun“ fyrir að ráða unga konu sem forstjóra. Auðvitað var það hins vegar ráðherra útlendingamála en ekki stofnunin sem valdi forstjórann – en hvernig hefði það passað við ímyndarsmíðina að hrósa Birni Bjarnasyni fyrir „skref í jafnréttisbaráttunni“, eins og ráðningin var kölluð í Veru?

Útilokun ársins: Við upphaf flokksþings Framsóknarflokksins sló Fréttablaðið því upp á forsíðu að Kristinn H. Gunnarsson útilokaði ekki að bjóða sig fram gegn formanni eða varaformanni. Eftir allt talið um að forysta flokksins væri úr tengslum við flokksmenn sem á hinn bóginn virtu Kristin H. mjög fyrir trúfesti sína við sannleikann og sannfæringuna, fékk Kristinn H. Gunnarsson 6,7 % atkvæða í formannskjöri, 5,2 % í varaformannskjöri og 2,5 % í ritarakjöri.

Afmæli ársins: Vigdís Finnbogadóttir varð 75 ára í apríl og reynt var að heiðra hana með ýmsu móti. Fyrir tilviljun var Ólafur Ragnar Grímsson í „opinberri heimsókn á Akureyri“ lungann úr afmælisvikunni og varð þannig sjálfur í fréttum á hverjum degi. Honum þótti mjög leitt að hafa stolið athyglinni af forvera sínum.

Fréttastjóri ársins: Útvarpsstjóri braut lög með því að ráða Óðin Jónsson fréttastjóra Ríkisútvarpsins án þess að leita lögbundinnar umsagnar útvarpsráðs. Fréttamenn, sem höfðu haft óstöðvandi áhuga á öllum öngum fyrri fréttastjóraráðningar, höfðu engan áhuga á þessu atriði.

Rólyndismenn ársins: Fréttamenn ærðust þegar þeir fengu ekki sjálfir að ráða sér fréttastjóra og felldu niður fréttatíma vegna reiði sinnar. Þeir hafa enn ekki beðist afsökunar á því.

Stýrimannaskóli ársins: Á tímum nafnbreytinga mátti stýrimannaskólinn auðvitað ekki heita stýrimannaskóli lengur. Fjöltækniskólinn er náttúrulega miklu meira sjarmerandi nafn eins og allir sjá.

Fögnuður ársins: Sagt var frá því að þýska byggingavörukeðjan Bauhaus hygðist opna útibú á Íslandi. Forstjóri Húsasmiðjunnar sagðist „fagna allri samkeppni“.

Startholur ársins: Yfirtökunefnd Kauphallarinnar er í þeim og er jafnvel talið að hún muni láta alvarlega til sín taka, strax á árinu 2015.

Fjölskyldur ársins: Stofnað var nýtt félag framsóknarkvenna í Kópavogi. „Bættur hagur fjölskyldunnar“ var sagður megintilgangur með félagsstofnuninni. Þar mun hafa verið átt við fjölskyldu Árna og Páls Magnússona.

Lögfræði ársins: Skyndilega kom fram sú kenning að í sakamálum skiptu efnisatriði og málavextir minna máli en það hver hefði kært, hvaða lögmann hann hefði og hver hefði ráðlagt honum að leita til hans. Það verður gaman þegar þessi kenning verður almennt orðin ráðandi. „Jæja vinan, gerði hann það já? Jájá. En höldum okkur við aðalatriðin hérna. Hvaða vinkonur þínar hafa hvatt þig til að kæra og af hverju valdirðu þennan réttargæslumann?“

Stofnanamatur ársins: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti því yfir að hún hefði „aldrei í pólitík farið áfram í gegnum flokksstofnanir, það er ekki það sem ég hef treyst á í pólitík“. Enginn fréttamaður sá ástæðu til að spyrja hana um það hver hefði þrívegis valið hana borgarstjóraefni R-listans, gert hana að „forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar“ og sett hana í þingframboð fyrir sama flokk.

Orsakavaldur ársins: John Kerry lýsti því yfir að það væri Osama Bin Laden að kenna að hann hefði árið áður tapað forsetakosningum í Bandaríkjunum. Svona kemur alltaf á daginn að engum er alls varnað.

Grís ársins: Það er nú augljóst.

Almenningur ársins: Agnes Bragadóttir.

Löggjafar ársins: Stjórnarandstaðan heimtaði lög sem myndu afturkalla launahækkanir nokkurra tiltekinna embættismanna. Þegar fjölmiðlamálið var í gangi í fyrra sögðu þeir að þau lög yrðu sértæk – og það mætti ekki.

Klukka ársins: Einar Bárðarson iðnrekandi.

Sakamaður ársins: Fjölmiðlar og stjórnmálaskýrendur fengu nýjan og aukinn áhuga á sakaferli Gunnars Örlygssonar þegar hann gekk í Sjálfstæðisflokkinn. Jafnframt var þess krafist að hann segði af sér þingmennsku.

Átta ársins: Oktavía Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri gekk í Sjálfstæðisflokkinn. Samfylkingin krafðist þess að hún segði sig úr bæjarstjórn.

Óhæði ársins: Dagur B. Eggertsson kom öllum á óvart og gekk í Samfylkinguna. „Óháðir“ misstu þar með borgarfulltrúa og Samfylkingin mun krefjast afsagnar Dags einhvern tíma á næstu dögum.

Sigurvegari ársins: Menntamálaráðherra og vonarstjarna náði 60 % atkvæða í varaformannskjöri gegn bæjarstjóra að norðan.

Forystumaður ársins: Sólarhring eftir að formaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnti um að hann myndi ekki leita endurkjörs sagði Árni M. Mathiesen í símaviðtali við Útvarpið að hann hefði enn ekkert getað hugleitt það hvort hann færi í varaformannskjör, því hann hefði verið allan tímann „á íslensku sjávarútvegssýningunni“ í Kópavogi. Gaman væri að vita hvernig heimsstyrjöldinni síðari hefði lokið ef Churchill hefði ekki aðeins þurft að stýra Bretlandi undir látlausum loftárásum Þjóðverja heldur hefði einnig þurft að fara á hattasýningu í Luton.

Spenna ársins: Enginn veit hvort Ólafur Hannibalsson, Valgerður Bjarnadóttir, Þorvaldur Gylfason, Guðmundur Andri Thorsson, Þráinn Bertelsson, Kristín Helga Gunnarsdóttir og félagar munu taka afstöðu með eða á móti stjórnvöldum í hinum vikulegu blaðagreinum sem einkennast af fjölbreytni og jákvæðni.

Slagsíða ársins: Heilu fjölmiðlarnir beita sér af hörku til að styðja vinstrimenn og grafa undan andstæðingum þeirra, bæði í fréttum, ritstjórnarefni og með vali fastra höfunda. Sem er eins gott, því hálfsmánaðarlega birtast staksteinar í Morgunblaðinu þar sem gefið er í skyn að vinstrimenn séu ekki heilagir.

Fréttaþáttur ársins: Tveir þættir í íslenskum fjölmiðlum bera af fyrir hlutleysi í umfjöllun sinni. Spegillinn í Ríkisútvarpinu og þáttur Ólafs Jóhannssonar á Omega, „Ísrael í dag“. Eini munurinn er að það er aðeins annar þeirra sem segist vera hlutlaus.

Fjölmiðill ársins óskar lesendum sínum velgengni og góðvildar á komandi ári.